Umhyggjuhagkerfið og arðrán ástarkraftsins

Berglind Rós Magnúsdóttir veltir fyrir sér ástarkrafti og samstöðu á tímum heimsfaraldurs. Hún segir að árangur samfélaga byggi ekki síst á óeigingjarnri umhyggju- og tilfinningavinnu sem oft sé ósýnleg öðrum en þeim sem njóta góðs af.

Auglýsing

Við lifum á for­dæma­lausum tímum veiru­far­ald­urs og þá er ýmis­legt sett fram á sam­fé­lags­miðl­um, meðal ann­ars jákvæðar áskor­anir til að stytta stund­ir, peppa, gefa von, slá á nei­kvæðni, drepa tím­ann. Ein af þessum áskor­unum felst í að efla kvenna­sam­stöðu með því að setja mynd af sjálfri sér og tagga 50 aðrar kon­ur. Status­inn er eft­ir­far­andi:

Of oft finnst konum auð­veld­ara að gagn­rýna hvor aðra í stað þess að byggja hvor aðra upp. Með alla nei­kvæðni þarna úti, gerum eitt­hvað jákvætt! Hlaða upp 1 mynd af sjálfri þér ... Bara þú!!!! Merktu svo margar fal­legar konur til að gera það sama. (FB leyfir bara 50) Við munum byggja okkur sjálf, í stað þess að rífa okkur í sund­ur.

Mér fannst þetta fag­urt og skemmti­legt, þótt það pirraði mig eilítið að gjörn­ing­ur­inn væri hugs­aður til að stemma stigu við nei­kvæðni kvenna í garð ann­arra kvenna, því í raun er ég þessu ósam­mála. Helstu bak­hjarlar í mínu lífi hafa verið og eru kon­ur. Fleiri höfðu aug­ljós­lega velt þessu fyrir sér. Hanna Björg Vil­hjálms­dóttir varp­aði fram gagn­rýni á Face­book og tekur kven­rétt­inda­bar­átt­una sem dæmi um breiða sam­stöðu kvenna. Þar reyndi aldeilis á sam­stöðu, bið­lund, þol­in­mæði og þraut­seigju. Hún bendir á að sumar hafi jafn­vel fórnað lífi sínu fyrir aukin rétt­indi kvenna. 

Þegar ég hugsa til baka hef ég verið svo heppin að tengj­ast sterkum böndum fjölda „mæðra“ og vin­kvenna sem hafa stutt mig og mína með óeig­in­gjarnri umhyggju- og til­finn­inga­vinnu. Sam­staða og umhyggja getur einmitt byggst á því að setja egóið sitt aðeins til hliðar og gefa af sér til ann­arra án þess að það verði nokkurn tím­ann mögu­leiki að setja það á fer­il­skrána sína eða að það sé nokkur trygg­ing fyrir því að sá sem þiggur sýni nokkurn tíma þakk­læti. Ég verð að játa að ég hef sjálf ekk­ert alltaf verið þess umkomin að sýna nægi­legt þakk­læti. Þær konur sem ég er með í huga hafa ekki ein­ungis verið svona gef­andi gagn­vart mér heldur fjölda ann­arra, þær eru ósparar á ást­ar­kraft sinn til ann­arra, stundum jafn­vel einum of – heilsu þeirra vegna. Á tímum veiru­ham­fara kemur einmitt svo skýrt í ljós að þessar konur mynda skugga­hag­kerfi sem heldur uppi sam­fé­lög­um, eins og t.d. bak­varða­sveit­irnar á tímum COVID-19 sem passa að eldra fólk heyri örugg­lega í ein­hverj­um. Þetta kvenna­á­tak á Face­book var gott að því leyti að það fékk mig til að hugsa og mig langar að deila með ykkur þönkum mín­um, þ.e. með því að skoða nánar hug­tökin ást­ar­kraft, arð­rán og umhyggju­hag­kerf­i. 

Auglýsing

Ást­ar­kraftur og arð­rán

Anna Guð­rún Jón­as­dóttir stjórn­mála­fræð­ingur þró­aði hug­takið ást­ar­kraft (love power) og vísar þar í eins konar til­finn­inga­auð­magn sem við búum yfir. Eins og með önnur eft­ir­sókn­ar­verð gæði hefur fólk mis­mikið af þeim og getur ást­ar­kraft­ur­inn orðið arðráni að bráð. Sá sem hefur meiri völd er í aðstöðu til að kúga hinn sem hall­ari fæti stend­ur. Í kap­ít­al­ísku sam­fé­lagi er efna­hags­legt varn­ar­leysi ávísun á að hægt sé að þvinga fólk til að vinna fyrir ósann­gjarnt fjár­fram­lag sem hinn efna­meiri getur svo nýtt sér í eigin þágu. Anna Guð­rún heim­færir þetta á ójöfnuð í ást­ar­sam­böndum og bendir á að í kynj­uðu sam­fé­lagi séu konur oftar í und­ir­skip­aðri stöðu efna­hags­lega og tákn­rænt. Í gegnum upp­eldi sitt er þeim frekar kennt en drengjum að laga sig að öðrum og þjóna, gleðja og veita. Þær eru því í meiri hættu á að verða arð­rændar ást­ar­krafti sín­um. Öll sam­bönd eru á ein­hvern hátt valdabar­átta, líka góð sam­bönd, sem þrátt fyrir valda­bar­áttu og ein­hvern ójöfn­uð, gefa báðum aðilum ein­hvers konar ást­ar­kraft; full­nægju, vellíðan og mögnun (ekki örmögn­un). Konur sem búa með ást­ar­arð­ræn­ingjum hafa oft ekki mik­inn ást­ar­kraft aflögu, hvorki fyrir sjálfar sig né aðra. Þess vegna má segja að áður­nefnda kvenna­átakið á Face­book beini athygli kvenna að því að gleyma ekki styrknum í kvenna­sam­stöð­unni sem getur m.a. hjálpað konum að kom­ast út úr slíkum sam­bönd­um.

