Umferð um Ártúnsbrekku er um 100.000 bílar á sólarhring samkvæmt útreikningum VSÓ ráðgjafar. Það eru að jafnaði yfir 4.000 bílar á hverri klukkustund allan sólarhringinn. Margir hafa upplifað bílafossinn í Ártúnsbrekku sem líkist helst risastórri jólaseríu. Í Reykjavík fer svifryksmengun nokkrum sinnum á ári yfir heilsuviðmiðunarmörk, sem þýðir að börnum og fólki með viðkvæm öndunarfæri er ráðlagt að vera inni. Þessi mengun berst sérlega vel til þeirra sem sitja í umferðinni. Árið 2017 var um 32% losunar af þeirri losun gróðurhúsalofttegunda sem fellur undir skuldbindingar Íslands til Parísarsamningsins frá vegasamgöngum. Markmiðið er að minnka losun frá þessum þætti um 50% fyrir árið 2030 miðað við 2017, það er eftir 10 ár.
Hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum á höfuðborgarsvæðinu árið 2017 var um 4%.
Til þessa að fleiri notfæri sér strætó sem samgöngumáta, þarf að verða breyting á menningu og á viðhorfi gagnvart því að nota strætó. Það er ekki valkostur fyrir alla að hætta alfarið að nota einkabíl en fyrir marga væri hægt að nota strætó, ganga eða hjóla stundum.
Góð reynsla af þjónustu Strætó – það er ekkert vesen nota á strætó (í 99,9% tilfella)
Fyrir leiðina sem ég hef tekið til vinnu, kemur strætó yfirleitt akkúrat á réttum tíma, oftast á mínútunni. Á þeim 18 mánuðum sem ég hef notað strætó lenti ég aldrei í því að komast ekki til eða frá vinnu vegna veðurs, en hef þó flýtt eða seinkað ferðum eftir veðurspá. Þegar það hefur komið fyrir þá hefur veðrið verið þannig að það væri líka erfitt að ferðast um á einkabíl. Ég hef nær aldrei lent í ófyrirséðum töfum umfram 15 mínútur, sirka 3 sinnum á 18 mánuðum. Þegar það gerist þá er ekkert í því að gera, annað en að hringja og láta vita ef þannig stendur á.
Strætó veit líka fyrir fram af framkvæmdum og töfum, og gerir ráðstafanir til að komast sem best leiða sinna í þannig aðstæðum. Það er ekki endilega hægt þegar maður er á eigin bíl.
Undanfarin ár hafa strætisvagnarnir líka orðið snyrtilegri og þægilegri að sitja í, þó að einstaka sinnum lendi maður á gömlum dísil skrjóð, sem Strætó mun vonandi endurnýja sem fyrst. Auk þess bíður þjónusta Strætó upp á snjallforrit og þjónustuvef, og svarar fyrirspurnum á vefnum og í síma með miklum sóma.
Kostir við að nota Strætó
Sparnaður
Miðað við árlega samantekt Félags Íslenskra bifreiðareiganda frá 2018 kostar um 60-80 þúsund kr. á mánuði að reka meðal bíl á Íslandi. Árskort í strætó kostar 78.000 kr. Það eru 6.500 kr. á mánuði. Margir vinnustaðir bjóða auk þess upp á samgöngustyrk fyrir þá sem nota almenningssamgöngur til ferða til og frá vinnu. Þannig getur samgöngukostnaður jafnvel orðið jákvæður. Sá sparnaður réttlætir auðveldlega nokkrar leigubílaferðir á mánuði og jafnvel kaup á 66°N úlpu eftir nokkra mánuði. Fyrir marga væri þetta ríflegur sparnaður fyrir íbúðarkaupum og aðstoð við greiðslumat vegna minni fjárhagslegra skuldbindinga.
Ekkert umstang vegna bíls
- Ég þarf aldrei að taka bensín
- Ég þarf aldrei að skafa snjó
- Ég þarf aldrei að þrífa bíl
- Ég þarf aldrei að leita að bílastæði eða borga í stöðumæli
- Ég þarf aldrei að borga bifreiðatengd gjöld
- Ég þarf aldrei að hafa áhyggjur vegna viðgerða eða viðhalds á bíl
Útivera og hreifing
Flestum finnst gott að stunda útivist og anda að sér frísku lofti, t.d. með heilsubótargöngu. Bíllaus lífsstíll gerir það hluta af hversdagsleikanum, á hverjum degi er tími til útiveru. Maður hreyfir sig án þess að gefa því gaum og helst í kjörþyngd átakalaust.
Það kæmi mörgum á óvart að oft er ekki svo erfitt að ganga stuttar vegalengdir í roki. Það gerist ekkert slæmt. Það þarf mikið til að maður fjúki (það verður að vísu að játa að það hefði getað gerst suma daga síðastliðinn janúar síðastliðnum). Kannski fær maður rjóðar kinnar og maskara út á kinn, en það er hægt að laga það.
Minna stress
Það er afslappandi að sitja í strætó. Oft þarf að flýta sér að ná strætó, en þegar í strætó er komið er ekkert stress. Maður veitir því lítinn gaum hvort það sé mikil umferð, hvort aðrir bílar keyri hægt eða hvort vagninn lendi á rauðu ljósi.
