Þennan dag mátti sjá ýmislegt í borginni, sem ekki hafði sést lengi: Börn léku sér á miðri götu og bílstjórarnir sem biðu eftir því að komast áfram fylgdust brosandi með þeim. Margir stigu meira að segja út úr bílunum og tóku þátt í leiknum. Alls staðar stóð fólk og rabbaði vingjarnlega saman og spurðist fyrir um líðan hvers annars. Þeir sem voru á leið til vinnu sinnar höfðu tíma til að horfa á falleg blóm í glugga eða gefa fuglunum. Læknarnir höfðu nægan tíma fyrir sjúklingana sína. Verkamennirnir gátu unnið verk sín af alúð og áhuga því nú var ekki lengur aðalatriðið að ljúka sem mestu á sem skemmstum tíma. Allir gátu eytt eins miklum tíma og þeir gátu eða vildu til að gera allt sem þeir kærðu sig um því nú var aftur til nóg af honum.
Mómó eftir Michael Ende, í þýðingu Jórunnar Sigurðardóttur, bls. 252.
Til að viðhalda mannlegri tilveru og næra hana þarf endalaus handtök og hugsanir. Það þarf að elda mat og mata þau sem ekki geta borðað sjálf, litlu börnin okkar og veikt fólk. Það þarf að þrífa heimili okkar og vinnustaði. Það þarf að kenna og gæta. Það þarf að byggja hús og heimili. Það þarf svokallaða innviði; spítala, skóla, leikskóla. Brýr og vegi. Það þarf góða og örugga matvælaframleiðslu. Og svo mætti lengi telja. Það þarf að tala og hlusta. Segja sögur og hlusta á sögur. Við þurfum líka afdrep, bæði inní okkur sjálfum og úti í hinni náttúrulegu veröld, staði sem við getum dvalið á til að endurnæra okkur sjálf svo að við getum haldið áfram að sinna því sem við verðum að sinna, því sem hér var upp talið. Við þurfum tíma sem við eigum sjálf, til að hugsa og til að komast að niðurstöðu um það hvað við viljum, hver við erum, hvað við þurfum.
Faraldurinn sem nú geisar í veröldinni fær okkur til að hugsa um hvað skiptir máli í þessum heimi. Og þegar við hugleiðum það hljótum við að komast að þeirri niðurstöðu að mannfólk skipti meira máli en gróði. „Að sjálfsögðu“ segjum við en verðum engu að síður að horfast í augu við að það er einmitt ekki sjálfsagt. Langt því frá. Staðreyndin er sú að veröldinni okkar hefur verið breytt í stað þar sem ekkert skiptir meira máli en gróði fárra, jafnvel þótt að hann sé á kostnað fjöldans. Fjársvelt heilbrigðiskerfi og „aukin kostnaðarvitund“ sjúklinga, fjársvelt skólakerfi og síaukið álag á starfsfólk, fjársvelt umönnunarkerfi fyrir aldraða og helsjúk láglaunastefna sem bitnar á vinnuaflinu þar; allt er þetta afleiðing þess auðræðis sem ráðið hefur för hér og annars staðar. Á meðan að allt sem skiptir okkur á endanum mestu máli er vanfjármagnað hafa endalausir milljarðar verið fluttir í skattaskjól eða greiddir í arð til þeirra sem fá aldrei nóg af peningum og völdunum sem auðæfunum fylgja. Gróði fárra ofar öllu hefur verið trúarsetningin sem öll hafa þurft að lifa við.
