Við erum öll jarðarbúar. En sem jarðarbúar höfum við öll fæðst á einhverjum einum stað. Þar höfum við vanist siðum og viðhorfum og hvað var í boði fyrir okkur af mat og öðrum jarðargæðum, eða ekki.
Svo var flestum kennt að staðurinn sem þau fæddust á væri sá besti í heimi og réttur fyrir þau. Það er kallað þjóðernishyggja og þjóðernisstolt.
Staðurinn sem við fæðumst á séður sem hafa einstakt mikilvægi fyrir okkur og rætur okkar. Sem sál er hugsanlega möguleiki á að við höfum kosið það þegar við ákváðum inn í hvaða móðurlíf við skutumst þegar færi gafst? Eða að það var blind sending á okkur þangað.
Við erum öll mannverur en litur húðar fer eftir lögmálum sem hafa ekki verið útskýrð nægilega vel, og mannkyn er greinilega enn í vandræðum með sjá þau mál á heilbrigðan hátt. Ég tel að þau séu frá því hvaða magn sólar var á staðnum þar sem hópurinn var skapaður og staðsettur á í upphafi eða við fæðingu á stað þar sem þess er þörf.
Litum húðar er að fjölga við að fólk giftist og eignast börn með einstaklingum með annan húðlit og dæmið er þess vegna að breytast og það til góðs til að skilja að fordómar gegn húðlit einum séu ekki réttir til að meta mannverur.
En það að tala sama tungumáli þýðir ekki að hugsun og tilfinningar eða viðhorf séu endilega þau sömu í systkinum, eða ættingjum þó að við komum frá sömu líkömum foreldra. Af því að það að tengjast, er að tala saman og finna að það séu sameiginleg viðhorf, áhugamál, verðmætamat og hvað okkur líki í lífinu og í þeim heimi sem við þekkjum þá.
Og samkvæmt því sem Stephen Hawking sagði í síðustu bókinni sinni höfum við heil reiðinnar ósköp af vali við fæðingu í genabankanum sé á við magn upplýsinga á síðum hundrað Harry Potter bóka, þegar við eða hvað sem það er sem sér um sköpun og byggingu á líkama okkar í móðurkviði gerist. Það gerist með því sjálfvirka kerfi sem þar er. Kerfi sem stýrir blöndunni svo að allt fari á réttan stað á réttum tíma.
Sú fjölbreytni á það til að gera börn að útlendingum í sinni eigin fjölskyldu, en kannski meira á fullorðinsaldri. Sum börn upplifa sig samt sem útlending á eigin heimili frá unga aldri. Tilfinningin að upplifa sig sem passa inn í hópinn er það sem flestir vilja upplifa sem börn. Ef þau eru ekki að upplifa það líður þeim eins og þau séu útlendingar í eigin fjölskyldu, það er blóðfjölskyldu, og er erfið tilfinning þangað til að þau læra að skilja hver þau séu í raun sem einstaklingar.
Það að sjá og upplifa útlendinga sem koma til Íslands vera meðtekna með mis-vinsamlegu viðhorfi er sorglegt, ekki síst þegar þau eru venjulegar fjölskyldur í leit að friði á nýjum stað. Vilja upplifa að tengjast nýjum hópi.
Orðið út-lendingur er athyglisvert í þessu samhengi. Af því að hver mannvera er í raun útlendingur þegar kemur að næstu mannveru.
Við þekkjum foreldra og systkini í raun ekki að neinu gagni né magni, fyrr en við erum eldri og náum að spyrja foreldra og systkini okkar ótal spurninga um hvað skipti þau máli, drauma og þrár og annað, sem og auðvitað frá hegðun þeirra gagnvart okkur.
Ályktunin sem var svo algeng að við þekktum systkini okkar af því að þau voru frá sömu foreldrum reynist oft vera blekking.
Blekkingin sem fólki var innrætt af trúarbrögðum að við þekktumst sjálfvirkt af því að við hefðum sama húðlit og töluðum sama tungumál, gerir lífið oft erfitt.
Það er af því að það er ekki lögð nærri næg áhersla á að fjölskyldumeðlimir verji nægum tíma frá upphafi æsku til fullorðinsára fyrir alla til að læra hvað býr í þeim sjálfum og öllum hinum.
