Nú berast fréttir af því að valdasjúkari yfirvöld í Evrópu sölsi undir sig samfélög sín í nafni neyðarástands vegna COVID-19. Engum ætti að koma á óvart að hin hrottafengnu yfirvöld sem stjórna Ungverjalandi fari þá leið; reyndar kemur á óvart hvað þau voru lengi að því.
Ungverjaland er hluti af Evrópusambandinu. Það er ekki langt síðan það þótti næstum því óhugsandi að Ungverjaland myndi verða að alræðisríkinu sem það breytist núna hratt í. Þetta nefnilega gerist. Lýðveldi geta breyst í alræðisríki á undraskömmum tíma, sér í lagi á tímum neyðarástands.
Ennfremur er á engan hátt ljóst hversu lengi einhvers konar neyðarástand muni ríkja vegna COVID-19. Þegar faraldrinum lýkur verður óhjákvæmilega uppi ein skrýtnasta staða sem heimurinn hefur séð í efnahagsmálum. Það ætti engum að dyljast að hún getur mjög auðveldlega getið af sér fjölbreytta flóru af neyðarástöndum, eða jafnvel verið viðvarandi neyðarástand sjálf.
Á Íslandi erum við það heppin að þrátt fyrir hættu á ákveðnu óðagoti við setningu neyðarlaga, samanstanda yfirvöld þó ekki af siðlausum hrottum á borð við Viktor Orban, og þau mega eiga það að hafa ekki meðvitað reynt að nýta ástandið til að sölsa undir sig allt samfélagið. Sjálfsagt finnst flestum það reyndar... næstum því óhugsandi.
Að minnsta kosti hefur það ekki gerst ennþá. En eins og við vitum, getur það breyst með einum kosningum, sér í lagi við langvarandi og yfirþyrmandi neyðarástand. Fólk er til í vonda hluti þegar neyðin blasir við.
Virðing fyrir tortryggni
Og þá skal víkja að máli málanna í dag; snjallsíma-appinu sem Landlæknir hefur nú hafið dreifingu á, sem heitir Rakning C-19.
Þrátt fyrir að í öllum helstu meginatriðum sé mynduglega staðið að gerð appsins er allnokkur tortryggni í garð þess. Ástandið í samfélaginu vekur upp ótta um að til lengri tíma verði það liður í að draga úr frelsi borgaranna á sambærilegan hátt og yfirvöld freistast til sums staðar erlendis.
Rakning C-19 hefur farið í gegnum umfangsmikið rýnisferli. Bæði hafa færustu tölvuöryggissérfræðingar landsins rýnt það og dreifingaraðilarnir Google og Apple rýna það einnig áður en það er sett í dreifingu á símum notenda.
En því miður þarf að fjalla aðeins um örfá mistök sem hafa verið gerð, sem óhjákvæmilega dregur úr trausti til appsins og hefði mátt fyrirbyggja með réttri stefnu fyrir faraldurinn.
- Ef spurt er að því, er svarað að kóðinn (uppskriftin) að appinu verði gerður opinber og því rýnanlegur af almenningi og sérfræðingum. Hinsvegar er ennþá óvíst hvort allur kóðinn verði gefinn út og sömuleiðis hvenær. Réttara hefði verið að hefja verkefnið opið frá grunni og aldrei skrifa línu af kóða sem ekki væri rýnanleg af hverjum þeim forritara á Íslandi sem hefði áhuga á; þar á meðal þeim öryggissérfræðingum sem fengnir voru til að rýna það. Einnig hefði átt að tilkynna um opinbera útgáfu kóðans á sama tíma og tilkynnt var um verkefnið, frekar en að láta einstaklinga með áhyggjur af gegnsæi og öryggismálum sækjast sérstaklega eftir upplýsingum um þau. Þessi seinagangur við útgáfu kóðans hefur valdið mikilli tortryggni, algjörlega að óþörfu.
- Misvísandi skilaboð um virkni appsins hafa þvælt umræðuna gríðarlega mikið. Á einum stað stendur að gögnin geymist einungis í símum notenda, en þeir geti sent þau inn ef þeir greinast með smit, en á öðrum stað stendur að appið geti greint hverjir séu í návígi við hvern, og svipar þá til TraceTogether-appsins í Singapore sem virkar á allt annan hátt en hið íslenska. Mótsögnin í þessu tvennu er kannski ekki augljós þeim sem ekki þekkja vel til hugbúnaðargerðar, en hún er æpandi í röðum tæknimanna. Tæknileg tilhögun svona verkefna er nefnilega aðalatriðið, en ekki aukaatriði. Það skiptir öllu máli að rétt og skýrt sé greint frá því hvernig appið virki og því miður hefur verið misbrestur á því með tilheyrandi tortryggni bæði tæknimanna og annarra.
Þegar þetta er skrifað bíður undirritaður spenntur eftir því að kóðinn verði gefinn út svo hægt sé að lesa hann og vonandi að fullvissa tortryggna notendur um að appið virki eins og því hefur verið lýst í sinni meinlausustu mynd. En hvorki er vitað hvort nógu mikið af kóðanum verði gefið út til að meta megi virknina í heild sinni, né er vitað hvenær. Það er vægast sagt óþægileg staða sem er í þokkabót algjörlega óþörf.
Hugbúnaðargegnsæi skiptir máli
Allt þetta er einkenni þess að yfirvöld hafa ekki sett sér stefnu um að hugbúnaður sem yfirvöld þrói eða kaupi sérsmíðaðan, skuli vera opinn (e. open-source) og gegnsær. Þetta er samt raunverulega einföld og sjálfsögð krafa. Ef yfirvöld hefðu þegar sett sér þá stefnu að sérsmíðaður hugbúnaður skyldi gefinn út opinn, þá væri miklu auðveldara að fá borgara sem sinna þeirri samfélagslegu skyldu sinni að tortryggja yfirvöld, til þess að nota appið og þar með taka aukinn þátt í baráttunni gegn COVID-19.
Hrópið í eyðimörkinni um opinn hugbúnað heyrist sjaldnast hátt í samfélaginu vegna þess að flest fólk telur sig ekki hafa næga þekkingu á tæknimálum til að skilja neitt í þeim (sem er í sjálfu sér ekki endilega rétt). En í grunninn má lýsa opnum hugbúnaði sem gegnsæjum: forrit sem hvaða forritari sem er getur skoðað undir húddinu og sagt til um hvernig virki.
Tæknimálin útundan
Það er svo sem efni í aðra grein og gott betur nákvæmlega hvers vegna tæknimálin eru svo auðveldlega undanskilin í allri umræðu um gegnsæi, frelsi og lýðræði. Hér skal látið duga að segja, að það er engin góð ástæða fyrir því, einungis lélegar. Að hugbúnaður sé opinn, sem yfirvöld ýmist búa til sjálf eða kaupa sérsmíðaðan, er jafn sjálfsagt og sú heilbrigða tortryggni sem þarf að ríkja í garð yfirvalda í hverju því frjálslynda lýðræðissamfélagi sem vill búa til langframa við ýmist frelsi eða lýðræði, og hvað þá hvort tveggja.
Höfundur er þingmaður Pírata.