Mikið hefur verið fjallað um gas- og jarðgerðarstöð SORPU upp á síðkastið. Þessi umfjöllun hefur verið löðrandi í pólitískri dramatík. Leiðsögn stjórnvalda er nauðsynleg í úrgangsmálum eins og öðru, en dramatík og ofuráhersla á óskiljanleg fjármál gerir það að verkum að engin veit eða skilur upp né niður í málinu. Þrátt fyrir mikla samlegðarmöguleika gegnum sameiginlegar stofnanir eins og SORPU og Strætó lánast sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu seint að feta margtroðnar sjálfbærar þróunarslóðir.
Verið er að leggja lokahönd á fyrstu gas- og jarðgerðarstöð landsins, sem getur, ef stjórnvöldum ber gæfa til, orðið risastórt framfaraskref í sjálfbærri þróun. Gas- og jarðgerð er löngu viðtekin tækni á þessu sviði. Hún kostar sitt en er oft einfaldlega heppilegasta aðferðin við að endurvinna lífúrgang (e. biodegradable waste) og gríðarlega áríðandi mótvægisaðgerð í loftslagsmálum. Með henni er mögulegt að hætta urðun lífúrgangs (urðun=mikil sóun og mengun) og stunda skilvirka auðlindanýtingu, hringrásun næringarefna, kolefnisbindingu (molta) o.fl. Það er löngu kominn tími til að ráðamenn og fjölmiðlar fræði og miðli um hvaða þýðingu stöðin hefur, hversu öflug mótvægisaðgerð hún er. En nei, síðan í haust berast (a.m.k. mér) aðeins neikvæðar fréttir af henni og þá helst af fjármálakrísu SORPU. Jafnvel almannafréttamiðillinn RÚV ber ekki fréttir af eftirvæntingu og gleði yfir að loksins sé stöðin risin og metnaðarfullar áætlanir sveitarfélaganna á suðvesturhorninu, byggðar á vönduðum undirbúningi, úttektum fagaðila o.fl. því loksins að verða að veruleika. Ætli það séu ekki um 10 ár síðan ákvörðun um byggingu stöðvarinnar var tekin? Nei, frekar er höfð eftir dramatísk lýsing eins bæjarstjórans í samlaginu um að allt útlit sé fyrir að SORPA fari í greiðsluþrot um miðjan mars. Hm – en – SORPA er ekki einkamarkaðsfyrirtæki þó þannig sé mikið talað um hana. Þetta var í febrúar.
Sjálfbær þróun og sveitarfélög
Það er ekki auðvelt að fjalla um mál eins og þetta á einfaldan hátt en ég reyni að gera mitt besta. Til að byrja með skulum við skella okkur til Malmö í Svíþjóð. Umhverfispólitík frænda okkar Svía er að mörgu leyti einstök. Til að fá samhengi er ágætt að skoða vistbílastefnu Malmöborgar 2017-20 (s.Miljöbilstrategi Malmö Stad 2017-2020). Eins og svo mörg önnur stefnuskjöl Svía hefst hún á tengingu við stefnu ríkisstjórnarinnar á viðkomandi sviði, síðan við stefnu lénsins og að síðustu við umhverfisstefnu borgarinnar. Það er einfaldlega hefð fyrir því í Svíþjóð að vinna að sama markmiði á öllum stjórnstigum, og umhverfisstefna ríkisins nær utan um allt umhverfissviðið. Og ég hef líka séð unnið útfrá þeirri stefnu innan háskóla. Skemmst er frá því að segja að farartækjastefna Malmö gerir ráð fyrir að um næstu áramót verði öll farartæki borgarinnar hætt að nota jarðefnaeldsneyti. Frá árinu 2015 hafa strætisvagnar í Malmö notað lífgas (biogas) eða aðra visthæfa orkugjafa. Lífgasið er unnið úr lífúrgangi borgarbúa. Þetta leiðir hugann óhjákvæmilega að Strætó, sem er í eigu sömu sveitarfélaga og SORPA, og man hlýtur að spyrja: Af hverju ganga aðeins örfáir strætisvagnar fyrir metani? Og hvað með alla hina bílana í eigu sveitarfélaganna sem eiga og reka SORPU og Metan hf.? Og af hverju hafa sveitarfélögin ekki undirbúið og gert innviðabreytingar í takt við sjálfbæra þróun annars staðar – tíminn var nægur. Staðfestingu þess að sum sveitarfélaganna hafa engan áhuga á framförum á þessu sviði mátti sjá í Fréttablaðinu 13.12.sl. þar sem fram kemur að sveitarfélögin hafa lítinn sem engan áhuga á að auka metannotkun. Því miður er ferlið í ákvarðanatöku um stöðina svo til ekkert rætt í þessari frétt frekar en öðrum, aðeins sagt að stöðin verði væntanlega tilbúin í ár.
Stjórnun SORPU
Stöldrum aðeins við starf og feril brottrekins forstjóra, Björns H. Halldórssonar. Ég hef ekki kynnst Birni persónulega, en vegna starfa minna í því sem sumir (þar á meðal fyrrverandi umhverfisráðherra) vilja kalla eftirlitsiðnað, og ekki síður vegna óbilandi áhuga míns á framförum í meðhöndlun lífúrgangs, hef ég fylgst með störfum hans hjá SORPU um árabil. Rétt eins og ég hef fylgst með starfsemi og þróun annarra fyrirtækja í úrgangsmeðhöndlun hér á landi. Vegna áðurnefnds áhuga míns á meðhöndlun lífúrgangs hitti ég Björn að máli árið 2008. Hann reyndist mjög vel að sér um málefnið og kominn með gas- og jarðgerð á radarinn. Hann var einmitt framkvæmdastjóri Metans hf. þar til hann var ráðinn forstjóri móðurfyrirtækisins SORPU. Þegar horft er á áherslur hans og árangur út frá hreinum fagsjónarmiðum verður ekki annað séð en að hann hafi staðið sig mjög vel, sérstaklega þegar horft er til þess rekstrarumhverfis,og flokka- og hreppapólitíkur sem SORPA hefur mátt búa við í stað stuðnings við setta stefnu.