Þegar þau kynni eru ekki gerð frá upphafi eru líkur til að sumir einstaklingar fari að upplifa sig sem útlendinga í eigin fjölskyldu, þó að allir séu með sama húðlit og frá sömu einstaklingum sem foreldrum og borði við sama matarborðið. Sálarskyldleiki er nefnilega ekki sá sami og blóðskyldleiki og eftir því sem fólk verður eldra áttar það sig oft á því varðandi systkini og ættingja.
Annað tungumál og annar húðlitur
Um aldir áður en flugvélar komu til sögunnar gerði fólk sér það að góðu að halda sig til í landinu þar sem það fæddist. Um aldir lifði hver á sínu skeri og sá engar aðrar eða öðruvísi hörundslitar mannverur.
Seinna og með tækni fjölmiðla fór þetta dæmi að breytast. Um aldir sá mannkyn sig sem mjög aðskilið frá fólki sem hafði fæðst í öðru landi. Aðskilið tilfinningalega sem andlega og stundum fylgdi því ótti við hinn aðilann bara af því að húð þeirra var öðruvísi á litinn.
Íslenska nafnið var útlendingur. Það er athyglisvert að skoða hvað orð segja í raun. Því að það orð segir að mannveran sé í raun utan við þá sem eiga heima þar ef mannvera frá öðru landi birtist.
Litskrúð mannkyns er stórkostlegt og nú á tímum hraðra ferða heimsenda á milli, er dæmið að breytast. Æ fleiri af einum húðarlit sem hafði aldrei séð mannveru með öðrum húðarlit eru að sjá og upplifa einstaklinga af öllum litum og það líka á sjónvarpsskjám og í kvikmyndum. Og fólk er í auknum mæli að giftast einstaklingum með allt annan húðarlit. Og börn þeirra fá oft blöndu af lit beggja.
Þeim mun meira sem fólk af öllum litum eiga tjáskipti við hvert annað þegar sama mál er talað, þá smábreytist þessi upplifun um hver sé í raun útlendingur.
Það gerist af því að þá fer að koma í ljós hvaða einstaklingur og hvaðan svo sem hann eða hún hefur komið í heiminn geta átt mjög margt sameiginlegt þegar upp er staðið og farið er að tala saman. Þá kemur mannveran fram og liturinn skiptir ekki lengur máli.
Hvað gerir hinn aðilann að öðrum?
Áður en flugvélar komu til sögunnar og allir lifðu með fólki með sama húðlit var lífið takmarkað hvað varðaði fjölbreytileika, en flestir voru sáttir við þann kunnugleika.
Það sem svo gerir hinn að öðrum og óvelkomnum útlendingi, er ef og þegar þeir hafa mjög ólíkt verðmætamat, eins og því til dæmis að trúa því að það sé rétt að drepa fólk. Til dæmis eins og sumir trúa því að hann fái með því sjö hreinar meyjar á himni sem verðlaun fyrir að drepa sem flesta.
Út-lensk hugsun sem finnur hvergi neinn hugrænan samastað í þeim sem sjá það ekki sem rétt að drepa aðra, og sjá það ekki sem satt eða rétt að slík verðlaun séu til eða gerist. Né er hægt að fá staðfestar sannanir um slíkt frekar en um margt annað sem er okkur ósýnilegt og ekkert slíkt komið upp í tímum þegar ég hef fengið sögur um fyrri líf einstaklinga. Þó að einstaklingar fái stundum að upplifa hinn ósýnilega heim á athyglisverðan hátt í núinu hér á jörðu.
Svo núna á síðari árum þegar þúsundir einstaklinga hafa orðið að flýja sitt eigið fæðingarland, föðurland, móðurland. Og það ekki vegna náttúruhamfara heldur vegna bilaðra leiðtoga og þeirra einstaklinga sem trúa á að sprengja byggingar upp og drepa þegna sína sí svona, af því að þeim dettur það í hug. Og komast því miður upp með það eins og leiðtogi þeirra í Sýrlandi.
Þá upplifa þeir einstaklingar sig sem eru friðarsinnar sem útlendinga í sínu eigin föðurlandi, af því að þau eru ekki sammála þessum aðilum.
Hvað er þá eðlilegra en að þegnarnir sem halda lífi flýi og vilji finna nýjan stað til að verja lífi sínu í.
Af hverju stoppar enginn þessa biluðu leiðtoga?
Það sem er sorglegt, er að það eru engin alheimsyfirvöld sem sjá um að stöðva og refsa þessum leiðtogum og setja þá í fangelsi.
