Við erum enn í miðri baráttu við COVID-19 faraldurinn, það gengur vel en við verðum að halda einbeitingunni. Ein af björtu hliðunum í starfi sóttvarnalæknis er hið háa hlutfall af greindum einstaklingum sem reynast nú þegar vera í sóttkví. Með öðrum orðum, þegar einstaklingur er greindur jákvæður þá er hann þegar í sóttkví. Af hverju var hann í sóttkví? Það er eingöngu vegna þess að þau sem báru smitið í hann/hana höfðu sagt frá sínum ferðum og þannig vaknaði grunur að viðkomandi gæti verið sýktur. Ef við komum einstaklingum í sóttkví áður en viðkomandi byrjar að sýkja fleiri þá getum við slitið þetta ferli sem veiran treystir á til að dreifa sér.
Eftir því sem fleiri sýkjast þá verður erfiðara fyrir smitrakningarteymin að halda áfram að rekja hvert og eitt þessara tilfella. Hér getur tæknin hjálpað okkur. Við göngum flest með síma sem getur sagt til um ferðir okkar og séð hvernig við ferðumst í tíma og rúmi. Hverja við hittum, hve lengi o.s.frv. Þetta er öflug tækni, en hún er mjög lævís. Hún er í dag notuð af öllum samfélagsmiðlum, oftast án okkar vitundar. Hún hefur kosti en hún hefur líka galla.
Ef að við sýkjumst, viljum við með öllum ráðum tryggja að þeir sem hafa mögulega sýkst af okkur fái upplýsingar um það sem allra fyrst?
Við göngum með síma daginn út og inn. Þannig skapast verðmætt fótspor um ferðir okkar. Treystum við Landlæknisembættinu fyrir því að nota gögnin eingöngu til þess að berjast gegn þessari óværu?
Fyrir mig er einfalt að svara þessum spurningum. Ég vil svo sannarlega nota öll möguleg ráð til að hjálpa samborgurum mínum. Ég treysti engum betur en landlæknisembættinu að fara vel með mínar persónulegu upplýsingar.
Hjálpumst að og sigrumst á þessari óværu.
Höfundur er prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.