Kapítalisminn er kerfi sem snýst um allt það sem á endanum skiptir engu máli. Hann er risavaxin og stjórnlaus framleiðsluvél sem varpar skugga sínum yfir veröld þar sem skortur og fátækt eru hversdagslegustu hlutir sem hægt er að hugsa sér. Hann hefur óteljandi manneskjur í endalausri vinnu en tryggir þó aðeins litlum hluta velsæld og öryggi. Hann byggir lúxus-húsnæði á sama tíma og hann útbýr skort á húsnæði fyrir vinnuaflið, hann stelur milljörðum sem verða til með vinnu fólks og rekur það svo um leið og hann telur sig þurfa. Hann segir: „Ég á allt og ég má allt.“ En þegar mannkynssagan endurtekur sig í hundraðasta skipti og farsótt leggst yfir heimsbyggðina stendur hann afhjúpaður í öllum sínum hryllingi og lögmálin sem hann byggir tilveru sína á, sadísk og mannfjandsamleg, lögmálin um rétt hins sterka til að ríkja yfir hinum veikburða, lenda samstundis á öskuhaugum sögunnar. Því hvers vegna ættum við að samþykkja að setja vinnuaflið okkar og dýrmætan tíma í að næra maskínuna sem við höfum séð að færir okkur ekkert nema ógæfu og uppnám, kerfið sem getur ekki leyst þau vandamál sem mestu skiptir að leysa þegar allt kemur til alls?
Eftir að faraldurinn er genginn yfir vitum við að krafan verður hávær um að nú skuli allt verða eins og áður. Að sömu lögmál verði að gilda. Þau sem trúa því að eina mælikerfið sem notast megi við sé mælikerfi arðránsins munu flytja boðskap sinn hátt og snjallt eins og ávallt, af dogmatískri fylgispekt við auðræðið. Þau munu áfram segja að ekki séu til neinir peningar til að reka það samfélag sem við viljum og eigum skilið. En þau eiga ekki eftir að taka undir kröfuna sem hjóma mun hátt og skýrt úr öllum hornum heimsins, kröfuna um að þau sem hafa stolið risavöxnum hrúgum af fé og komið undan skili þýfinu til að koma samfélögum okkar upp úr kreppunni. Vegna þess að vandi vanfjármagnaðra skólakerfa, heilbrigðiskerfa, umönnunarkerfa, húsnæðiskerfa, velferðarkerfa, sá risavaxni samfélagslegi vandi sem við höfum staðið frammi fyrir hefur aldrei verið sá að peningarnir séu bara því miður ekki til. Aldrei. Hér sem og annars staðar hefur verið til miklu meira en nóg til skiptanna. En kapítalisminn hefur fengið að ráða för og undir vitfirrtu stjórnkerfi hans hefur þótt gott að milljarðar renni til fámenns hóps í stað þess að gagnast okkur öllum. Uppspretta vandans hefur alltaf verið mannfjandsamleg hugmyndafræði sem byggir á óréttlæti og ójöfnuði. Heimsmynd sem hvílir á grimmilegu stigveldi.
Til að viðhalda mannlegri tilveru og næra hana þarf endalaus handtök og hugsanir. Og tíma til að hugsa um það í hvað við viljum að vinnan okkar og tíminn okkar fari; í það sem við elskum og það sem skiptir okkur máli, okkur sjálf, fjölskyldur okkar, samfélögin okkar eða til að næra óseðjandi fégræðgi fárra?
Kapítalisminn; tímaþjófurinn, lífríkisþjófurinn, manneskjuþjófurinn, er svo voldugur að sagt er að það sé auðveldara að ímynda sér heimsendi en endalok hans. En við hljótum að sjá með æ skýrari hætti að hann og tilvera okkar mannfólks hér á jörðinni fara einfaldlega ekki saman. Og við hljótum að velja okkur sjálf frekar en skrímslið. Rithöfundurinn og baráttukonan Arundhati Roy kemst svo að orði í grein um faraldurinn og afleiðingar hans, og ég geri orð hennar að mínum:
„Í sögulegu samhengi hafa farsóttir knúið mannfólk til að segja skilið við fortíðina og sjá fyrir sér tilveruna að nýju. Um þessa gildir hið saman. Hún er gátt, hlið á milli einnar veraldar og þeirrar næstu. Við getum valið að ganga þar í gegn með hræ fordóma okkar og haturs í eftirdragi, ágirnd okkar, gagnabanka og dauðar hugmyndir, okkar lífvana árfarvegir og reykfylltu himnar í bakgrunni. Eða við getum gengið í gegn létt á fæti, með lítinn farangur, tilbúin til að ímynda okkur nýjan heim. Og tilbúin til að berjast fyrir honum.“
Höfundur er formaður Eflingar.