Þegar ég var barn og unglingur og langt frameftir var ég skíthrædd við bæði hunda og ketti. Ég hafði ekki alist upp við að hafa þau í kringum mig, og ég var viss um að hundar myndu hafa mig í hádegis- eða kvöldmat ef þeir næðu mér. En hvað kettir myndu gera mér var ég ekki með á hreinu, en ég var samt hrædd við þá.
Fyrsta upplifun mín af ketti sem ákvað að ég væri vinur sinn var þegar ég kom frá Ástralíu til að vera með börnum mínum sem þá voru í menntaskóla. Þau höfðu fengið sér kött sem var kallaður Seasar.
Ég var varla komin inn úr dyrunum í fyrsta skipti eftir að koma úr fluginu, fyrr en hann tók ástfóstri við mig, og sat í kjöltu minni þegar ég sat í eldhúsinu. Svo kom hann líka alltaf hlaupandi inn um gluggann þegar hann sá að hann myndi hafa félagsskap hjá okkur.
Þessi köttur var greinilega mjög félagslyndur því að ég lærði fljótt að hann fór út ef enginn var heima, og ég lærði líka að hann hafði fundið tvö önnur heimili í nágrenninu til að halda sér félagsskap og gefa sér að borða þegar enginn var heima hjá okkur eða þeim. Þegar dóttir mín áttaði sig á að kötturinn væri greinilega að fá að borða annars staðar setti hún miða undir hálsbandið með spurningu um hverjir aðrir sinntu honum, og hún fékk tvö bréf til baka sem staðfestingu um að Seasar hefði mikla sjálfsbjargarviðleitni. Tveir nágrannar höfðu sinnt honum og gefið að borða.
Svo ákvað hann að sofa á gólfinu í herberginu sem ég svaf í. Hvort að hann lyktaði það að ég væri skyld þeim sem tóku hann að sér, get ég ekki kvittað fyrir. En ég veit núna að dýr hafa sitt vit og skynjun og lyktarskynjun sem er öðruvísi en okkar mannkyns, lyktarskyn sem dýrafræðingar eru alltaf að stúdera með að hafa myndavélar þar sem kettir eru og við höfum séð mikið af slíku efni frá Bretlandi hér í Ástralíu sem sýna allskonar uppátæki og hegðun hjá dýrum, hundum og köttum sem eru skilin eftir ein heima og inni þegar eigendur eru í vinnu.
Ég elska að horfa á efni um mýrketti, ég held að ég gæti alveg hafa verið einn af þeim í fyrra lífi fyrir mjög löngu síðan en samkvæmt búddhisma höfum við verið dýr áður en við fórum að endurfæðast í mannslíkömum. Mýrkettir hafa mjög strangar reglur um umferðarreglur í sínum hópi sem og félagslífi og mökun í sínum hópum. Þeir eru einnig mjög snarpir í að sjá um að halda liði sínu öruggu ef hætta er á ferð. Þeir standa þá upp á afturfæturna og rýna með sínum fránu augum á umhverfið til að vara alla sína við og hverfa inn í holur sínar ef hætta birtist.
Hér eru þættir sem kallast „Harry´s Practise“ þar sem hann sem dýralæknir sinnir dýrum af öllum tegundum í stofu sinni, eða fer og heimsækir fólk með dýr með hegðunarvandamál. Þann 26. september síðastliðinn hafði maður haft samband við hann vegna þess að hundurinn hans vildi ekki koma upp stigann á vinnustaðnum þar sem hann ver mest öllum tíma sínum. Stiginn var hringstigi sem lítur út eins og genastiginn DNA. Var ég strax viss um hvert vandamálið væri, og staðfesti Harry það. Hann benti eigandanum á að „vertigo“ sem hundurinn þjáðist af væri af því að hann sæi í gegnum rimlana og gæti ekki strax séð næstu tröppu.
Harry setti svo efni fyrir allt handriðið að utan og gaf honum svo góðgæti sem hann setti upp á efri tröppurnar – og það dugði. Nú gat hundurinn séð tröppurnar og það var ekkert til að trufla sýn hans og málið var leyst. Hann fór upp og niður stigann eftir það eins og ekkert væri.
Sögur fulltrúa dýra sem vantar ný heimili
Það er frítt blað hér sem kallast „Messenger“ og í því er alltaf smá pistill um kött eða hund sem er að leita eftir nýrri fjölskyldu. Það eru starfsmenn í skjóli fyrir dýrin sem skrifa þá og þeir eru svo sætir. Svo að ég ætla að deila örfáum af þeim með ykkur á Íslandi enda þekkja þeir persónuleika dýranna og hegðun.
