Fyrstu mánuðir ársins 2020 hafa svo sannarlega verið viðburðaríkir og enn sér fyrir endann á þeim atburðum sem eru öllum efstir í huga.
COVID-19 veiran sem sögð er eiga upptök sín á matarmarkaði í Wuhan í Kína hefur náð að dreifa sér um alla heimsbyggðina á stuttum tíma og ekki hefur enn tekist að stöðva útbreiðslu hennar. Það er ekki ofsögum sagt að heimurinn er í sameiginlegu taugaáfalli sem von er þar sem ráðamenn hafa fæstir brugðist nægilega fljótt og vel við.
Stjórnkerfi heimsins virðast ekki hafa verið undir þessi ósköp búin og eru varla enn komin í gang. Nú eru markaðir veraldarinnar í frjálsu falli og miklar sviptingar eiga sér stað sem erfitt er að henda reiður á.
Fréttastofur og fjölmiðlar fjalla vart um annað sem von er og fólk reynir að átta sig á því hvað þetta muni þýða. Hvar endar þetta allt saman? Hvernig verður efnahagurinn þegar upp er staðið? Hversu margir munu falla í valinn áður en þessum hildarleik linnir? Hvað tekur við?
Niðurskurður á félagslegri þjónustu og lausbeislun allra hafta í viðskiptum hefur verið á boðstólum síðan Ronald Reagan og Margaret Thatcher komust til valda í lok áttunda ártugsins og byrjun þess níunda. Við tók heimsvæðingin (e. Globalisation) sem var drifin áfram af risafyrirtækjum og öflugustu efnhagsvæðum heimsins.
Heimsmyndin breyttist mjög þegar Sovétríkin og önnur kommúnistaríki Austur-Evrópu féllu með brauki og bramli undir lok níunda áratugarins. Þó að vesturveldin hafi virst standa uppi sem sigurvegarar kalda stríðsins var það skammgóður vermir.
Kína hefur aftur á móti blandað saman sínum kommúnisma og glerharðri markaðsvæðingu og varð æ sterkara í upphafi tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Margir hafa velt þessum sviptingum fyrir sér og þar má nefna stjórnmálaheimspekinginn Francis Fukuyama sem tilkynnti „endalok sögunnar“ þegar vestrænar ríkisstjórnir gátu einbeitt sér að því að sameina alþjóðakerfið undir einn hatt.
Hann sá fyrir sér endalok sögunnar, endalok hugmyndafræðilegrar þróunar mannkyns og alþjóðavæðing frjálslynds lýðræðis vestrænna ríkja sem endanlegt stjórnarform. Alþjóðavæddur kapítalisminn hefur þó aldeilis orðið fyrir sínum skakkaföllum líka, til að mynda þegar bankarnir féllu hver á fætur öðrum 2008 og almannafé var notað til að koma í veg fyrir algert kerfishrun.
Bandaríkin berjast nú við að halda áhrifum sínum sem mesta efnahagsstórveldið og það ríki sem hefur mest hernaðarumsvif á heimsvísu. Enn er það svo, en Kína er það ríki sem framleiðir hvað mest af vörum og hefur nú orðið gífurleg ítök í veröldinni.
Kínverjar eru það afl sem Bandaríkjamenn telja sér standa hvað mest ógn af á sviði heimsmálanna. Rússland, undir stjórn Pútíns er einnig öflugt en hefur ekkert í hin tvö risaveldin.
Áhrifamáttur Evrópusambandsins er ekki langt frá áðurnefndum ríkjum en það á við sín vandamál að stríða. Til marks má nefna að ekki eru öll kurl komin til grafar um afleiðingar útgöngu Bretlands úr sambandinu.
Indland hefur stökkbreyst á undanförnum árum og er einnig voldugt en vegna gífurlegrar fólksmergðar og þeirra vandamála sem hún skapar hafa þeir ekki náð að komast á almennilegt flug efnahagslega.
Brasilía sem var í skamman tíma mjög áberandi og hafði burði til að verða eitt af hinum stóru á sviði efnahagsmála, hefur dregist nokkuð aftur úr vegna ófriðar í stjórnmálum innanlands og mikillar spillingar.
Risafyrirtæki hafa í raun meiri völd en flest ríki í heiminum. Velta þeirra er oft margföld á við fjölda þjóðríkja. Mikill og ótrúlegur auður hefur safnast á fárra hendur.
Kína og Indland eru góð dæmi um misskiptinguna þar sem stór hluti af íbúunum lifir rétt við eða undir fátækramörkum.
Sá auður sem hefur skapast með efnahagsvexti þessara ríkja hefur eins og annars staðar endað í fangi örfárra auðkýfinga. Fyrirtæki á borð við Microsoft, Apple, Amazon, Alphabet, Facebook, Berkshire Hathaway, Tencent, Alibaba, Visa og JPMorgan Chase sem eru svo stór að auður þeirra hefur bein áhrif hvert sem litið er.
Þessi fyrirtæki eru tvímælalaust áhrifavaldar í kosningum út um allan heim og geta haft áhrif á lýðræðisþróun hvarvetna. Talað hefur verið um að brjóta þurfi þessi fyrirtæki upp í smærri einingar til þess að samkeppnisaðstaðan lagist í heiminum.
Sú þróun hefur ekki átt sér stað ennþá sem er að öllum líkindum vegna þess að risarnir sjálfir eru hvorki tilbúnir né fáanlegir til þess að breyta leikreglunum. Enda býr það fólk sem á þessi fyrirtæki ekki í sama heimi og við hin. Þetta ofurríka fólk getur alveg kallað sig heimsborgara því það getur verið í Boston að morgni og í Hong Kong að kvöldi og komið til London kvöldið þar á eftir.
Allstaðar sem það kemur mætir því það sama; lúxus hótel, límósínur, humar og kavíar, kampavín og hvað sem hugurinn girnist. Þetta er heimurinn þess og það er eiginlega ekki bundið af neinum landamærum. Þjóðríkin eru varla til í huga þessa fólks.
Fyrir almúgann sem getur eða verður að ferðast á milli staða er þessu öðruvísi farið og það sem við blasir er möguleg upplausn þjóðríkjanna og hugmyndarinnar um þau. Á sama tíma og fyrirbæri á borð við Evrópusambandið verða til er mikil krafa um sjálfstæði og uppskiptingu ríkja, bæði í Evrópu og jafnvel annars staðar í heiminum.
Um leið er heimurinn að verða einsleitari því almúgi á faraldsfæti sér sömu fyrirtækin og fyrirbærin hvort sem hann er staddur í London, Peking eða Salt Lake City.
Líkja má ástandinu í heiminum núna við styrjaldarástand að vissu marki. Almenningur fellir sig við ráðleggingar og tilskipanir ráðamanna, sem hefta persónulegt frelsi. Fólk er tilbúið til þess að leggja sín lóð á vogarskálarnar við að hefta útbreiðslu pestarinnar með því að einangra sig frá samskiptum við annað fólk.
Í viðtali við RÚV sagði Guðmundur Hálfdánarson prófessor í sagnfræði að það „eina sem við getum kallað jákvætt eða hagkvæmt við striðslíkinguna er til að þjappa þjóðum saman. Til að fá fólk til að fórna ákveðnum hagsmunum fyrir hagsmuni heildarinnar.“ Þarna átti hann við orðræðu stjórnmálanna víðsvegar um heim í yfirstandandi faraldri. Samlíkingin er líka nátengd þjóðríkishugmyndinni.
Þetta sama fólk hefur misst tekjur eða jafnvel sjálfa atvinnuna vegna þess að faraldurinn hefur orðið til þess að stór hluti vinnuaflsins hefur verið sendur heim til sín. Tilgangurinn er að gera það sem hægt er til að hefta útbreiðslu veirunnar.
Aðrar aðgerðir hafa fylgt í kjölfarið og má hugsa sér að þær geti verið nauðsynlegar á meðan á núverandi neyðarástandi stendur, en stóra spurningin er hvað mun framtíðin bera í skauti sér?
Á Íslandi hefur rakningarapp verið tekið í notkun. Það hefur verið samþykkt af persónuvernd og er sakleysislegt að því leyti að einstaklingarnir hlaða því sjálfir niður í snjalltæki sín. Ef þurfa þykir gefa þeir svo yfirvöldum leyfi til notkunar upplýsinganna sem safnast hafa við að rekja hugsanlegar smitleiðir.