Á hinn veginn er ekki nokkur leið að ein þjóð geti tekið við milljónum flóttamanna sem eru útlendingar og með annað tungumál. Það eru ekki til milljónir íbúða sem bíði eftir hugsanlegum flóttaaðilum, það er ekki til nægt fólk í þessum löndum til að þjóna svo mikilli viðbót einstaklinga inn í landið.
Það er ekki heldur nein heimshreyfing til að stoppa slíkt eða hafa ótal hús til að hýsa fórnarlömb slíkra atvika. Svo er ekki heldur nægileg opnun í hugum fólks sem er þar fyrir, til að leiða allt þetta fólk vel inn í samfélagið.
Angela Merkel kom sjálfri sér í vandræði með að leyfa svo stórum hópi fólks með útlent verðmætamat inn í Þýskaland, af því að hún skildi svo vel hvernig tilfinning það er að vera í þeim kringumstæðum frá að hafa alist upp í Austur-Þýskalandi.
Sú hjartahlýja og mikla mannúð hennar gagnvart öllum þessum útlendingum setti svo fyrrverandi frið landsins í uppnám vegna þeirra sem höfðu komist inn án þess að nægilega gagnlegar samræður hefðu verið gerðar.
Það eru engar vélar enn sem skanna hryðjuverkaheila. Mannfjöldinn sem náði að komast inn í landið var það mikill að engin leið var til að sjá um að sigta út svörtu sauðina frá þeim sem kæmu með þrá eftir friði og ró fyrir líf sitt og fjölskylduna sem þó var trúlega meirihluti þeirra sem voru komin þangað.
Landið og þjóðin endaði samt því miður uppi með slatta af einstaklingum sem höfðu svo útlend viðhorf, sjónarhorn og verðmætamat og trúlega líka með reiði bullandi hið innra.
Sömu stafróf en skapa önnur hljóð
Þar er margfalt útlendingadæmi til staðar á marga vegu. Flóttafólk upplifir fólkið í landinu sem þeir koma til, trúlega sem útlendinga í sínum augum af því að allt er framandi þar, og tungumálið og hljóðin eru allt önnur í málinu þó að verið sé að tala sama málið.
Ég áttaði mig á því eftir langan tíma hér í Ástralíu að það er tilfellið að stafrófið þó að það líti eins út á mörgum málum þýðir ekki að A hljómi eins og A á Íslandi né aðrir stafir af því að hvert mál hefur sitt eigið hljóðkerfi. Maður upplifir það ekki í venjulegu töluðu máli á ensku hér, bara þegar maður þarf að stafa nafnið sitt.
Samt vaknaði ekki til þessara atriða að því magni hvað varðar þessi hljóð í einstaka stöfum hér í Ástralíu fyrr en ansi seint.
Dæmi um þetta er til dæmis með íslensku og hin norðurlandamálin sem hafa hreinlega nærri það sama stafróf og við getum lesið hin málin ef við höfum lært eitt þeirra en um leið og kemur að því að tala þau er allt annar heimur og hljóðin önnur sem við þurfum að finna í heilanum.
Það að reyna að tala dönsku um árið í Danmörku virkaði ekki af því að ég var útlendingur þar þá og kunni ekki að skapa hljóðin sem danskan krefur, en ég get lesið hana á prenti.
Fólk með annað upprunalegt tungumál talar hitt málið frá þeim hljóðum sem það er fætt til að nota yfir þá stafi.
Ó-aðgengilegri lönd sleppa mun betur
Þjóðir sem búa á eyjum þar sem flóttafólk getur ekki gengið til, eru mun betur settar hvað varðar ágengi án innflutningspappíra, af því að það er ekki hægt að ganga þangað, og því ná mun færri að komast þangað.
Í mörg ár tóku áströlsk yfirvöld við flestum þeirra sem komu á bátunum og höfðu einnig sent fulltrúa til annarra landa fyrir nokkrum áratugum síðan til að fá meiri starfskraft og þegna inn í landið. Þeir komu líka til Íslands og fengu fjölskyldur þaðan til að flytja yfir öll höfin til hins enda jarðar.
Milljónir flóttaaðila hafa fengið búsetu hér og verið. En það er ekki hægt að taka endalaust við fólki.
Það eru trúlega tiltölulega fáir sem hugsa sér að leita ásjár á Íslandi til að fá friðsamt líf fyrir sig og fjölskyldu sína. Svo að það ætti að vera mun auðveldara að veita þeim einstaklingum skjól sem hafa valið Ísland sem sitt út-land og vonandi nýja heimaland til að verja því sem eftir er ævinnar á og í.
