Streita, áhyggjur og óvissa eru þekktir áhættuþættir fyrir geðheilbrigði okkar og má því með sanni segja að nú reyni verulega á viðbrögð okkar og seiglu hvar sem er í heiminum. Við á Íslandi höfum fylgst með aðdáun með framvarðarsveit okkar, hvort sem er í almannavörnum eða heilbrigðisþjónustu og þakka fyrir skeleggar ákvörðanir, þjónustu og auðlindir sem okkur standa til boða hér á þessu landi, í þessum heimshluta. Það eru þó ótal atriði sem valda streitu og margir eru búnir að ræða þau, svo sem hræðsla við veikindin, áhyggjur vegna afkomu og einangrun frá ástvinum, jafnvel nánum dauðvona. Frá því að þurfa að vinna við gríðarlega erfiðar og breyttar aðstæður, frá tekjumissi, hættu á auknu heimilisofbeldi og að jafn léttvægum hlutum eins og að komast ekki í hársnyrtingu eða til útlanda í fríið sitt.
Það er mjög skrýtið að upplifa þessar takmarkanir á frelsi okkar og neyslu og félagsvenjum. Að þurfa að gíra okkur niður, vera bara heima, fara ekki í ræktina, sundið, bókaklúbbinn, til vinanna, á tónleikana, í leikhúsið og svo mætti lengi telja. Svo má alltaf ræða hvort við lærum af þessu og hvernig allt verður að þessum tíma afstöðnum, hvernig heimurinn lítur út?
Hvað varðar geðhjúkrun og meðferð hefur þetta ástand nokkra áhugaverða snertifleti. Á mínum vinnustað, sem er í samfélagsgeðteymi geðsviðs Landspítala, er eðlilega lögð áhersla á virkni og samfélagsþátttöku, að brjóta upp félagslega einangrun og efla tengslanet í samvinnu við notendur þjónustunnar. Og nú er hætt við bakslagi hjá mörgum, bæði vegna skertrar þjónustu, lokaðra félagslegra úrræða, vinnutaps og þess veruleika að best sé að halda sig heima, hitta sem fæsta og draga úr virkni og þátttöku sem mest má. Algerlega öfugt við það sem gæti að okkar mati bætt geðhag og eflt andann. Sem betur fer eru ekki öll sund lokuð og margir nýta sér þau úrræði sem tæknin veitir. Batamiðstöð á Kleppi, Hugarafl og fleiri aðilar eru virkir á netinu og Geðhjálp, Rauði krossinn, Landlæknir og fleiri eru með gott og nytsamlegt efni sem auðvelt er að nálgast. Og svo er auðvitað blessaður síminn til að hafa samband við aðra og þá má minna á hjálparsíma Rauða Krossins, 1717.
Það má ýmislegt gera til að halda lífinu í eðlilegum farvegi, svo sem hreyfa sig og huga að mataræðinu og svo framvegis. Líka má gera sér eins konar andlegt landakort, fara að dæmi Róbinson Krúsó og skrá það sem er jákvætt og neikvætt við ástandið, það sem er hjálplegt og miður hjálplegt við hugsanir, tilfinningar og hegðun, búa sér til leiðbeiningar fyrir aukna vellíðan og vera á varðbergi gagnvart neikvæðum niðurrifshugsunum og röddum. Muna að við erum ekki ein og að við þurfum aðvera, ekki endilega gera!
Fyrir okkur starfsfólkið í geðþjónustunni er þetta einstakt tækifæri til að setja sig í spor fólks sem er einangrað, einmana, með gisið tengslanet og finnst erfitt að fóta sig í aðstæðum sínum. Hve oft höfum við ekki hugsað um að minnka áreiti, fá meiri tíma til að vera ein, hugsað um það í hillingum, en orðið eirðarlaus, einbeitingarlaus, framtakslaus og jafnvel tortryggin ef þessi tími varir lengur en nokkra daga. Við getum sett okkur í spor þess sem finnst tilveran óraunveruleg, að finnast allt breytt, tilveran hafi svolítið glatað lit sínum og að langa til að vera með öðrum en ekki komast til þess.
Fyrir okkur getur þetta verið tími til að íhuga, skoða viðhorf okkar og samkennd, að skoða hvernig við tökumst á við breytingar og ný starfsskilyrði. Og hvernig við saman ætlum að halda út, vera í sambandi, nýta tæknina og ekki síst takast á við verkefnið að halda geðheilsunni hver sem á í hlut.