Þráin eftir stórkarlalegu aðgerðinni sem leysir öll heimsins vandamál er rík í mörgum okkar. Óljós draumur um sterkan leiðtoga sem stigi fram og lýsi því yfir að nákvæmlega þetta verði gert til að mæta ástandinu í eitt skipti fyrir öll. Þetta er hins vegar ekkert nema draumsýn, flókinn og margbreytilegur veruleiki kallar á flóknar og margbreytilegar lausnir. Sterkir leiðtogar eru þeir sem geta brugðist við breytingum dag frá degi og þurfa ekki að upplifa sig sem handhafa hinnar einu lausnar.
Við lifum nú óvissutíma, þar sem ástand breytist dag frá degi. COVID-19 faraldurinn gerir það að verkum að nauðsynlegt er að laga sig að breyttum aðstæðum, en um leið að reyna að vera skrefi á undan og hugsa eins langt fram í tímann og mögulegt er. Þetta hafa heilbrigðisyfirvöld gert svo aðdáun vekur. Sú áætlun sem fylgt hefur verið byggir á ráðleggingum færustu sérfræðinga og ánægjulegt er að sjá að þar sem álíka aðgerðum hefur verið beitt er árangurinn umtalsverður, til dæmis í S-Kóreu.
Hvað efnahagsmálin varðar virðast margir trúa því að nú sé hægt að lýsa því yfir nákvæmlega hvernig bregðast eigi við þeim óveðursskýjum sem á lofti eru. Þau viðhorf má meðal annars sjá í leiðara Kjarnans, sem Þórður Snær Júlíusson skrifaði. Þar er gagnrýnt að ríkisstjórnin sé ekki nógu markviss í aðgerðum sínum, þær séu ekki nógu stórar og skýrar. Þá gagnrýnir hann þegar fram komnar tillögur, þær séu skammtímaaðgerðir og ekki nógu víðtækar. Nú þurfi dugnað og þor, væntanlega þá til að koma með stóru aðgerðirnar.
Þetta er allt gott og blessað og ætti sennilega við um fullt af krísum sem gengið hafa, og munu ganga, yfir. Þessi hugmyndafræði er hins vegar úrelt og gamaldags þegar kemur að jafn kviku umhverfi og heimsbyggðin nú býr við, sem sýndi sig best í því að einstök ákvörðun forseta Bandaríkjanna breytti ástandinu á einni nóttu. Við gætum séð fleiri slíkar ákvarðanir sem munu hafa umtalsverð áhrif á allar áætlanir, vaknað upp við þær einhvern morguninn, ekki síst þegar kröfur um stórar aðgerðir verða háværari hér sem í öðrum löndum.
Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur valið þá leið að tilkynna um að brugðist verði við vandanum. Það er auðvelt að skjóta slíkt niður, ef maður er þannig innstilltur, með því að segja þetta bara eitthvað loft og heimta niðurnegldari áætlanir, loforð um háar tölur, x marga tugi milljarða og fleira. Hugmyndafræðin á bak við aðgerðirnar er hins vegar sú að slíkt sé ekki hægt, það mundi beinlínis verða til skaða að ætla að setja einhverja heildarlausn fram. Þvert á móti þarf að vinna hratt og örugglega, ástandið er óútreiknanlegt, koma reglulega fram með aðgerðir og lagabreytingar eftir því sem fram vindur og aðstæður breytast. Beina sjónum að því hvar þörfin er mest og miða aðgerðir við þær, frekar en að styðjast við altækar aðgerðir. Þannig nýtist fjármunir best.
Ríkisstjórnin hefur kosið að tala um hlutina á hreinskilinn og raunsæjan hátt, að sýna yfirvegun. Að lýsa því yfir að gripið verði til allra nauðsynlegra aðgerða til að hjálpa fólki og fyrirtækjum að standa af sér skellinn. Sem betur fer höfum við fullt búr af lausnum eftir reynslu okkar af hruninu og því er unnt að bregðast mjög hratt við með lausnum sem við þekkjum árangurinn af.
Nú þegar eru komin fram mál um laun í sóttkví, frestun opinberra gjalda og boðað hefur verði mál um aukin réttindi fólks til greiðslu atvinnubóta, þannig að hægt sé að minnka starfshlutfall og fá mismun greiddan frá Vinnumálastofnun. Þetta er aðeins byrjunin og von er á fjölda annarra mál. Þau verða sérsniðin að því að ná sem bestum árangri, að verða sem hnitmiðust. Ríkisstjórnin fundar reglulega, þingflokkar koma saman eftir þörfum, Alþingi þarf að sýna samstöðu í takti við tilefnið. Stjórnarandstaðan hefur sýnt að hún rækir hlutverk sitt af ábyrgð, þegar kemur að þessum þjóðþrifaverkum.
Stórkarlalegar lausnir eru kannski freistandi fyrir einhverja, sem líður þá eins og í eitt skipti fyrir öll sé búið að leysa málin. Þær eiga hins vegar ekki við í dag. Nú þarf að vera á tánum, sýna útsjónarsemi og hugvitssemi, bregðast við breytilegum aðstæðum með breytilegum aðgerðum. Einfalda lausnin er sjaldnast svarið, hversu mikið sem við þráum það.