Útlenska sem þroskatækifæri
Þessi orð, útlenska og útlendingur virtust oft hafa vakið ótta í fólki og þegar ég sagði konu á Íslandi um árið, að ég hafði farið í ferð til Ameríku til að heimsækja systur mína, og farið ein í þá ferð. Þá sagði hún nei, það er ekki hægt, konur fara ekki neitt einar.
Það er ein tegund af „út-lensku“ af því að það var út úr veruleika hennar að slíkt væri hægt.
Þegar ég fór á sjálfsstyrktar námskeið hér til að finna mig, þá vissi ég að ég yrði að opna hug minn og leggja niður alla varnarstöðu í mér til að meðtaka þær gagnlegu ráðleggingar og innsæi í mig, sem kæmu að mér frá kennaranum til að nauðsynleg leiðrétting gæti orðið í sjálfvirði mínu og vitund. Slíkt væri mikil út-lenska fyrir marga.
Það getur verið mikill ávinningur í að meðtaka og leyfa fólki frá öðrum löndum og þjóðum inn í land sitt, af því að þeir sem koma utan að frá, og eru ekki innan frá og hafa hugsanlega aðra sýn á margt en þeir sem fyrir eru í samfélaginu. Svo að þau geta opnað nýjar gáttir í þeim sem þar eru fyrir. Sýnt heimafólki siði og venjur í nýju ljósi frá fersku sjónarhorni.
Fjölbreytni jókst í fæðu hjá Áströlum
Ítalir bættu til dæmis kaffimenningu Ástrala alveg stórkostlega ásamt því að flytja inn mikið hollari matarvenjur sem lyfti fjölbreytninni frá því sem oft var mikið djúpsteiktur fiskur og kartöflur með litlu grænmeti.
Ástralía var og verður vonandi áfram rík af landi til að rækta allt grænmetið og ávextina sem Ítalir urðu duglegir að fara að rækta við komuna hingað. Og það vonandi líka núna þrátt fyrir hina hræðilegu skógarbruna sem gengið hafa yfir að undanförnu, og eru enn þegar þetta er skrifað en á fáum stöðum.
Nú er hægt að borða frá matar-menningu stórs hluta heims hér í Ástralíu, en enginn hefur opnað íslenskan stað með hákarli, sviðum og öðru sem teldist sér íslenskt fæði, og væri svo sannarlega nýstárlegt hér og út-lent. Hvort innflutningsleyfi fyrir þær vörur fengist er spurning.
Það er þess virði að meðtaka þá staðreynd að við getum verið mestu útlendingar gagnvart okkur sjálfum og skiljum það kannski ekki eða sjáum fyrr en einhver utanaðkomandi gefur okkur þau orð sem vekja okkur upp frá vananum til að fá nýtt sjónarhorn. Veruleikinn út-lendingur er oft mun nær en við sjáum, fyrr en við lærum það frá öðrum.
Því að eins og að vera frá viðkomandi landi með þeim siðum og viðhorfum sem þar eru, getum við orðið strandaglópar. Og í raun verið útlendingar í okkur sjálfum, af því að við fengum ekki þá hvatningu sem við þurftum til að finna hinn útlendinginn sem beið í okkur til að sýna okkur fleiri eiginleika sem væru í okkur.
Ég hef verið hér í Adelaide í 32 ár, og tel mig ekki hafa upplifað þessa útlendingstilfinningu sem ég heyrði um á Íslandi sem einhverskonar ógn, og er það vegna þess að hér er ég auðvitað útlendingur í algerum útlendinga kokteil fólks frá flestum löndum jarðar. En fólk sem ég tala við segir alltaf við mig að nú sé ég orðinn alger „Aussie“ sem er gælunafn fyrir að vera orðin og meðtekin sem ein af okkur Áströlum. Það að finna fólk til að vingast við í svo fjölmennu samfélagi er svo annar geiri. Þá er það um að tengja við fólk á allt öðrum forsendum en var, sameiginlegum áhugamálum, sameiginlegu verðmæta mati og lífsreynslu. Blóðtengda fólkið er ekki alltaf þeir sem verða manns mestu lífsferðalangar. Þeim mun minni sem heimurinn verður með tilkomu ótal fjölmiðla á þetta með að fólk ferðast svo mikið meira og lærir hluti frá öllum löndum heims á hugtakið útlendingur trúlega eftir að breytast í að við verðum meira heimsborgarar en útlendingar hvar sem við finnum okkur næturstað til langs eða skamms tíma.