Það er merkilegt hvernig hægt er að snúa út úr og snúa á haus hlutum sem eru svo augljósir. Eitt skýrasta dæmið um það er pistill fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins, Styrmis Gunnarssonar um Brexit, útgöngu Bretland úr ESB í Morgunblaðinu 1. febrúar síðastliðinn (Frelsun Bretlands). Þar eru dregnar fram allar gömlu og þeyttu klisjurnar um ESB („embættismannaklíkan“/„ægivald embættismannakerfisins“ ) og svo framvegis. En það er hins vegar staðreynd að öll ríki ESB og öll nútíma ríki nota skrifræði („bureaucracy”) og regluverk, enda eru það stjórnarhættir siðaðra þjóða.
Styrmir notar pistil sinn til þess að hamra á þeirri megnu andúð (nánast hatur) á ESB, sem hefur þrifist á síðum Morgunblaðsins síðan Davíð Oddsson, fyrrum forsætisráðherra Íslands, tók við ritstjórn blaðsins árið 2009. Sennilega hefur hundruðum dálkmetra verið eytt í gremju ritstjórans út í ESB og útgerðargreifar hafa ausið hundruðum milljóna í taprekstur blaðsins. Fengnir hafa verið til liðs við blaðið margir af helstu „andúðarpennum“ landsins, til að setja á hina og þessa staði í því.
Markmiðið að sverta ESB
Allt er þetta með það að markmiði að sverta ESB sem mest og annað markmið var að sjálfsögðu að vinna hatrammlega gegn aðildarumsókn Íslands að ESB og verja þar með sérhagsmuni sjávarútvegs og landbúnaðar á kostnað almannahagsmuna. Það tókst og aðildarumsóknin að ESB sett á ís á sínum tíma.
Styrmir byrjar á að segja að stórir hópar í Bretlandi líti á það sem „einskonar frelsun“ að landið fari út úr ESB. Það má vel vera fyrir þann hóp sem kaus að fara út, en vert er að minna á að það er álíka stór hópur sem vildi vera áfram innan ESB (48.1% vildu vera áfram, 51.9 vildu út). Varla lítur því þessi stóri minnihluti á þessa aðgerð sem frelsun. Í Skotlandi vildu 62% Skota vera áfram, en aðeins 38% vildu út. Þetta er því alls ekki frelsun fyrir þá.
Síðan má hreinlega velta því fyrir sér almennt hvort Bretar séu eitthvað „ófrjálsari” en aðrar þjóðir í Evrópu. Þeir geta jú gert nánast það sem þeim dettur í hug, þ.e.a.s almenningur, farið hvert á land sem er, stundað „bisness” út um allar jarðir. Styrmir lætur hins vegar í það skína að Bretar og Bretland sé að losna undan allsherjar helsi.
ESB aðild lykilatriði í hagsæld Bretlands
Langflestir fræðimenn á sviði Evrópumála eru hins vegar á því að aðild að ESB hafi gert Bretlandi mjög gott, en þegar landið gekk inn fyrir um 40 árum síðan var það frekar staðnað og útlitið ekki bjart. Í skjóli aðildar að ESB hefur t.d. ein helsta miðstöð nútíma fjármála í heiminum („City”) verið byggð upp. Um þessi mál má lesa hér. Og aðgangurinn að Innri markaði ESB er talin hafa skipt lykilmáli fyrir aukna hagsæld í Bretlandi (rétt eins og hér á Íslandi.)
Annað sem Styrmir ræði í grein sinni er það sem hann kallar „virðingarleysi fyrir sérkennum og menningu hverrar þjóðar“ og hroka „lítillar embættismannaklíku, sem taldi sig ekki þurfa að taka neitt tillit til lýðræðislegra stjórnarhátta.“ Undirritaður áttar sig ekki á hvert Styrmir er að fara hér. Undirritaður fylgdist (og fylgist) mjög vel með öllu því sem tengist Brexit og fær ekki betur séð en að ESB hafi tekið fullkomlega tillit til þeirrar ákvörðunar sem breska þjóðin tók.
Fullt tillit tekið til Breta
Í Brussel þótti mönnum leitt að landið skyldi vilja yfirgefa ESB. Það féllu vissulega hörð orð á Evrópuþinginu, en frá degi eitt var það stefna ESB að ná samningum við ESB og láta „embættismannaklíkuna“ vinna sitt verk. Enda var það þannig að á fyrsta samningafundi kom hin „hrokafulla embættismannsklíka“ vel undirbúin til leiks, Bretar hins vegar tómhentir, eins og fræg mynd af þessu sýnir. Niðurstaðan er því sú að fullt tillit hafi verið tekið til óska og vilja Breta í þessu málum, en staða ESB er auðvitað sú að sambandið er (og var) að verja hagsmuni 27 aðildarríkja. Annað væri fullkomlega óeðlilegt.
