Yfir þremur milljörðum jarðarbúa í hátt í sjötíu löndum hefur verið skipað að halda sig heima til að hamla því að kórónuveiran, sem veldur COVID-19 sjúkdómnum, breiðist út. Mörg hundruð þúsund smit hafa verið staðfest á heimsvísu, sífellt fleiri deyja og öllum er ljóst að þetta er ein skæðasta farsótt síðari tíma. Á örfáum vikum hefur heimurinn gjörbreyst. Þetta er, eins og landlæknir segir, alvarlegur faraldur og alvarleg veikindi og nauðsynlegt að grípa til róttækra aðgerða og hlýða fyrirmælum yfirvalda.
Það er kannski örlítið ljós í þessu myrki að stórlega hefur dregið úr loftmengun um allan heim –með samkomu- og útgöngubanni hefur dregið úr allri framleiðslu og samgöngum. Útblástur gróðurhúsalofttegunda er minni, kola- og olíunotkun hefur dregist töluvert saman og á nokkrum vikum varð loftið allt í einu tærara og heilnæmara. Hreinna loft og minni umferð hefur hugsanlega bjargað mörg þúsund mannslífum. Náttúran hefur tekið undarlegum breytingum út um allan heim á þessum fordæmalausu tímum
Loftmengun er lífshættuleg
Loftmengun eykur líkur á fósturláti og barnadauða. Samkvæmt útreikningum Burke hefur minni loftmengun í Kína, fyrstu tvo mánuðina í COVID-19 fárinu, minni framleiðsla og samgöngur, bjargað lífi um 4000 barna sem eru yngri en fimm ára, sömuleiðis 73.000 mannslífum hjá fólki sem er komið yfir sjötugt. Þetta eru mun fleiri en þeir sem hafa látist af völdum COVID-19. Rannsóknir sýna að loftmengun getur stytt ævina um heil þrjú ár; að loftmengun, til langs tíma, er orðin hættulegri en tóbaksreykingar. Hún eykur hættu á malaríu, fósturláti, ýtir undir ofbeldi, áfengis- og fíkniefnanotkun. Loftmengun er því sannarlega lífshættuleg. Nýlegar tölur frá Ítalíu sýna að stórlega hefur dregið úr loftmengun í kjölfar útgöngu- og samkomubanns. Mun minna mælist af köfnunarefnisoxíð (nitrogenoxide) í loftinu, sem kemur frá bílum, vörubifreiðum, orkuverum og verksmiðjum.
Stóri lærdómurinn
Samhengi loftslagsmála og heilbrigðismála hefur allt í einu komist á dagskrá. Skógareldarnir í Ástralíu fyrr í vetur, sem rekja má til þurrka vegna hamfarahlýnunar, hafa komið af stað miklum engisprettufaraldri, þeim versta í ein 70 ár. Núna sjáum við samstillt og öguð viðbrögð út um allan heim við COVID-19 farsóttinni. Þessi skæða pest hefur á örfáum vikum breytt heiminum, en heimurinn hefur líka brugðist hratt við. Það hefur sýnt sig að ríki heims, stórfyrirtæki og almenningur geta breytt lífsháttum sínum þegar hætta steðjar að. „Náttúran er að senda okkur skilaboð með Covid-19 veirunni,“ segir Inger Andersen, yfirmaður loftlagsmála hjá Sameinuðu þjóðunum. „Með því tefla náttúrunni í hættu er líf okkar og heilsa sömuleiðis í hættuslóðum.“ Undir þessi orð taka ýmsir vísindamenn sem benda á að fjölmargar veirur og bakteríur liggi í dvala víða í náttúrunni og með breyttu loftslagi gætu þær farið á kreik. Það sé ekki skynsamlegt að ögra náttúrunni of mikið því rask á henni getur haft ýmsar ófyrirsjáanlegar afleiðingar.
Við þurfum að minnka auðlindanotkun og útblástur, eins og margoft hefur verið bent á, en líka að skoða loftslagsmál og heilbrigðismál í stærra samhengi. Við þurfum að breyta dýrahaldi og slátrun sem getur komið af stað hættulegum sjúkdómum. Hættulegar farsóttir á borð við Ebólu, HIV, fuglaflensuna, Sars, Zika vírusinn hafa allar borist frá dýrum til manna, en það er mannleg hegðun, dýramarkaðir, slátrun og ógætileg samskipti við dýr og náttúruna sem hafa komið þessum farsóttum af stað.
Viðbrögðin nú sýna að við getum tekist á við stór vandamál með því að virkja samtakamáttinn. Þegar þessu erfiða verkefni er lokið bíður okkar enn stærra verkefni: að stöðva hamfarahlýnun sem ógnar öllu lífi á jörðinni.
Höfundur er samskiptastjóri Terra.