Á síðustu dögum og vikum hafa íslensk stjórnvöld ákveðið að senda a.m.k. fimm barnafjölskyldur aftur til Grikklands þar sem þær hafa hlotið svokallað alþjóðlega vernd og jafnvel gengið svo langt að leigja einkaflugvél undir fólksflutningana svo farangrinum verði tryggilega skilað. Búið er að fresta brottflutningi sumra þessara fjölskyldna í tvígang núna með tilheyrandi sálarstríði fyrir þær en á meðan útlendingastofnun okkar Íslendingar leitar allra leiða til að koma þessum saklausu börnum af sínu framfæri leita grísk yfirvöld ásamt yfirvöldum margra annara Evrópulanda allra leiða til að koma þeim í örugga höfn einmitt til annara betur settra landa í álfunni enda bæði Grikkland og Tyrkland algjörlega og löngu komin að þolmörkum þegar kemur að móttöku flóttafólks.
Skilafrestur á fólki
Á tímum þar sem flóttamannastraumur heimsbyggðarinnar er hvað mestur síðan eftir seinna stríð eða þar sem 25 milljónir manna eru skilgreindir með stöðu flóttamanna og yfir 70 milljónir manna eru á hrakningum frá heimilum sínum til lengri eða skemmri tíma er mál til komið að Íslendingar taki skýra afstöðu og leggi sitt að mörkum í viðleitni sinni til að veita mannúðaraðstoð í formi móttöku flóttafólks og taki á móti fleira flóttafólki en gert hefur verið hingað til. Þá séu börn og barnafólk sem hingað leitar alls ekki sent til baka í nafni Dyflinnarreglugerðar sem ekki er nauðsynlegt að beita en er notuð eins og aflátsbréf eða nóta með skilafrest á vöru.
Flóttabörn
Flestir þeir sem þurfa að flýja heimili sín og taka stöðu flóttafólks er fólk af lægri stéttum þjóðfélagsins eða um 85% þess og má segja að það sé fólk sem dæmt er til útigangs. Um 40% þeirra sem nú hafast við í Grikklandi og Tyrklandi eru konur og börn.Af börnum á flótta innan Sýrlands hafa bara nú á síðustu tveimur mánuðum verið staðfest 32 dauðsföll aðallega sökum kulda en á síðustu tveimur árum hafa einnig látist í kringum þúsund börn á ári í sjálfum stríðsátökunum og yfir 29 þúsund börn frá upphafi stríðsins. Þessar tölur eru nístandi óhuggulegar.
Talið er að tæplega 6 miljónir Sýrlendinga séu á flótta í nágrannaríkjum landsins, flestir þó í Tyrklandi, en yfir 41 þúsund manns hafast við í flóttamannabúðum á Grísku eyjunum Lesbos og Samos. Þar hefst fólk við í tjöldum við verulega slæmar aðstæður þar sem kuldi og vosbúð er fastur liður auk þess sem aðgangur að hreinu vatni, hreinlæti og heilbrigðisþjónustu er af skornum skammti og aðeins hluti af börnunum í búðunum hafa aðgang að menntun. Þá eru börn á flótta sérstaklega útsett fyrir barnaþrælkun, mansali og kynferðislegu ofbeldi. Kveikur á RÚV fjallaði um stöðu flóttamanna á dögunum og þeirra aðstæðna sem bíða þeirra sem þegar hafa hlotið svokallaða vernd svo yfirvöldum ætti vel að vera ljóst hvað þessi börn hafa þegar gengið í gegnum og hvað bíður þeirra ef þau verða send til baka.
Vaxandi andúð og óboðlegar aðstæður
Andúð bæði grískra ráðamanna á flóttafólkinu sem og íbúa landsins fer auk þess vaxandi og nýnasistar annars staðar úr heiminum flykkjast einnig til landsins til að taka á móti fólkinu með ógeðslegu ofbeldi í anda kynþáttahaturs hægri þjóðernishyggju.
Þá höfum við séð fréttir af því nýlega hvernig 6 ára barn drukknaði við strönd Lesbos eftir að gríski herinn og landhelgisgæslan reyndu ítrekað að velta bát flóttafólksins á hliðina og 22 ára Sýrlendingur var skotinn til bana við komuna til landsins. Það ríkir því sannarlega stríðsástand í kringum grísku flóttamannabúðirnar núna og aðstæður á engan hátt boðlegar börnum. Þá er ástandið í heiminum hvað varðar kórónaveiruna ekki farið að lita fréttir þaðan enn og er sennilega bara tímaspursmál hvenær sá skellur verður.