Hér er smá sýnishorn og endursögn frá örfáum þeirra:
Hæ, ég er Andy ég er ellefu ára köttur og afar mikill knúsari og elska atlot. Ég er sannur heiðursmaður (köttur) og elska að hjúfra mig í kjöltum fólks.
Ég elska líka rólegheit og að vera með fólki. Ég verð að láta ykkur vita að ég hef tengst ketti hér sem heitir Princess og við myndum elska að fá að vera á sama heimili.
Við erum innanhússkettir og þurfum reglulega burstun og þvott á okkar fögru, loðnu líkömum. Ég hef mikla ást að gefa og líka aðdáunarverðan besta félaga í Prinsessu svo, hvernig getur nokkur staðist það að hafa okkur hjá sér?
Það er búið að taka mig úr sambandi svo að ég mun ekki verða á höttum eftir kvendýrum fyrir fjölgun og er ánægður að halda mér innanhúss. Svo er líka búið að sjá um að það séu engar lýs eða flær í feldi mínum svo að ég er upplagt innanhússgæludýr. Endilega koma hingað til dýraverndunar-staðarins og heilsa upp á mig og vinkonu mína.
Myndin af honum er af munúðarlegum ketti sem er hugsanlega persneskur og vill lifa það sem eftir er ævinnar í notalegheitum og kræsingum hjá yndislegu fólki. Feldurinn er ljós brúnn og hvítur.
Svo er annar köttur í leit að nýju heimili.
Hæ, ég heiti Footsie, ég er ungur – bara þriggja ára og með andlit sem sýnir að ég hef mikil markmið og ákveðni í lífi mínu. Svo opnaðu heimili þitt fyrir mér, af því að ég er eftir ástríkri fjölskyldu. Ég er algerlega háður athygli og það frá mannfólkinu. Ég hef jafnaðargeð og væri fínn með að vera einn heima. Ég er súper vinalegur og ánægður inni. En nýt þess líka að fá stundum að skreppa út og upplifa ævintýri utanhúss.
Á síðasta staðnum sem ég var á voru börn, og ég passa í raun inn í hvaða heimili sem væri.
Það er búið að gelda mig og sjá um að það séu engin skordýr í feldi mínum, alla vega að svo stöddu. Svo ef þú telur að ég sé þitt fullkomna gæludýr endilega koma og hitta mig í húsakynnum dýraverndunarfélagsins hér.
Gæti Jasper verið uppáhaldsvinur þinn er spurt fyrir hönd hans, og hann játar að það taki sig smátíma að venjast fólki, en þegar hann hafi kynnst því sé hann vinur til æviloka og þarf hann fólk sem virðir þarfir hans til að snyrta feldinn sinn sjálfur sem hann velur frekar að gera en að láta aðra um það, nema þegar hann þarf að vera burstaður.
Það er búið að taka mig, Jasper, úr sambandi og sjá um öll öryggisatriði varðandi skordýr og líka að setja tölvukubb í mig svo að ég komist til skila ef ég færi á flakk og fyndi ekki leiðina heim. Það sama á við um alla hina kettina.
Þeir sem lækna og fræða okkur um dýrin
Hér sjáum við þætti sem kallast „Super Vet“ þar sem alveg himneskur maður úr framtíðinni gerir það fyrir dýr af öllum tegundum sem trúlega fáir eða engir aðrir dýralæknar gera. Hann er í Bretlandi en hann býr til og lætur búa til gervilimi og allskonar gervibein í hunda og ketti og kanínur og skjaldbökur svo að eitthvað sé nefnt.
Svo er Ástralinn Scott sem býr í Englandi og er líka unaðslegur við alla sem koma til hans og með eitt sólskinsbros alla daga. Stundum óska ég þess að ég gæti frekar farið til dýralækna því að mér finnst þeir mun opnari og hlýrri af því að þeir verða að hafa innsæi til að finna út hvað sé að og sleppa því þeim fordómum sem allavega sumir karllæknar hafa gegn því að hlusta á kvenkyn lýsa vandamálum sínum.