Slík aðferð kemur óneitanlega að gagni við að hefta úbreiðslu COVID-19. Þessu er ekki að heilsa annars staðar í heiminum.
Ísraelsstjórn undir forsæti Benjamins Netanyahu hefur lögleitt notkun eltitækni (e. tracking) í farsímum til að fylgjast með þeim sem hefur verið skipað í sóttkví vegna hugsanlegs veirusmits.
Einhugur var í ríkisstjórninni að gera þær lagabreytingar sem hún taldi þurfa, þrátt fyrir miklar mótbárur frá ýmsum hópum sem vildu vernda persónufrelsi. Það má vel vera að þetta sé hentug tækni til að hefta útbreiðslu COVID-19 en hvað gerist þegar sú ógn verður yfirstaðin?
Tævan notast einnig við stafrænar upplýsingar frá farsímakerfum til að fylgja eftir kröfum og tilskipunum um sóttkví. Sama er upp á teningnum í Singapore þar sem ríkisstjórnin hefur lengi haft tilhneigingu til að fylgjast náið með borgurunum. Frakkland og Þýskaland eru að undirbúa viðlíka eftirlit.
Núna er faraldurinn notaður til að innleiða enn meira eftirlit með íbúunum. Kína hefur notast við andlits-skimun (e. face recognition techniques) í baráttunni við alheimsfaraldurinn sem átti upptök sín þar.
Að auki hafa nokkrar ríkisstjórnir tekið lýðræðið úr sambandi, að eigin sögn tímabundið, en hvort svo verður á eftir að koma í ljós.
Viktor Orban forsætisráðherra Ungverjalands hefur verið veitt vald til að stjórna landinu með tilskipunum sem ekki þurfa að fara í gegnum þingið né aðrar stofnanir áður en þær koma til framkvæmda. Þingið er ekki starfandi og kosningar verða ekki haldnar.
Stjórnarandstaðan lagði til að tímamörk yrðu sett á tilskipunarvald Orbans en það var ekki samþykkt. Því hafa forsætisráðherrann og hans kónar frítt spil til að gera hvaðeina sem þeim sýnist um ókomna mánuði og mögulega lengur.
Nú þegar hafa verið settar á háar sektir og fangavist sem viðurlög við því að dreifa því sem stjórnvöld meta að séu rangar upplýsingar um faraldurinn.
Í Serbíu ganga vopnaðir menn um götur og gæta þess að útgöngubann sé virt. Þar er einnig fylgst með ferðum fólks í gegnum farsímakerfi. Háar sektir liggja við því að brjóta útgöngubann og mannréttindasamtök hafa lýst yfir miklum áhyggjum vegna þess að ekki fæst betur séð en að popúlískir flokkar séu að nota sér ástandið til að sanka að sér völdum.
Forsetaembætti Serbíu er í rauninni upp á punt en Aleksandar Vučić forseti hefur tekið sér fullt vald varðandi aðgerðir tengdum faraldrinum um ótakmarkaðan tíma. Bæði Orban og Vučić eru últra þjóðernissinnar sem hafa engan áhuga á lýðræði eða mannréttindum og þess vegna grunar flesta að þeir séu að nota sér ástandið sjálfum sér til hagsbóta.
Kúba er í svipaðri stöðu og alræðisvald stjórnarinnar þar er í algleymi.
Blaðamaðurinn Simon Chandler fjallaði um þessar breytingar í grein á vef tímaritsins Forbes þann 23. mars síðastliðinn. Hann fullyrðir að margar ríkisstjórnir noti ástandið til að auka eftirlit með borgurum sínum langt umfram það sem nauðsynlegt sé og ekki eingöngu í þágu þeirrar baráttu sem háð er til að bjarga mannslífum.
Nú hefur upplýsingatæknirisinn Google ákveðið að veita 131 ríki aðgengi að gögnum sem það geymir um ferðir fólks. Þessar upplýsingar sem fyrirtækið gefur eru enn ekki rekjanlegar til einstaklinga en spurningin er hvort og hvenær þær verða tengdar við nöfn og kennitölur.
