Ég geri ráð fyrir að flestum sem tjá sig um COVID-19 veiruna og viðbrögð við henni hérlendis gangi gott til með innleggi sínu.
Það sem ég óttast samt að margir átti sig ekki á, er að með því að draga aðgerðir yfirvalda í efa - oftast með því að heimta harðari aðgerðir en þær sem gripið hefur verið til - kann viðkomandi að vera að „auka hættuna”.
Hvers vegna? Vegna þess að eftir því sem fólk heyrir fleiri ólíkar og mismunandi útgáfur af því hvað sé rétt og satt, og hvað sé rétt að gera, því minna treystir það „öllu” sem sagt er um málið og verður "ónæmt" fyrir upplýsingum um málið óháð því hvaðan þær koma. Á endanum verður það svo til þess að fólk verður líklegra til að leiða mikilvæg tilmæli hjá sér og fara þannig óvarlegar en ella.
Þegar fólk veit ekki hverju það á að trúa, þá hættir það nefnilega að trúa nokkru.
Það er gott að vera gagnrýninn, spyrja spurninga og vilja skilja, en við þurfum öll að bera virðingu fyrir þeim sérfræðingum og því fagfólki sem starfar fyrir okkur í því að lágmarka skaðann. Fólk sem hefur gert það að ævistarfi sínu að læra um, rannsaka og búa sig undir akkúrat þessar kringumstæður „er” betur í stakk búið til að meta kostina í stöðunni hverju sinni og taka ákvarðanir út frá bestu mögulegu upplýsingum og þekkingu. Sem það fólk hefur - öfugt við okkur hin sem viljum læra og skilja sem mest, en höfum kannski sett einhverja klukkutíma, eða að hámarki daga, í að Google-a og lesa okkur til síðustu vikurnar og höfum okkar nýjustu upplýsinga úr fréttamiðlum.
- Af hverju er landinu ekki lokað?
- Af hverju er ekki búið að setja á samkomubann?
- Af hverju eru ferðamenn ekki settir undir sama hatt og þeir sem hér búa og starfa?
- Af hverju er vond hugmynd að loka alla sem koma frá útlöndum inni í Egilshöll?
- o.s.frv.
Ég held svei mér þá að öllum þessum spurningum hafi hreinlega verið svarað á þessum stórgóðu upplýsingafundum sem haldnir eru daglega. Sumum margoft.
Það er grafalvarlegt mál - sérstaklega og sér í lagi við svona kringumstæður - að grafa undan tiltrú fólks á tilmælum og ákvörðunum hins opinbera. Það ætti enginn að gera nema hafa mjög ríkar ástæður til og þá annað hvort vegna sérfræðiþekkingar sinnar, eða upplýsinga sem yfirvöld hafa ekki. Það eru til leiðir fyrir slíkar upplýsingar og það eru líka til leiðir til að koma áhyggjum sínum og spurningum á framfæri með hógværum hætti.
Já, ykkur gengur gott til, en líklega er það besta sem þið getið gert til að við komumst sem best út úr þessu að hætta að gagnrýna opinberar ákvarðanir og tala eins og þið séuð handhafar sannleikans í þessu máli.
Það gæti hreinlega bjargað mannslífum!
Höfundur er framkvæmdastjóri GRID og stjórnarformaður Kjarnans.