Siðferðisskortur yfirvalda
Bæði Rauði krossinn, UNICEF og aðrar hjálparstofnanir hafa mótmælt aðgerðum Íslenska ríkisins og aðferðum þess við málarekstur barnafólks á flótta og hefur almenningur fundið sig ítrekað knúinn til að mæta til mótmæla í hörkufrosti eða þurft að skrifa undir undirskriftalista til að mótmæla endursendingum barnafjölskyldna til Grikklands. Yfirvöld starfa ekki í anda þeirra laga og siðferðis sem við höfum sameinast um sem samfélag svo sem Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna og annara alþjóðlegra skuldbindinga auk þess að meta ekki viðkvæma stöðu einstaklinga út frá ráðleggingum Samtakanna 78 og annara fagaðila sem koma að málum þessara tilteknu barna.
Þá er augljóst að vilji almennings og yfirvalda í útfærslu Útlendingastofnunar til að sýna mannúð í verki stangast algjörlega á og er það ólíðandi. Útlendingastofnun birtist almenningi sem einhverskonar ómennsk og jafnvel fasísk maskína sem hefur yfir að ráða sinni eigin lögregluherdeild til að vinna fyrir sig skítverkin því hvað annað er hægt að kalla þær ómanneskjulegu framkvæmdir sem nú standa fyrir dyrum. Ef ekkert er að gert mun fasisminn og kynþáttafordómarnir sem honum fylgir verða smám saman normaliseraðir í samfélagi sem hingað til hefur verið nokkuð vel meinandi og víðsýnt.
Barnasáttmálinn hafður að háði og spotti
Þýsk stjórnvöld héldu neyðarfund nú á dögunum í viðleitni sinni til að sækja 1500 flóttabörn til Grikklands og veita þeim landvistarleyfi og skora þau á stjórnvöld annara velmegandi Evrópulanda að gera slíkt hið sama enda geti þær ekki horft upp á börn deyja við landamæri sín án þess að rétta þeim hjálparhönd, það stríði algjörlega gegn þeirri siðferðiskennd sem þau hafi sett sér.
Á sama tíma og Þjóðverjar hvetja til mannúðaraðgerða og móttöku fleiri flóttamanna lýgur útlendingastofnun í fjölmiðlum og kærunefnd útlendingamála synjar börnum á flótta um að tjá sig sérstaklega, ruglar í sálarlífi þeirra með því að gefa þeim misvísandi skilaboð um veru sína hér og barnasáttmálinn og réttarfarið er beinlínis haft að háði og spotti.
Erum við staðföst og viljug?
Við sem þjóð vorum ekki spurð þegar þáverandi ráðherrar settu landið okkar á lista hinna staðföstu viljugu þjóða árið 2003 og gerði okkur þar með meðsek í innrásinni í Írak sem bætti heldur betur glóðum á bál stríðandi fylkinga fyrir botni Miðjarðarhafs. Þau stríðsátök hafa logað stöðugt síðan og við höfum illa nýtt tækifærin til að axla ábyrgð á hlut okkar í þeim hörmungum. Það þarf að breytast strax og ber okkur að setja okkur markmið í málefnum flóttafólks sem standast okkar siðferðiskennd og sjálfsmyndar sem friðelskandi og herlaus þjóð.
Ég skora á stjórnvöld og þær konur sem nú standa í forsvari málaflokksins á Íslandi í dag þær Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra að stöðva mannfjandsamlegar ákvarðanir Útlendingastofnunar og standa við þá sáttmála sem við höfum samþykkt að vinna eftir. Ég skora á sömu stjórnvöld að vernda börn á flótta sem hingað leita og hlusta á ráðleggingar hjálparstofnana og félaga sem starfa í anda mannúðar og réttlætis, taka umsóknir til raunverulegrar efnisskoðunar auk þess að framfylgja augljósum vilja almennings og vera staðföst og viljug til að vernda börn sem hingað leita.
Endursendingar barna og fólks í viðkvæmri stöðu aftur til Grikklands eru klárlega ekki framkvæmdar í mínu nafni!
Höfundur er myndlistarmaður/kennari, örorkulífeyrisþegi og aðgerðarsinni.