SORPA og Strætó
Raunar var SORPA eini urðunaraðilinn á Íslandi sem sjálfviljugur og ótilneyddur sýndi þá fyrirhyggju og framfarahugsun að safna hauggasi strax um aldamótin. Dótturfyrirtækið Metan hf. var stofnað í kringum þá starfsemi og Björn ráðinn í stöðu framkvæmdastjóra. Næstu skref, hreinsun hauggassins svo það væri nothæft til að knýja bíla og lögn gasleiðslu á N1 stöð í Ártúnsbrekku í Reykjavík nokkru síðar (nærri stæðahöfn Strætó) voru öll tekin undir hans stjórn. Það var upplagt að eðla hauggas upp í vélaeldsneyti þar sem nóg er af hagstæðri rafmagns- og upphitunarorku á höfuðborgarsvæðinu. Hugsið ykkur ef sænsk samvinnuhefð stjórnvalda væri ráðandi hér. Ef svo hefði verið gæti ég trúað að stöðin hefði verið komin í gagnið 2014 og Björn hefði ekki neyðst til að biðja bæjarfélög samlagsins að taka sér stóru systur til fyrirmyndar í nýtingu metans (sjá leiðara ársskýrslu SORPU 2018).
Molta og jarðgerð
Svo er það moltan. Áðurnefnd Fréttablaðsgrein hefst á frásögn „um mörg óþægileg mál“ sem stjórnendur SORPU kljáist við um þessar mundir og: “Eitt af þeim tengist metnaðarfullri moltuframleiðslu fyrirtækisins sem lítill áhugi virðist fyrir“. Ekki er fjallað nánar um moltuframleiðsluna eða tengd mál. Sem betur fer er Ísland þátttakandi í að byggja upp hringrásarhagkerfi -þó lítið hafi frést af áætlunum þar um. Og það er hlutverk sveitarfélaganna að koma hringrás lífúrgangs aftur í gang, og okkar að gefa henni „að bíta og brenna“. Miðað við stöðu mála er óvarlegt að ætla að SORPA framleiði góða moltu strax í upphafi því moltufræði og þróun moltugæða hafa ekki verið stunduð o.s.frv. Molta er vart söluvara á Íslandi. Allavega veit ég ekki til þess. Síðast þegar fréttist (RÚV 2019) gekk Moltu á Akureyri illa að selja afurðir sínar og ég hef aldrei séð söluskrá þeirra. Þó hefur fyrirtækið verið starfandi í u.þ.b. áratug. Svo vítt ég þekki til vantar þekkingu og þróun í jarðgerð og þróun á jarðvegsfræðisviðinu almennt svo unnt verði að staðla og gæðavotta gróðurmold af ýmsum gerðum. Það vantar meira fagstarf, m.a. í menntastofnunum og þar af leiðandi vantar fagþekkingu á sviðinu. Lítil sem engin gæðaþróun er í gangi og ekki hægt að fá styrki til að stunda þvílíkt á eigin spýtur, ég tékkaði á því hjá NMÍ og Rannís fyrir nokkrum árum.
Það er vel hægt að framleiða fína gæðavottaða moltu og gera hana að eftirsóttri söluvöru, nóg er af garðyrkjuáhugafólki í landinu, sem margt kvartar undan litlum gæðum íslenskrar gróðurmoldar sem hér er seld. Það þarf auðvitað að vanda sig, en þetta er hægt. Meira að segja í viðskipta- og fjármálahöfuðborg Þýskalands, Frankfurt am Main, þar sem íbúar eru tvöfalt fleiri en Íslendingar allir og ansi hreint þéttbýlt, er hægt að framleiða slíka vöru úr eldhús-/matvælaúrgangi. Það er einmitt gert í gas- og jarðgerðarstöð, einni þeirri fyrstu sinnar tegundar í Þýskalandi. Hún var reist 1999 og stækkuð í fyrra, enda er búið að lögleiða sérsöfnun líf- og matvælaúrgangs þar.
Það er víðar en í boltaleikjum sem samþætting, samræming og samvinna skilar sér. Ég nefni boltaleiki hér því þeir eru svo augljóst dæmi um árangur af beitingu þessara þátta. Tími er kominn til að borg og bæjarfélög komi málinu í almannahags-farveg og leggi rækt við að hlífa almenningi við þrasi og leiðindum. Leiðbeini rösklega og sýni hvert förinni er heitið, hvar þurfi í alvörunni að berjast og hvers sé óhætt að njóta.
Höfundur er MSc. umhverfis- og auðlindafræðingur. Sérhæfing: Nýting lífúrgangs (B.Sc. líffræðingur) og sjálfbær þróun. Námið fór fram við HÍ, SLU (Landbúnaðarháskóla Svíþj.) og LbhÍ.
Hún þekkir nokkuð til umhverfismála á Norðurlöndunum, var sérfræðingur Íslands á sviði Norrænnar umhverfismerkingar (Svanurinn) 2001-2007 og vann við eftirlit með úrgangsaðilum hjá Umhverfisstofnun á árunum 2008-2015. Í norrænum starfsmannaskiptum við Lénsstofnun Skáns í Malmö 2012 opnuðust ýmsar dyr og gott aðgengi að stjórnsýslu- og stefnu- og málefnavinnu sænskra stjórnvalda.