Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) boðuðu nýverið til fundar um gagnsæi í sjávarútvegi. Annar ræðumaður var Þórður Snær Júlíusson á Kjarnanum og flutti erindið „Það sem sjávarútvegurinn þarf að gera til að byggja upp traust“. SFS réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur – en eftir er að sjá hvort samtökin taka mark á gagnrýni Þórðar Snæs. Ríkisstjórnin hyggst nú leggja fram frumvarp um aukið gagnsæi hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi og öðrum sem skipta þjóðarbúið miklu máli. Herferð SFS er vel tímasett.
Fyrirmyndin Landsvirkjun
Fyrir áratug síðan, af ástæðum sem óþarfi er að tíunda hér, réðst Landsvirkjun í ímyndarherferð til að upplýsa almenning um að Landsvirkjun væri eign þjóðarinnar og því væri öllum velkomið að kynna sér starfsemi fyrirtækisins; að ekki væri um að ræða einokunarfyrirtæki sem myndaði múr utan um hagsmuni stóriðjufyrirtækja á Íslandi með lágt orkuverð að leiðarljósi.
Landsvirkjun nýtir jú sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar líkt og útgerðarmenn, og fyrirtækið er í þjóðareign.
Umhverfisstefna
Landsvirkjun lét ekki þar við sitja heldur gerðist aðili að samtökunum UN Global Compact, samtökum fyrirtækja sem setja sér skýr viðmið í umgengni við náttúruna og – ekki síður – í samskiptum við almenning.
Sjávarútvegurinn
Afstaða Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er sú að óumdeilt sé „á meðal okkar helstu sérfræðinga að aflaheimildir njóta verndar eignarréttarákvæðis 72. greinar stjórnarskrárinnar sem atvinnuréttindi, sbr. 1. gr. 1. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu“. Ergo: SFS fallast ekki á auðlindaákvæði í stjórnarskrána nema þessi „eignarréttur“ verði viðurkenndur.
Forréttindi útgerðarmanna
Þeir sem fjárfestu í útgerð á fyrri áratugum og keyptu aflaheimildir (kvóta) efnuðust gríðarlega en eru nú, að mati SFS, ófærir um að leggja meira af mörkum til samfélagsins. Útgerðarmenn hafna eindregið hærri gjöldum fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind landsmanna.
Tiltrú almennings á þennan málflutning SFS er vissum takmörkunum háð. Til dæmis almennri skynsemi.
Umhverfismál
Lengi vel litu útgerðarmenn á yfirvofandi umhverfisvá sem kerlingabækur vísindamanna enda væru þeir á mála hjá öfgasamtökum. Þegar fréttamanni verður á að gera því skóna að stjórnendur Samherja hafi mútað ráðamönnum í Namibíu, þá er ekki talið nægja að fara fram á leiðréttingu heldur er hótað málsókn og athygli vakin á því að „… framganga af þessu tagi getur valdið tjóni sem er bótaskylt og fjárhæðir ráðist af þeim viðskiptahagsmunum og orðspori sem er undir“. Svo virðist sem lýðræðisskynjun útgerðarmanna sé í öfugu hlutfalli við ríkidæmi þeirra.
Slíkri aðild fylgir á hinn bóginn kvöð um skikkanlega framkomu við almenning, þar með talið þá fjölmiðlar sem flytja fréttir af sjávarútvegi. Þetta er andlega erfitt fyrir Bogesen.
Umhverfiskönnun Gallup
Í nýlegri könnun Gallup á afstöðu Íslendinga til loftslagsbreytinga (og SFS áttu þátt í að kosta) kemur fram að SFS njóta ekki mikils trausts þegar kemur að aðgerðum til að draga úr losun. Þannig telja 81,5% aðspurðra að kolefnisspor sjávarútvegsins sé stórt, 60% telja að sjávarútvegurinn standi sig illa við að minnka kolefnissporið og 57,5% telja að sjávarútvegurinn hafi litlum árangri náð undanfarin tvö ár við að minnka kolefnisspor sitt.
Fullyrðingar SFS um að greinin hafi þegar náð markmiðum Parísarsamningsins vekja greinilega ekki mikla lukku. Sennilega geldur sjávarútvegurinn fyrir hofmóðugheit og þráláta andstöðu gegn samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.
Andstaða SFS við kolefnisgjald til að draga úr olíunotkun er kunn. Þó hefur útgerðin náð árangri við að draga úr bruna olíu – og það er sannarlega hrósvert, jafnvel þótt haft sé í huga að þar átti hátt eldsneytisverð hlut að máli auk hugsjónafunans fjárfestingu í vélum sem brenna minna eldsneyti. Í stað þess að draga úr losun vilja samtökin nú fá afslátt á kolefnisgjaldi.
