Nú er einu sinni enn reynt að opna á meira framboð og aðgengi að því fíkni- og vímuefni sem er þjóðfélaginu dýrast. Fólk sem er í áberandi hlutverkum innan ýmissa samtaka atvinnulífsins hefur stigið ítrekað fram í fjölmiðlum og farið mörgum orðum um það hve mikil frelsisskerðing og mismunun sé í núverandi fyrirkomulagi á kynningu, dreifingu og sölu á áfengi hér á landi.
Dómsmálaráðherra er síðan í því hlutverki að leggja til í þágu þessara hugmynda breytingar á lögum um þetta efni sem læknisfræðin skilgreinir sem heilsuspillandi vímu- og fíkniefni. Í röksemdafærslunni fyrir breytingunum finnst mér mest áberandi sú fullyrðing að það felist mismunun í því að varnirnar gegn neyslu skaðlegs efnis séu meiri hérlendis en einhvers staðar annars staðar. Gatið í vörnunum gegn meiri neyslu sem erlend netverslun notar sé fullgild ástæða fyrir því að sleppa þessu meira lausu en er í dag. Auglýsingabannið innanlands skuli að afnema vegna þess að áfengisauglýsingar séu leyfðar og jafnvel alveg frjálsar einhvers staðar annars staðar.
Heilsuhagfræðingar hafa einnig komið fram með álit á þessu og þar kemur að þeim þætti sem tengist opinberum útgjöldum og þeim sköttum sem þarf að innheimta til að standa undir þeim. Ari Mathíasson skrifaði mergjaða meistararitgerð um mismun kostnaðar og tekna. Kostnaður og tekjutap hins opinbera, bæði ríkis og sveitarfélaga er samkvæmt því miklu meiri en heildartekjurnar af áfenginu. Umtalsverður hluti þess sem almenningur borgar í skatta fer til að vega upp mismuninn. Það er margsannað að þessi kostnaður er í hlutfalli við heildarneyslu og neyslan stýrist m.a. af framboði, aðgengi og kynningu.
Og aukinn kostnaður hins opinbera kallar á hærri skatta.
Með öðrum orðum, ráðherra dómsmála með stuðningi þessara einstaklinga úr forystuliði atvinnulífsins er að mæla fyrir áfengisfrumvarpi sem felur í sér aukin útgjöld ríkis og sveitarfélaga og auknar álögur á almenning og atvinnulíf til að standa undir útgjaldaaukningunni. Atvinnulífið finnur líka fyrir því þegar viðbótardrykkjan veldur fleiri fjarvistum, minni framlegð og fleiri mistökum í starfi.
Höfundur er iðnaðarmaður á Akureyri.