Davíð Attenborough kom greinilega inn í þetta líf til að vera málsvari ekki bara dýra og gróðurs heldur líka jarðarinnar í heild og er svo loksins að fá nýja hjálp og framhald á sínu verki í Grétu Thunberg og öllum þeim milljónum einstaklinga ungra sem gamalla til að halda málstaðnum uppi svo að jörðin verði ekki gerð gjaldþrota af dýrum með græðgi og þess að hlýnunin geri það tjón sem margir aðrir hafa séð fyrir en þessi kynslóð með honum sér að verður að halda uppi til að stemma stigu við algerri eyðingu á svo mörgu.
Það er merkilegt að fjórir einstaklingar sem hafa verið í að fræða okkur um dýr jarðar og umheiminn, þau Davíð Attenborough, Jane Goddall, Brian Cox og svo auðvitað Stephen Hawkings sem kenndi okkur um hina stærri mynd heimsins séu öll bresk.
Núna höfum við svo hina frábæru Grétu Thunberg sem með köllun sinni og látleysi er að ýta við hégóma og egói þeirra karla sem þola ekki að svo ung mannvera geti og megi vera sú sem hún er með þau skilaboð sem hún hefur eins og þau hin sem ég hef nefnt komu til jarðar til að sjá um að eitthvað verði eftir af móður jörð fyrir komandi kynslóðir. Hverjir ættu að sjá betur þörfina á því en yngri kynslóðin þó að milljónir okkar eldri séum líka sama sinnis?
Auðvitað hafa öll lífsform vit og eðli af sínu tagi sem og þörf
Ég man eftir að því í uppvexti á Íslandi að það var lengi talað eins og dýr hefðu ekkert vit og væru réttdræp fyrir þörfum mannkyns. Hvalir voru eitt af þeim dýrum sem mikið var séð um að láta okkur trúa að hefðu hvorki tilfinningar né vit. Ég giftist manni sem hafði lært mikið um líf og tilfinningar hvala, og það var heill nýr heimur sem opnaðist þá og enn meira þegar ég sá bókina „The Secret life of Whales“ sem sýnir það sem hann vissi um þá og vit þeirra og þroska í sínum heimi.
Af hverju myndi skapari setja lífsform á jörðu, ef það hefði ekki vit af því tagi sem það þurfi, eins og að skordýr hafa sitt vit, rottur og mýs hafa sitt vit, kindur, kýr og hestar, geitur og lamadýr hafa öll það vit sem þau þurfa? Sem og öll dýrin í Afríku og hvar sem er í heiminum hafa þau dýr sem þar eru það vit sem þau þurfa til að lifa af og forðast þær hættur sem mest sem geti kostað þær lífið. Þó að kerfið sé líka sett upp til að ein tegund dýra fæði sig á öðru dýri og spennan þá alltaf í gangi á milli þeirra dýra sem borða þau og þeirra sem leita að þeim til matar. Dýralíf jarðar er nauðsynlegra fyrir jörðina en við mannverur erum, en við höfum verið svo hrokafull að telja að við séum mikilvægari en öll dýrin. Það kom til dæmis fram hve dýrmæt öll skordýrin séu fyrir jörðina. Skordýr sem ég ólst upp við að væru séð sem óþarfi og óboðnir gestir og rétt dræp hvar sem við sæjum þau. En auðvitað viljum við þau ekki inni í húsunum.
Vit dýra sem ég hef orðið að vitna persónulega hér á heimili okkar þegar mýs fundu sína leið inn. Við lærðum þá mikið um hvað þær hafa lært um eitur sem mannverur hafa búið til til að enda þær. Kerfið sem þær höfðu hér í heimilinu um tíma sýndu alveg svakalega góða hugsun og skipulagningu og forsjálni. Það var ekki fyrr en rottu eitur var sett í gildrurnar að það freistaði þeirra af því að það var nýtt og að við vildum ekki hafa þær búandi með okkur til lengdar og vildum senda þær í músahimnaríkið af því að við gátum ekki náð að taka þær á annan hátt vegna hraða þeirra í að ferðast frá einum stað til annars, þær voru svo snöggar að það var engin leið að fá tak á þeim til að láta þær út.
En upplifunin við að vitna sjálfsbjargar hvöt þeirra og ferðir þeirra frá einum stað í eldhúsinu til annars og svo hingað og þangað um húsið var svo merkileg. Svo þegar ég náði að sleppa fordómum, hræðslu og ógeði, og velja að fara í hlutlaust tilfinningalegt og röklegt viðhorf, og vitna þessi litlu dýr í húsnæðinu þá sá ég að ég yrði að skrifa þessa sögu um það.
Fimm stjörnu músarhótelið
Það var einn dag fyrir einhverjum mánuðum síðan að við Malcolm höfðum séð að mús hafði flutt inn í húsið okkar. Hún var mjög slungin í að láta sem minnst af sér vita, en samt sáum við hana af og til skjótast á milli felustaða á hraða ljóssins. Hún vissi um öll heimilisföngin fyrir sig í hverju herbergi, en ég tel að svefnherbergið hafi ekki verið séð sem hafa nógu gott heimilisfang. Svo lærðum við einn daginn að það var ekki bara ein mús í húsinu heldur tvær, því að ég sá þær koma undan ísskápnum einn daginn og voru vandræðalegar að sjá að við höfðum séð þær.
Og þar sem mannkyn vill í raun ekki deila hýbýlum sínum með músum reyndum við allskonar góðgæti til að geta sent þær inn í músa himnaríki. En í marga mánuði kom allt fyrir ekki og úrræðasemi þeirra sem mannkyn hefur lengi viljað útrýma, sýnir okkur að skaparinn skapaði ekki neitt dýr án þekkingar, visku og sjálfsbjargarviðleitni.
Heimili okkar fyrir þeim var þá auðvitað einskonar fimm stjörnu hótel. Smá mulningar á gólfi eða kex pakki á borði var alger veisla fyrir agnarlitla líkama og veitti svaka orku. Malcolm kom með margar gerðir af góðgæti til að senda þær til músa himnaríkis en allt kom fyrir ekki, þær litu ekki við því. Enda leið þeim vel hér með öll sín sér herbergi. Herbergin voru mörg, þau voru undir og á bak við eldavél á bak við eða undir örbylgjuofninum, og ég sá þær þjóta á hraða ljóssins frá svæðinu að baki eldavélarinnar og framhjá vaskinum yfir bekkinn undir og á bak við samlokugrillið og svo á bak við örbylgjuofninn. Svo voru það samskonar ferðir til baka sem við sáum ekki alltaf og þær fóru líka undir húsgögn í öðrum herbergjum af og til.
Önnur herbergi þeirra voru á bak við bókahillur, undir skattholi og uppáhaldið var undir sófanum þar sem þær komu stundum fram að brún til að kíkja hvort það væri öruggt að skjótast í annað rými. Hvað þessi ferðalög voru um munum við aldrei vita.
Það var svo ekki fyrr en Malcolm kom inn með nýja gildru og góðgæti hannað handa rottum, að það að lokum sendi þær til músahimnaríkis, þar sem ég vona að þeim líði vel.
Nú bara vonum við að það hafi ekki borist orðspor til músaheims um að þessi staður sé frábært fimm stjörnu hótel, alla vega höfum við ekki séð neinar núna né nein merki um ferðalög þeirra um undirheima sína, og ekkert að þrífa upp eftir þær ferðir lengur sem ég er mjög fegin. Auðvitað ber ég vissa virðingu fyrir úrræðasemi og úthaldi músa sem hafa verið undir hæl mannkyns um aldir í þeim tilgangi að útrýma þeim. Þær hafa lifað út ótal aðrar skapanir á dýrum frá upphafi og eru greinilegar snillingar í aðlögun á erfiðum lífsskilyrðum.
Að lokum segi ég eins og þeir segja í Star Wars myndunum „megi heimsaflið vera með þeim“ eða „May the force be with them“ í því hlutverki sem þeim var gefið að hafa, en samt ætlað að vera utanhúss.
En þeim mun meira sem ég hef bæði hugsað um það og svo séð þessi reiðinnar ósköp af efni um dýr og með dýrum og þroska þeirra og sjálfsbjargarviðleitni er það á hreinu að það er vit af réttri tegund í hverju einasta lífsformi sem er á jörðu.
Að endurvíra heilabúið við að flytja hinum megin á hnöttinn
Að alast upp á Íslandi við þau viðhorf að öll skordýr og önnur dýr væru réttdræp og hefðu engan tilgang á jörðu nema sem mat fyrir okkur var mjög vanþroskað álit. En auðvitað var ég ekki glöð að hafa skúffur fullar af silfurskottum í eldhúsinu þar. Svo ég varð að láta spúa þeim út.