Svartolía
Í umsögn SFS um fyrstu útgáfu að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum segir: „Í dag eru 7 skip sem brenna svartolíu og fimm til viðbótar eru útbúin til að brenna svartolíu. Vandséð er að íslensk stjórnvöld geti bannað notkun svartolíu, nema innan íslenskrar landhelgi (12 mílna), og slíkt bann tæki fyrst og fremst til íslenskra skipa.“
Ennfremur leggst SFS „... gegn því að strangari kröfur verði settar en þær sem IMO [Alþjóða-siglingamálastofnunin] gerir í þessum málaflokki“.
Sem sé: Enginn stuðningur frá SFS við þá stefnu ríkisstjórnarinnar að „banna notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands“.
En nú þarf SFS á þjóðinni að halda ...
Í umsögn SFS um frumvarp til fjárlaga 2019 segir að það sem af er þessari öld hafi „ umhverfisaðstæður á Íslandsmiðum breyst með þeim hætti að streymi hlýsjávar kringum landið hefur þyngst hlutfallslega og nú teygir hlýsjávarsvæðið sig langt norður og vestur fyrir landið þar sem áður var kaldari sjór. Þessi breyting hefur haft víðtækar afleiðingar fyrir lífríkið, t.d. á útbreiðslu loðnu, ýsu og fleiri tegunda til norðurs, auk þess sem þekkt sambönd, sem áður höfðu verið metin, þarfnast nú endurmats við breyttar aðstæður. Á sama tíma hafa stórir nytjastofnar uppsjávarfiska gengið inn á Íslandsmið – síld, kolmunni og makríll – sem auka kröfur um verulega auknar rannsóknir af ýmsum ástæðum.“
Eina orðið sem vantar í þessa röksemdafærslu SFS um nauðsyn þess að ríkið leggi meira fé til rannsókna er orðið loftslagsbreytingar. Hugtak sem útgerðarmenn flokkuðu – lengst af – sem enn eitt dæmið um óprúttnar fjárplógsherferðir öfgasamtaka. Lífríki hafsins er sannarlega ógnað, það tekur miklum sjáanlegum breytingum ár frá ári, sjórinn súrnar. Útgerðarmenn verða að sannfæra viðskiptavini sína um að þeir standi vaktina við vernd þessa lífríkis. Og þeir verða að sannfæra þjóðina sem leggur út fyrir kostnaðinum.
Erfiðar markaðsaðstæður?
Í umsögnum sínum um veiðigjald tiltaka SFS jafnan að frekari álögur á greinina muni draga úr hagkvæmni og rýra samkeppnisstöðu sjávarafurða á erlendum mörkuðum. Þar með sitji íslenska þjóðin uppi með Svarta-Pétur ef útgerðin er látin borga fyrir aðgang sinn að auðlindunum. Á móti kemur hins vegar að á þeim mörkuðum þar sem neytendur búa við lýðræði vex eftirspurn eftir samfélagslegri ábyrgð. Eftirspurn eftir matvörum sem valda ekki losun eykst. Ekki er eingöngu spurt um slíka ábyrgð sjávarútvegsfyrirtækja hér heima, heldur líka annars staðar þar sem íslensku fyrirtækin stunda útgerð, hvort heldur það er í Þýskalandi eða Namibíu. Þau fyrirtæki sem skila auðu gætu lent í vandræðum við að selja hjá smásölufyrirtækjum á borð við Marks & Spencer eða Whole Food Market, þessum sem borga mest fyrir hráefnið.
Átak SFS
Því ber sannarlega að fagna að SFS efni til samtals um gagnsæi og þá vá sem steðjar að lífríki hafsins. Á hinn bóginn verður að ætlast til þess að samtalið leiði strax til aðgerða; að SFS leggist á eitt með ríkisvaldinu um að svartolía verði bönnuð. Ekki bara innan 200 mílna efnahagslögsögu Íslands heldur á norðurslóðum. Ennfremur, SFS verður að leggja fram trúverðuga áætlun um verulegan samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030. Að sjálfsögðu er hækkun kolefnisgjalds ein leið til að hvetja útgerðarmenn til meiri orkusparnaðar eða til að nota eldsneyti sem ekki eykur á loftslagsvandann.
Framtíð barna okkar krefst þess að losun verði því sem næst núll og útgerðarmenn verða að sýna að þeir ætli að leggja sitt af mörkum til að Ísland nái kolefnishlutleysi árið 2040.
Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.