Eftir hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001 tóku ný lög gildi þar í landi. Það eru föðurlandsvinalögin svokölluðu (e. Patriot Act) sem gáfu hinum ýmsu deildum innan Bandaríska stjórnkerfisins, m.a. FBI, CIA og Homeland Security sem var sett á laggirnar eftir árásirnar mjög frjálsar hendur við öflun upplýsinga um einstaklinga og hópa sem af einhverjum ástæðum töldust ógn við ríkið.
Þetta varð til þess að fyrrnefndar deildir gátu nú fylgst með, aflað upplýsinga á ýmsan hátt og krafist upplýsinga án úrskurðar dómara eins og áður þurfti.
Þessi lög áttu aðeins að gilda í fjögur ár en á forsetatíðum George W. Bush og Baracks Obama var lögunum breytt lítillega en þau framlengd að mestu í upprunalegri mynd. Lögin voru síðast til umfjöllunar innan bandaríska þingsins 2019 sem gefur til kynna hversu erfitt það kann að vera að vinda ofan af neyðarlögum. Í mörgum tilvikum kann það að reynast næsta ómögulegt.
Nú þegar er til mikið magn upplýsinga um okkur flest; stafrænar upplýsingar sem samfélagsmiðlar, símafyrirtæki, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og allrahanda eftirlitsstofnanir hafa safnað og varðveita um okkur.
Að vissu leyti er ómögulegt annað en að þessum upplýsingum sé safnað saman. Mikilvæg persónuvernd hefur falist í því að leita hefur þurft heimildar einstaklinganna sjálfra og þeirra stofnana sem geyma þær til að fá þær afhentar.
Krafan um að auðsóttara sé að nálgast slíkar upplýsingar hefur orðið hávær frá hægri væng stjórnmálanna og ný-frjálshyggjunnar.
Tilvist þéttriðins nets sem safnar stafrænum upplýsingum um einstaklinga, athafnir þeirra og ferðir, jafnvel hugsanir, hefur verið umfjöllunarefni vísindaskáldsagna um langt skeið. Í þeim heimi sem George Orwell skapaði í skáldsögunni 1984 var hvergi hægt að fela sig fyrir alsjáandi auga Stóra bróður.
Sagan, sem kom fyrst út 1949, er óneitanlega eitt besta dæmið um skáldaðan eftirlitsheim og lýsingar Orwells á tækninni sem notast var við þóttu einu sinni mjög framsæknar. Í nútímanum er raunveruleikinn kominn langt fram úr spádómum vísindaskáldsagnanna.
Það hefur gerst með tilkomu almennrar netnotkunar, mikilli notkun snjalltækja og ekki síst eftirlitsmyndavéla sem mynda þéttriðið net sem getur fylgst með hverjum þeim sem er á rölti um götur borga heimsins.
Fyrir stuttu var talið að vinnsluminni tölva dygði ekki til að vinna úr því gríðarlega gagnamagni sem safnaðist en það hefur gjörbreyst. Tölvur geta unnið hratt og örugglega úr miklu magni upplýsinga og þær verða sífellt öflugri. Það sem áður var talinn hreinn vísindaskáldskapur er núna nánast hversdagslegur raunveruleiki.
Önnur ógn við lýðræðið og lýðræðislega umræðu er sú staðreynd að fjölmiðlar sem höfðu fréttaflutning og umræðu um mál líðandi stundar í brennipunkti eiga orðið í miklum fjárhagserfiðleikum.
Það basl er að miklum hluta komið til vegna þess að netrisarnir soga til sín megnið af því auglýsingafé sem áður rann til blaða, sjónvarps- og útvarpsstöðva. Annað atriði sem má líka velta fyrir sér er að fjölmiðlar sem hafa verið háðir auglýsingafé hafa orðið fyrir því að sterkir auglýsendur hafa hótað að að hætta að auglýsa vegna óþægilegrar umræðu. Þetta hefur gert það að verkum að svæðisbundinn fréttaflutningur hefur dregist mikið saman.
Fjölmiðlar í almannaeigu (og almannaþágu) á borð við BBC, SVT, RÚV og fleiri hafa verið bitbein stjórnmálamanna lengi. Margir vilja leggja af ríkisstyrkta fjölmiðla en þau áform hafa mætt mikilli andstöðu.
BBC hefur staðið af sér hvassa storma undanfarið en ekki sér fyrir endann á þeim, enda er núverandi ríkisstjórn Bretlands ekki vinveitt fyrirtækinu.