Hér opnaðist heimurinn og ég lærði smám saman af manninum mínum sem fæddist hér og er jarðfræðingur og mjög umhverfismeðvitaður um hlutverk og tilgang skordýra. Sú staðreynd að jörðin getur auðveldlega verið án mannkyns en ekki án skordýranna og ætti að minna okkur allt mannkyn á að við erum ekki eins mikilvæg fyrir móður jörð og öll hin dýrin og lífríkin eru. Og Gréta Thunberg er einnig að áminna okkur um á sinn hátt.
Og trúlega getur jörðin ekki heldur verið án músa því að þær eru hér á jörðu enn fyrir það hlutverk sem þær hafa, trúlega einskonar ryksugur jarðar, þrátt fyrir að mannkyn hafi verið mjög áfjáð um að útrýma þeim og rottunum. En samt hafa þessi litlu hröðu dýr náð að hafa vinninginn, og eru enn meðal okkar. Þó að það sé oftast í leyni. Því að þessi dýr vita að mannkyn sé á eftir þeim. Það sást mjög vel í því hvernig þær þutu um hér hjá okkur á hraða sem fáir ná til að fanga þær með höndunum.
Og auðvitað hefðu kettirnir sem ég hef endursagt smá sögur um verið glaðar að fá músamáltíð hér, ef við hefðum haft kött.
Maður lærir að endurvíra heilabú sitt varðandi hugsanir um býflugur, fugla, kengúrur og hreinlega allt dýra- og skordýralífið til að vera ekki að lifa í taugahrúgu ímyndaðs skorts á öryggi.
En þegar ég var fyrst hér og mest þegar ég kom í heimsókn árið 1986 elskuðu moskítóflugurnar auðvitað „Icelandic take away“ Nesti frá nýjum blóðstokk, blóð og ég var með merki um þá ást þeirra um hálsinn og öklum og úlnliðum í þeirri fyrstu ferð. Þær sáu það kannski sem sína leið til landkynningar? Svo smá misstu þær lystina á blóði mínu þeim lengur sem ég hafði verið hér, enda hefur blóðið þá verið orðið meira Ástralskt en Íslenskt. Og þær láta mig hreinlega í friði á síðustu áratugum.
Lífið hér kennir manni að setja allt með lífsformin í rétt samhengi, sum tilheyra utanhúss og eru kóngulær og slíkt alltaf settar í glas og bornar út ef þær hafa læðst inn.
Kakkalakkar eru samt þau skordýr sem enginn reynir í raun að vernda og eru til sérstök efni í hólfum sem maður setur hér og þar í þeirri von að halda þeim frá heimilinu. Spendýr sem kallast possums á ensku eru oft hrifnir af að halda sér á þökum og líka að njóta ávaxta sem eru ræktaðir í görðum, og fólk mishrifið af því að deila því með þeim.
Sum dásamleg áströlsk dýr eru sjaldséð hér í Adelaide eins og til dæmis possum og kóalabirnir og auðvitað er „platypus“ falinn í vatni og sjaldséður nema maður fari í dýragarða þar sem þeir eru í vatni en samt sýnilegir. Kengúrur hef ég ekki séð hlaupandi um í borginni en það eru margar í dýragarðinum Cleland sem er uppi í hlíðum Adelaide.
Við njótum þess að sjá alla mögulega fugla hér í garðinum okkar sem Malcolm hefur gróðursett plöntur í til að laða þá að þeim og fæða þá. Við höfum stundum séð heilan flokk af galah-fuglum af páfagaukategund og eru þeir bleikir, hvítir og gráir.
Fyrir meira en áratug síðan ákvað vatnshæna að taka sér tímabundna búsetu í garðinum okkar og var það af því að hún var særð og fann sig hér til að heila fótinn á sér.
Hún fékk algeran frið og það kom enginn köttur til að hafa hana fyrir sína næstu máltíð. Svo einn daginn var hún farin og þá trúlega orðin góð í fætinum.
Ríkidæmið í ástralskri náttúru er einstakt og í raun ekki hægt að lýsa því í orðum svo vel sé. Svo eins og með alla náttúru og landslag hvar sem er í heiminum er sjón og upplifun sögunni ríkari.
Og gróður hefur líka sitt vit þó að við getum ekki numið það. Við sáum efni frá Bretlandi þar sem sérfræðingar um tré fóru með Judi Dench leikkonu og sögðu henni um innri tengingar trjáa og að þau eigi tjáskipti undir yfirborði jarðar þar sem ræturnar eru og teygja sig vítt og breitt. Það eru svo mikið fleiri orkuvíddir í náttúrunni en mannkyn hefur náð að skynja eða viljað viðurkenna að væri veruleiki.