Samkvæmt nýlegum Þjóðarpúlsi Gallup finnur um fjórðungur landsmanna fyrir kvíða vegna COVID-19 og 70% landsmanna hafa áhyggjur af efnahagslegum áhrifum veirunnar. Kvíði og áhyggjur eru eðlileg viðbrögð við þeim fáheyrðu aðstæðum sem erum að upplifa í dag. Þegar áhyggjurnar verða hins vegar óraunhæfar eða viðvarandi geta þær valdið vanlíðan og haft neikvæð áhrif á daglegt líf.
Meðfylgjandi eru nokkrar góðar leiðir til að takast á við áhyggjur og kvíða:
- Að iðka núvitund: Með því að koma auga á kvíðavekjandi hugsanir og færa athyglina markvisst að augnablikinu og því sem er að gerast hér og nú, náum við að draga úr áhyggjum og „hvað ef“ hugsunum. Sannleikurinn er sá að við höfum aðeins þetta augnablik.
- Að velja athafnir sínar og fókus: Í þessu felst að velja á hverju augnabliki það sem við erum að gera og kjósum að veita athygli. Í stað þess að vera stanslaust á samfélagsmiðlum eða fylgjast mikið með fréttum er gott að vera virkur, gera jákvæða hluti og einbeita sér að uppbyggilegum áþreifanlegum atriðum í lífi sínu, eins og t.d. samveru með fjölskyldunni, áhugamáli eða góðri tónlist.
- Að koma ró á hugann: Öndunaræfingar geta dregið úr kvíða og haft róandi áhrif á taugakerfið. Vöðvaslakandi æfingar eru einnig áhrifarík aðferð til að ná slökun. Gott er að spenna vöðvana, halda spennunni stutta stund og sleppa henni síðan og finna slökunartilfinninguna hríslast um líkamann.
- Að setja hlutina í samhengi og sýna samkennd: Gott er að átta sig á því að við erum ekki ein í þessum aðstæðum. Margir standa frammi fyrir stærri áskorunum en við sjálf og eru sem dæmi í áhættuhópi fyrir veirunni eða komnir í sóttkví. Á meðan höfum við sjálf kannski aðeins þurft að breyta ferðaáætlunum eða flytja vinnustöðina heim. Reynum að setja okkur í spor annarra og skilja hvað þeir eru að upplifa.
Auglýsing
- Að samþykkja það sem við höfum ekki stjórn á er viðhorf sem dregur verulega úr kvíða. Að hafa áhyggjur breytir engu auk þess sem margar áhyggjur reynast óþarfar og óraunhæfar. Að samþykkja það sem er í gangi á hverju augnabliki fyrir sig og verja ekki óþarfa orku í hugsanir um framtíðina bætir andlega líðan.
- Að sleppa tökunum og samþykkja hvernig hlutirnir eru gerir okkur sveigjanlegri til að framkvæma nauðsynlegar breytingar á lífi okkar, eins og t.d. varðandi innkaupaferðir og kennslu á netinu á meðan skólar eru lokaðir.
- Að sleppa dómum. Þegar við erum opin fyrir nýjum upplifunum og forðumst að dæma þær komumst við hjá því að merkja það sem við upplifum sem „gott“ eða „slæmt“. Hlutirnir einfaldlega eru og við göngumst við þeim nákvæmlega eins og þeir eru. Án dóma erum við færari til að velja hugsanir okkar, tilfinningar og athafnir. Ástandið í dag er frábært tækifæri til að æfa sig í að halda aftur af dómum.
Hugarfar og viðhorf skiptir miklu máli á þessum óvissutímum. Veljum okkar viðhorf.
Greinarhöfundur er framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar og með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði.