Kjaradeila Eflingar og Reykjavíkurborgar snýst um að fá fram hóflegt endurmat á störfum í neðsta enda launastigans, hjá fólki sem býr á dýrasta svæðinu í dýrasta landi jarðarinnar – í Reykjavík.
Þetta eru að stærstum hluta störf við leikskóla og umönnun, sem einkum eru kvennastörf.
Þetta eru lægst launuðu störfin í landinu, ekki síst þau störf sem eru á leikskólum.
Kvenna- og jafnréttisbarátta síðustu ára hefur í auknum mæli beinst að svokallaðri jafnlaunavottun, sem gengur m.a. út á að tryggja að láglaunakonur séu ekki lægri en láglaunakarlar.
Kynbundin launamunur, sem jafnlaunavottun beinist að, telur almennt á bilinu 5-10% en stéttbundinn launamunur telur í hundruðum prósenta. Það síðarnefnda skiptir mestu máli ef menn vilja jafna stöðu og tækifæri kvenna og karla.
Þessi jafnlaunavottun beinir hins vegar aldrei sjónum að mun milli láglaunastarfa og hálaunastarfa og sniðgengur þá staðreynd að konur safnast í miklu meiri mæli en karlar í láglaunastörf, sem mörg eru einmitt við uppeldi barna á leikskólum og við umönnun og þjónustu ýmiss konar.
Jafnréttisbarátta sem horfir einkum á jafnlaunavottun bregst láglaunakonum í öllu því sem mestu máli skiptir varðandi kjarajöfnun og viðunandi afkomu.
Enda er niðurstaðan sú, að láglaunakonur hafa setið eftir og sá stóri hópur sem mannar ófaglærð uppeldisstörf á leikskólum er lægst metinn til launa af öllum starfsstéttum í landinu.
Lægst metnu störfin
Eins og sjá má á myndinni hér að neðan er ófaglært starfsfólk leikskólanna lægst í neðri enda launastigans á íslenska vinnumarkaðinum, með 375.000 krónur í heildarlaun á mánuði. Allra lægst!
Ef ófaglærð starfskona á leikskóla færi að vinna á kassa í Bónus eða Hagkaupum (sbr. „Afgreiðslufólk í dagvöruverslun“ á myndinni) myndi hún hækka úr 375.000 í 443.000 kr. á mánuði, eða um 68.000 krónur.
Hverjir vinna á kassa í Bónus? Jú, það er að stórum hluta ungt fólk sem er þar einungis tímabundið, og reyndar margt í hlutastörfum með fram skólagöngu. Fáir eru þar í fullu starfi.
Ef leikskólastarfsfólk færi að vinna sem verkafólk við fiskvinnslu eða iðnað myndi það hækka launin sín úr 375.000 í um 482.000 krónur, eða um 110.000 krónur á mánuði.
Og ef viðkomandi færi að vinna við glugga- eða bílaþvott, eða á lyftara þá fengjust enn hærri laun.
Er þetta eðlilegt mat á störfum við uppeldi barna og umönnun almennt?
Þegar horft er til faglærðra leikskólakennara (sem eru efstir á myndinni) þá fá þeir lægstu heildarlaunin í hópi háskólamenntaðra sérfræðinga í landinu, eða um 543.000 krónur á mánuði.
Það gildir síðan bæði um faglærða og ófaglærða starfsmenn leikskólanna að engin starfshópur á vinnumarkaðinum hefur minni aukatekjur ofan á grunnlaunin.
Nokkrir starfshópar eru með lægri grunnlaun en leikskólafólk (sjá ljósgráu súlurnar á myndinni), en allir hafa hins vegar meiri aukatekjur en leikskólafólk (álagsgreiðslur, yfirvinnu o.fl.), sem skilar þeim hærri heildarlaunum en bjóðast á leikskólunum.
Tillaga Eflingar um leiðréttingu fyrir lægstu hópana lagar þessa stöðu þeirra allra lægstu lítillega (um 20 til 50 þúsund kr.) – en ætti með réttu að vera meiri ef menn vilja virkilega endurskoða hið furðulega mat sem lagt er á störf þeirra sem vinna við uppeldi og umönnun.
Rekstur leikskólanna er ekki í samræmi við lög
Í lögum um leikskóla er skýrt að um 67% starfsfólks skuli vera faglært. Nú er hlutfall faglærðra leikskólakennara einungis um 25%. Ófaglærðir eru stærsti hluti starfsmanna.
Um árabil hefur verið viðvarandi flótti faglærðra starfsmanna af leikskólunum, vegna vaxandi álags og mikillar óánægju með laun.
Þessari þróun hefur fylgt verulega aukin starfsmannavelta og tíðar fjarvistir sem gerir allt starfið erfiðara og meira krefjandi fyrir starfsfólkið.
Þessi óheillaþróun þýðir ekki bara að starfsemi leikskólanna er ekki lengur í samræmi við lög, heldur eru starfsskilyrði allt önnur og verri en þegar þessum störfum var skipað í launaflokk á grundvelli starfsmats Reykjavíkurborgar.
Það er því mikil þörf á algerlega nýju starfsmati sem tekur í senn mið af þessum breyttu starfsskilyrðum og hinu óeðlilega vanmati á mikilvægi þessara starfa.
Ef borgaryfirvöld koma til móts við kröfur Eflingar mun rekstur leikskóla og skyldra sviða hjá borginni batna. Endurmat á launum þessara hópa er forsenda þess að slíkur árangur náist.
Er það ekki ábyrgð borgaryfirvalda að tryggja að starfsemi leikskóla sé innan ramma laganna?
Hvers vegna er ekki tekið á þessu máli á uppbyggilegan hátt?
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu-stéttarfélagi.