Undanfarnar vikur hefur faraldurinn geisað og yfirvöld gera sitt best til að miðla upplýsingum til landsmanna og er það vel. Við höfum fengið upplýsingar matreiddar með yfirveguðum hætti og meira að segja nettröllin þegja að mestu og er þá mikið unnið.
En það er einn hópur sem mér sýnist hafa orðið illilega útundan. Við höfum jú séð að allar fréttir RÚV, og og annarra miðla að einhverju leyti líka, eru táknmálstúlkaðar þessa dagana, einnig blaðamannafundir Almannavarna með land- og sóttvarnalækni og fleirum. Þetta er mjög gott og sýnir vitund um að ekki skilji allir talaða íslensku og að alvarleiki málsins kallar á þetta. En ég hef ekki orðið var við að slíkir viðburðir séu túlkaðir eða þýddir á tungumál innflytjenda sem búa hér tugþúsundum saman og eru einnig veigamiklir skattborgarar í þessu landi. Það er með ólíkindum að stjórnvöld og fjölmiðlar sýni þessum borgurum landsins í raun vanvirðingu með þessum hætti, fyrir utan þá augljósu staðreynd að þeir hafa þá ekki sömu upplýsingar og vitneskju til að átta sig á hvernig ber að hegða sér í þessari vá sem að steðjar.
Útvarpsstjóri hefur nefnt að verið væri að undirbúa einhverjar þýðingar á pólsku og er það vel, en það er of seint og ég óttast að það verði ekki nógu mikið. Ekki þýðir að segja mér að það sé of þunglamalegt eða ekki hægt, það eru til margar leiðir til að koma þessum upplýsingum á framfæri, með þýddum skilaboðum, það væri hægt að sýna fréttamannafundina túlkaða á hljóðrásum hjá fjölmiðlum, eða textaða með einhverri seinkun. Það eru allir möguleikar fyrir hendi og þetta fólk á rétt á upplýsingum frá þeim yfirvöldum sem það greiðir skatta sína til. Ég geri þá kröfur að yfirvöld og fjölmiðlar í þessu landi sinni öllum borgurum þess óháð móðurmáli þeirra.