Við lifum á fordæmalausum tímum! Á fordæmalausum tímum gæti verið skynsamlegt að leita til vina um álit og samstarf. Hefur það verið gert?
Þann 23. mars 1962 samþykktu Norðurlöndin Helsinkisamninginn. Í inngangi segir að ríkisstjórnir landanna vilji efla náin menningartengsl Norðurlandaþjóðanna og samstöðu í réttar- og þjóðfélagsmálum, auka samstarf með sameiginlegum reglum og ná fram hagkvæmri verkaskiptingu milli landanna á öllum sviðum þar sem skilyrði eru fyrir hendi. Þá segir í annar grein samningsins að ríkisborgarar annarra norrænna landa skuli njóta sama réttar og ríkisborgarar viðkomandi lands.
Samningurinn sem kenndur er við höfuðborg Finnlands, er einskonar stjórnarskrá og hornsteinn samstarfs ríkja Norðurlanda sem kristallast í Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni. Að vanda væri dagurinn 23. mars haldinn hátíðlegur og Norrænu félögin alls staðar á Norðurlöndum hefðu dregið fána að húni og boða til mannfagnaðar, ef ekki væri fyrir alvarlega smithættu í ríkjunum fimm og á Álandseyjum, Grænlandi og í Færeyjum.
Fram hefur komið að utanríkisráðherrar landanna hafi átt símafund 17. mars um fordæmalaust ástand og voru sammála um mikilvægi þess að Norðurlöndin standi þétt saman á þessum óvissutímum. Einnig hafa borist af því fréttir að heilbrigðis- og félagsmálaráðherrar Norðurlanda hafi borið saman bækur sínar 19. Mars. Á fundinum var víst staðfest að ríkin eigi svo margt sameiginlegt hvert og geti því lært af aðgerðum hvers annars á heilbrigðissviðinu sem nýta má í baráttunni gegn COVID-19. Meira segir ekki af árangri fundanna.
Vonandi er svarið „já“ við framangreindum spurningum. En af því hafa ekki borist fréttir. Það er löngu tímabært virkja það afl sem er að finna í samstarf Norðurlanda í viðnámi gegn fordæmalausri pest, og upplýsa almenning um það. Aukið samstarf gæti reynst virkt meðal gegn vágestinum sem norrænu þjóðirnar berjast nú við, að því er virðist hver um sig án teljandi samstarfs.
Höfundur er hagfræðingur og hefur starfað um langt ára bil sem sérfræðingur og skrifstofustjóri hjá Norðurlandaráði og Norrænu ráðherranefndinni.