Þegar maður á ekki bíl er maður minna á spani út um allan bæ. Maður metur betur hvort erindið sé mikilvægt eða skoðar hvort það sé hægt að útrétta í göngufæri, og gefur sér kannski betri tíma þannig að það verður meira næði.
Ókostir
Sum erindi þarfnast bíls. Ég hef vissulega fengið hjálp frá fjölskyldu og vinum sem eiga bíl, en það hefur verið sjaldnar en við mætti að búast og þá oftast þannig að við erum að erindast eitthvað saman. Það eina sem hefur verið vesen er að komast út á land. Almenningssamgöngur ganga ekki á alla staði og innanlandsflug er dýrt. Þá eru fá önnur úrræði.
Hvernig má styðja við bíllausa lífið
Þó að það séu helst tíðni ferða, staðsetning strætóstoppustöðva og ferðatími sem skipti máli fyrir farþega almenningssamgangna, þá er fleira sem hefur áhrif á upplifunina og sem gæti komið sér vel.
Það sem er kannski helst vanmetið þegar kemur að því að fara ferða sinna án bíls, er mikilvægi þess að umhverfið sé aðlaðandi. Það skiptir máli hvort það séu stór bílastæði, óaðlaðandi húsnæði og breiðar umferðargötur eða hvort umhverfið bjóði uppá snyrtilegar gangstéttar, gróður og aðlaðandi byggingar. Annað sem hefur mikil áhrif eru hverfisbúðir og staðsetning þjónustu innan hverfa, t.d. læknar, tannlæknar, kaffihús, snyrtistofur og líkamsræktarstöðvar. Þessa innviði mætti styðja og styrkja.
Nýlega ákvað Vínarborg að setja upp kerfi þar sem þeir sem fara á milli staða í borginni með almenningssamgöngum, gangandi eða hjólandi geta unnið sér inn aðgang að tónleikum og söfnum. App fylgist með ferðum notandans og þegar útblástur vegna ferða viðkomandi hefur sparað jafnvirði 20 kílógramma útblásturs koldíoxíðs fær hann gjafabréf.
Þetta er skemmtileg og jákvæð leið til að hvetja fólk til að prófa nýjar leiðir. Til að hvetja fólk enn frekar til að fækka ferðum með einkabílnum eða styðja þá sem nota aðrar samgöngur væri hægt að leita samstarfs í formi afslátta hjá fyrirtækjum sem geta auðveldað bíllausan lífsstíl, t.d. hjá
- Bílaleigum
- Leigubílafyrirtækjum
- Innanlandsflugi
- Útivistarverslanir
- Skóbúðum
- Veitingaþjónustu í nálægð strætóstöðva
- Strætó og öðrum farþegaflutningafyrirtækjum á landsbyggðinni
- Vefmiðlum sem selja hversdagsvörur (eins og Heimkaup)
Það er mikil hvatning að fá samgöngustyrk frá vinnuveitanda, en vinnuveitendur geta skapað frekari hvata með því að leyfa 10-15 mínútna styttri viðveru fyrir þá sem nota almenningssamgöngur til að vega upp á móti lengri ferðatíma og með því að hafa aðstöðu til að hengja af sér og skipta um föt áður en í vinnurýmið er komið.
Borgin og Strætó mættu bjóða upp á steypt og þéttbyggð strætóskýli líkt og því sem stendur Menningarhúsinu í Hamraborg og smá dekur eins og upphitaða aðstöðu á stærstu skiptistöðvunum. Jafnvel væri hægt að bjóða upp á ókeypis kaffi og te.
Það er betra fyrir alla að draga úr umferð
Það er ódýrt að taka strætó og það er raunhæfur kostur fyrir marga, en ekki alla. Í skýrslu frá VSÓ ráðgjöf kemur fram að árið 2030 þegar borgarlína og Sundabraut verða komin í notkun, munu samt sem áður 85.000 bílar keyra um Ártúnsbrekku á sólarhring. Gert er ráð fyrir að þá muni 30.000 bílar fara um Sundabraut og síðan bætast við umferð á Sæbraut.
Það er fólk á höfuðborgarsvæðinu sem eyðir um klukkustund í bíl á leið til og frá vinnu. Ekki er útlit fyrir að það muni draga úr umferð á næstu misserum ef ekkert breytist. En eftir því sem fleiri taka strætó, ganga eða hjóla verður minni bílaumferð og betra umferðarflæði. Þá verður meira pláss á götum borgarinnar fyrir þá sem velja einkabílinn, minni þörf fyrir vegaframkvæmdir, betri loftgæði, minni umferðarniður, minni útblástur koldíoxíðs og borgin verður almennt meira aðlaðandi staður til að búa á. Það er full ástæða til að hvetja fólk til dáða til að nota þjónustu Strætó.
Ég hvet alla til að skoða strætó samgöngur og athuga verslanir og þjónustu í göngufæri við heimili eða vinnustað. Síðan prófa að fara ferð án bílsins.