Alþjóðlegi hrósdagurinn er haldinn hátíðlegur í dag um heim allan. Hrósdagurinn var fyrst haldinn í Hollandi fyrir 17 árum, en breiddist fljótt út og er nú haldið upp á hrósdaginn víða um heim, meðal annars hér á landi.
Á vefsíðu alþjóðlega hrósdagsins www.worldcomplimentday.com kemur fram að aðstandendur hans stefni á að dagurinn verði „jákvæðasti dagur heimsins.“ Þeir benda jafnframt á að engin markaðsöfl tengist þessum degi eins og verða vilji með suma aðra daga. Verið sé að höfða til einnar af grunnþörfum mannsins sem er að vera metinn að verðleikum.
Hrósdagurinn snýst um að íhuga meðvitað það jákvæða í fari fólks og segja því með fallegum orðum að þú kunnir að meta framlag þess. Einlægt og persónulegt hrós kostar ekki krónu en getur gert kraftaverk. Það er ekkert sem hvetur meira, gefur meiri orku og eykur vellíðan fólks en einlægt hrós. Hrós ýtir undir jákvæð mannleg samskipti og felur í sér umhyggju og kærleika. Það er einföld leið til að sýna velvild og þakklæti í ys og þys hversdagsins. Við getum öll horft oftar á jákvæðu hliðarnar og hrósað hvert öðru fyrir það sem vel er gert. Hlutirnir þurfa nefnilega ekki að vera fullkomnir til að vera góðir.
Höldum upp á hrósdaginn með því að hrósa a.m.k. þremur einstaklingum, annaðhvort á samfélagsmiðlum eða augliti til augliti, og stuðlum þannig að aukinni jákvæðni og vellíðan í samfélaginu.
Höfundur hrinti hrósdeginum á Íslandi af stað árið 2013 og stofnaði Facebook síðuna Hrós dagsins. Þar setja um 3.000 manns reglulega inn hrós.