Hálendi eða öræfi landsins eru komin á dagskrá. Þau eru þungamiðja landsins sem ásamt umlykjandi hafinu eru einu nágrannar okkar til sitt hvorrar handar. Þessir grannar settu okkur oft stólinn fyrir dyrnar um leið og dulúð þeirra og ókennd voru fyrirheit og þrá til betra lífs. Þegar þjóðin fór að mannast eftir endurreisn alþingis 1874, heimastjórn og síðan fullveldi, hófst nýting, sem síðar varð að arðráni, á þessum hirðislausu auðlindum. Framhaldið þekkjum við, gróðurauðn öræfanna, hrun fiskistofna og rof vistkerfa. Um miðjan níunda áratug liðinnar aldar var hafist handa við að vernda og skynsemisnýta fiskimiðin. Lögfest var jafnframt ófrávíkjanleg eign þjóðarinnar yfir þeim. Hálendið lág hins vegar óbætt hjá garði, mönnum, skepnum og veðri að bráð.
Öræfin í þjóðarsálinni
Hálendið er hjarta landsins: þaðan rennur blóð þess til sjávar; þar er heiðríkjan fegurst; þar eru óveðrin grimmust; þar voru töfrar þess mestir; þar ríkir tign almættisins, eins og eitthvert skáldið hlýtur að hafa sagt. Lengi framan af öldum voru öræfin vettvangur sagna og drauma. Yfir þeim hvíldi bæði dulúð og óræður beygur sem stafaði af óþekktum, endalausum víðernum. Í þjóðsögunum fóstruðu hrjóstrug öræfin þrá þjóðarinnar eftir grösugum lognværum dölum, frjósömum fjallabyggðum og þægara, örlátara lífi. Þá hvíldi hálendið ósnert í djúpum hugarfylgsnum þjóðarinnar. Þetta breyttist með tuttugustu öldinni og ýtunni. Af kappi var hafist handa við að virkja og mikil fjölgun sauðfjár leiddi til þess að heimahagar dugðu ekki. Bændur fóru að reka á fjall. Með mannvirkjum og víðtækri umferð var hálendið rænt sál sinni og töfrum.
Náttúruvernd og/eða spillinýting?
Saga náttúruverndar á hálendinu er orðin löng og ekki átakalaus. Áratugum saman ríktu deilur um friðun Þjórsárvera, einnig um friðun Laxár- og Mývatnssvæðisins. Deilan um verndun Þjórsárvera var harðvítug, langvinn og löngum tvísýn. Harðvítugastar voru þó deilurnar um Kárahnjúkavirkjun og víðerni Snæfells. Með Hálslóni hurfu að eilífu fágætar og fjölmargar fossa- og náttúruperlur. Margir fullyrða að aldrei hafi verið unnið annað eins spellvirki á hálendi landsins. Nú spyrja menn sig - hvað var svona mikið í húfi að spilla þyrfti svo einstakri og óendurkræfri náttúru ? Þannig mætti rekja sig fram og halda til haga þeim usla sem spillinýting og mannvirki hafa valdið öræfunum í formi uppistöðulóna, veituskurða ásamt umbreytingum á vatnafari og vistkerfi. Er þá ótalin sú mikla ofbeit sem Landgræðslan greinir frá, að enn sé viðvarandi. Hálendið hefur öll þessi ár verið bitbein milli spillinýtingar og verndar. Að undanskildum einstaka afmörkuðum verndarsvæðum hefur spillinýting haft vinninginn. Sú afstaða er algeng að fegurðarnautn sé ómerkileg sóun á álnýtanlegri hálendisauðlind. Aðeins beit sauðkindarinnar og virkjanir og nú síðast bitmyntar-gagnaver flokkist undir marktæka nýtingu. Vonandi megna erlendir ferðamenn að breyta þessu gildismati. Nú má ekki skilja fyrrsagt þannig að sérhver virkjun á hálendinu sé óalandi. Hálendisvirkjanir voru okkur flestar mikilvægar, þótt þær spilltu. Kárahnjúkavirkjun var það hins vegar ekki. Þar var ómetanlegu fórnað fyrir rýran ábata.
Átök halda áfram
Loksins, loksins kemur fram heildstæð og ítarleg lokaskýrsla eða frumvarpsdrög um Hálendisþjóðgarð. Það var þarfaverk þegar þjóðlendulögin voru samþykkt á sínum tíma og gildissvið þeirra afmarkað. Með þeim lögum hafði þjóðin fengið bréf um að eiga þjóðlendurnar eins og fiskimiðin. Ekki vega stjórnunaráhrif þjóðarinnar þó þungt í frumvarpsdrögunum. Harðvítug andstaða gegn frumvarpsdrögunum kom strax frá sveitarfélögum sem land eiga að þjóðlendunum. Þau kröfðust m.a. óbreytts, jafnvel aukins stjórnunar- og skipulagsvalds yfir þjóðlendunum og neituðu að deila nokkru af valdi sínu með almannavaldinu. Hér er á ferð gamalkunn frekjukrafa samfélagsafla sem vön eru að ná fram þröngum sérhagsmunum sem stríða gegn almannahag í krafti áhrifa sinna á Alþingi. Það má ekki gerast í þetta sinn. Þessi ósvífna heimting endurspeglar átökin um verndun hálendisins. Gildismat gegn beru valdi. Skyldu sveitarfélögin vera svona stolt yfir stjórnun sinni á hálendinu fram til þessa? Erfitt er að skiljast við þetta efni án þess að minnast á efasemdir margra um hæfi fjölda dreifbýlissveitarfélaga til að fjalla um og skera úr flóknum álitamálum. Allt of mörg sveitarfélög búa ekki yfir þeim mannauði og peningum sem til þarf svo stjórnsýsla þeirra geti talist skilagóð. Þau eru því ekki aflögufær.