Síðan segir Styrmir að lýðræði hafi ekki verið „í hávegum haft í uppbyggingu Evrópusambandsins,“ en hefur t.d. ferlið í sambandi við Brexit ekki verið mjög lýðræðislegt? Menn hafa hist („embættismannaklíkur“ væntanlega, bæði frá ESB og Bretlandi), málin hafa verið rædd og menn komist að sameiginlegri niðurstöðu (t.d. útgöngusamningur), með hagsmuni beggja að leiðarljósi. Hvað er lýðræðislegra en það?
Heimatilbúin Brexit-vandræði
Aðal vandræðin við Brexit, var hins vegar allsherjar vandræðagangur á breska þinginu um málið og hvernig brást ESB við því? Kúguðu þeir Breta? Nei, Bretum var veittur frestur á frest ofan meðan menn engdust sundur og saman í London. Var ESB ólýðræðislegt hér? Nei, Brussel, sýndi hér ótrúlegt langlundargeð. Höggvið var svo á þennan hnút í kosningum í desember síðastliðnum, þar sem Íhaldsflokkurinn fékk ótvíræðan meirihluta á breska þinginu.
Allt tal Styrmis um að ESB hafi reynt að kúga Breta og „unnið skipulega að því að koma í veg fyrir útgöngu Breta með aðstoð „fimmtu herdeildar““ er því óskiljanlegt. Hverjir voru í þessari „fimmtu herdeild“? Voru það t.d. Írar, sem reyna hvað þeir geta til að verja hagsmuni sína, enda geisaði borgarastyrjöld á árunum 1969-1999 þar í landi (N-Írlandi), sem kostaði um og yfir 3000 mannslíf? Það vill engin nýtt stríðsástand á N-Írlandi/Írlandi! Voru það Norðurlandaþjóðir ESB? Spánverjar? Ítalir? Hverjir voru á fullu að reyna að koma í veg fyrir útgöngu Breta?
Styrmir heldur svo „kúgunartali“ sínu áfram og slær þar á strengi sem allir andstæðingar ESB á Íslandi slá á, þ.e.a.s. að ef Ísland gengi í ESB, yrði það fyrsta verk sambandsins að kúga okkar litlu þjóð með einhverjum hætti, rétt eins og ESB sé eitthvað samansafn af sadistum, sem bara bíða eftir því að geta kúgað litla Ísland.
Nú hefur Ísland verið í EES-samstarfinu í 25 ár, sem þýðir að við erum nánast með annan fótinn í ESB. Af hverju er ESB ekki búið að kúga okkur linnulaust í gegnum EES? Já, hreinlega bara níðast á örþjóðinni? Síðan er það samdóma álit nánast allra (nema einhverra örfárra „kverúlanta”) að EES-samningurinn sé eitt mesta framfaraspor í sögu Íslands. Þetta er meira að segja skoðun fyrrum forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins, Geirs Haarde og fleiri ráðamanna innan hans. Enda er enginn vilji innan flokksins að fara úr EES. Þetta er því gjörsamlega óskiljanlegt, „kúgunartalið“ um ESB.
Í lok pistilsins segir Styrmir svo að breskir embættismenn sem voru hlynntir aðild landsins að ESB hafi litið á það sem aðferð til að tryggja Bretum alþjóðleg áhrif, en það hafi ekki tekist. Þetta tengir Styrmir við nýlendusögu Breta (sem er reyndar ekki fögur eins og hann bendir réttilega á) og ýmis ævintýri þeirra sem nýlenduveldi (Súez-deiluna). Nú, ef það er svo að Bretar eru svona fúlir yfir því að þeir réðu ekki öllu í ESB, þá eru þeir á leiðinni út og það er bara allt í lagi. Þeir kusu það, þeir voru ekki stoppaðir í því að gera það og nú verða þeir þá bara að spjara sig.
Tími að endurskoða aðildarumsókn?
Það er hins vegar umhugsunarefni fyrir Ísland og vesturvæng Evrópu og þeirra landa sem liggja að Atlantshafinu, hvernig þau ætla að bregðast við því tómarúmi sem nú skapast við útgöngu Breta, með sínar tæpu 68 milljónir manna.
Það er að mínu mat full ástæða til þess að hefja í alvöru endurskoðun og jafnvel endurupptöku á aðildarumsókn Íslands að sambandinu. Fyrir því eru margvísleg rök sem ekki verða tíunduð hér (kannski í annarri grein) en nefna mætti t.d. auknar erlendar fjárfestingar í kjölfar mögulegrar aðildar (hefur gerst hjá öllum aðildarþjóðum), aukin fjölbreytni í atvinnulífi, aukin samkeppni, stór og sterkur alþjóðlegur gjaldmiðill, umhverfismál og fleira.
Áskoranir framtíðar eru margvíslegar og með aðild væri hægt að hugsa sér nýja „Norræna vídd,“ sem mögulega gæti styrkst enn frekar með aðild Skota, ef þannig færi að Skotland myndi verða frjálst land (Scexit-frá Betlandi) og sækja um aðild að ESB. Þeir myndu örugglega fá þar inni. En nú erum við komin nokkurn spotta inn í framtíðina, en hún kemur einn daginn. Hægt að bóka það.
Höfundur er MA í stjórnmálafræði.