Auglýsingafé sem áður rann til einkarekinna fjölmiðlafyrirtækja er nú af skornum skammti og því er krafan sú að ríkisreknu fyrirtækin víki í það minnsta af auglýsingamarkaði.
Enn hefur ekki tekist að finna hagstætt módel til að leysa þennan fjárhagsvanda og á meðan dregst umfjöllun og umræða um það sem er að gerast í nærumhverfi okkar saman og almenn lýðræðisvitund er í hættu.
Ef við göngum út frá hugmyndum Lockes, Montesquieus og Rousseau um skynsamlegt, þrískipt ríkisvald sem sér um að hafa reglu á samfélaginu, má greina einhvers konar afl sem hefur almannaheill í þess orðs víðustu merkingu að leiðarljósi.
Enda er það svo í nútímalýðræðisríkjum að til hefur orðið kerfi stofnana sem settar hafa verið á fót til að tryggja heill almennings, og samtímis jafnvel til að framfylgja almannaviljanum.
Auðvitað þarf að vernda almenning fyrir glæpum og hryðjuverkaárásum. Verjast þarf utanaðkomandi óvinum, hefta þarf útbreiðslu farsótta og fleira má telja til en er réttlætanlegt að það sé gert án þess að eftirlitsstofnanir og dómskerfi séu höfð með í ráðum?
Jafnramt stöndum við frammi fyrir þeim raunveruleika í upplýsingaflæði nútímans að almenningur hefur í einhverjum mæli misst ástríðuna fyrir lýðræðislegri umræðu. Eftir efnahagshrunið blossaði áhuginn upp og fjölmargir hófu að berjast fyrir lýðréttindum og jafnvel einhvers konar siðbót í stjórnmálum.
Eftir að efnahagskerfi veraldarinnar réttu úr kútnum og allt tók að rölta sinn vanagang dró úr eldmóðnum og áhuganum.
Nú á tímum veirunnar situr fólk eitt eða með nærfjölskyldunni og er hreinlega bannað að hafa bein samskipti við annað fólk. Samkomur af öllu tagi hafa verið blásnar af og hópasöfnun er ekki leyfð. Samkomustaðir eins og kaffihús eða öldurhús hafa skellt í lás og þannig hefur mannlegt samneyti verið tekið úr sambandi.
Samskipti á þessum fordæmalausu tímum fara nær einvörðungu fram á samfélagsmiðlum, með samskiptaforritum eða í gegnum síma. Langtímaafleiðingar þess eru enn óljósar.
Er það sjálfsagt að hægt sé án nokkurra vandkvæða að afla sér upplýsinga um einstaklinga, einstaklinga sem erum ég og þú? Hvernig munu þessar upplýsingar verða notaðar í framtíðinni?
Verður fyrirtækjum í verslun og þjónustu gefinn óheftur aðgangur að persónulegum upplýsingum? Þetta eru allt spurningar sem við verðum að svara innan skamms vegna þess að vega verður og meta hversu dýrmætt persónufrelsið er. Á sömu vogarskálar þarf að setja stærstu spurninguna um hvort að nokkurn tíma sé réttlætanlegt að taka lýðræðið úr sambandi.
Með tilkomu COVID-19 faraldursins er allur heimurinn í mjög annarlegu ástandi og líkur eru á að þetta ástand vari lengur en okkur grunar. Efnahagskerfi heimsins stendur á brauðfótum og gera má ráð fyrir að ef ekki næst að hemja farsóttina innan skamms verði ókyrrð í heiminum.
Enn hefur ekki frést af því að veiran hafi stungið sér niður í fátækrahverfum eða ríkjum sem eru langt í frá að vera undir það búin að hefta útbreiðslu hennar. Þegar það gerist mun mikil skelfing grípa um sig og hver veit hvað mun gerast í framhaldinu?
Heimurinn stendur á krossgötum í dag og þó að fókusinn sé allur á það að kveða niður þá ógn sem farsóttin COVID-19 svo sannarlega er þá verðum við líka að gæta þess að tapa ekki margvíslegum réttindum okkar sem barist hefur verið fyrir í gegnum aldirnar vegna tímabundinna vandamála.