Þjálfun fyrir umhyggju­vinnu

Rann­sóknir sýna að konur halda uppi nánum til­finn­inga- og tengsla­netum í rík­ara mæli en karl­ar. Þótt þeir hafi orðið virk­ari þátt­tak­endur í upp­eldi barna sinna á síð­ustu árum er ábyrgð mæðra enn meiri en feðra. Í íhalds­söm­ustu sam­bönd­unum halda þær ekki ein­ungis utan um tengslin við eigin ætt­ingja og vini heldur einnig tengda­for­eldra og fjöl­skyldu „fyr­ir“ eig­in­mann­inn, vina­tengsl barn­anna, og tengsl við kenn­ara og aðra sér­fræð­inga sem koma að upp­eld­inu. Karlar sem hafa notið góðs af slíkum ást­ar­krafti átta sig margir ekki á þess­ari til­finn­inga­vinnu sem þeir hafa notið góðs af fyrr en þeir skilja eða konan fellur frá. 

Sam­fé­lagið ætl­ast til meiri til­finn­inga- og umhyggju­vinnu af hendi kvenna en karla, óháð stöðu. Það gerir það að verkum að þær eru með sterkara nánd­ar­net, eiga í meiri sam­skipt­um, og eru síður einar eða ein­angr­að­ar. Á móti kemur að þær eru lík­legri til að ganga svo kyrfi­lega á ást­ar­krafta sína að þær eiga lítið eftir handa sjálfum sér. Þetta á sér­stak­lega við um konur sem eru einnig að nota ást­ar­kraft­inn í laun­uðu vinn­unni sinni og  sinna kennslu-, upp­eld­is-, heil­brigð­is- og umönn­un­ar­störf­um. Þrátt fyrir að karlar sinni einnig þessum störfum þá er það sjald­gæfara og þeir fá þá gjarnan sér­staka athygli og aðdáun fyr­ir, á meðan þetta er afgreitt sem eðl­is­lægur eig­in­leiki hjá kon­um. Konur sem leggja áherslu á eigin frama eru oft álitnar sjálfselskar en slíkt væri seint sagt um frama­gjarna karla. Konur fá snemma þjálfun fyrir umhyggju­vinn­una, til dæmis í gegnum leiki á barns­aldri, barnapössun frá unga aldri eða umhyggju­störf á vinnu­mark­aði strax á ung­lings­aldri. Því er ekki að undra að náms- og starfs­val kynj­anna taki mið af þessum kynj­aða veru­leika þar sem konur virð­ast hafa meira náms­val og velja sig bæði inn í kven­læga og karllæga geira en í huga ungra karla virð­ist umhyggju- og upp­eld­is­geir­inn ekki vera full­gildur mögu­leiki. Afleið­ingin er að konur sinna þess­ari vinnu í rík­ari mæli bæði í einka­líf­inu og á opin­berum vett­vangi.

Umhyggju­hag­kerfið

Hlut­verk kvenna verður því að halda uppi umhyggju­hag­kerf­inu. Við sjáum þetta á fyr­ir­lestrum í háskól­anum um mál­efni eins og  fátækt, umhverf­is­vá, mis­rétti, kynja­jafn­rétti, fötlun og flótta- og inn­flytj­enda­mál. Þá er sal­ur­inn fullur af konum sem hafa tekið mál­efnið á sínar herð­ar. En ef fyr­ir­lestrar eru um efna­hags­mál eða atvinnu­mál með lyk­il­orðin hag­vöxt og sam­keppni, þá eru sal­irnir dekk­aðir körlum; alp­hakörlum – sem nú eru í mestri lífs­hættu eins og Kári Stef­áns­son benti á í við­tali á RÚV á dög­un­um. Þeir þurfa nú mest á umhyggju­hag­kerf­inu að halda.

Þeir sem hafa valdið hafa því lengst af van­ist því að njóta allrar þess­arar umhyggju- og til­finn­inga­vinnu og nýtt efna­hags­leg og stjórn­mála­leg yfir­ráð sín í heim­inum til að kom­ast hjá því að skil­greina hana sem verð­mæti. Ýmsir hafa bent á að það sé samt hið ósýni­lega umhyggju­hag­kerfi  sem haldi sam­fé­lögum uppi. Við sjáum þetta vel á þessum tímum þar sem það lítur út fyrir að þær þjóðir sem eru ríkar af tengsl­um, nánd, ást og umhyggju, sam­kennd og virð­ingu, sterkum vel­ferð­ar­kerfum fyrir almenn­ing, og ekki síst jöfnum rétti kvenna og karla, verði þær sem munu koma hvað best út úr þessum far­aldri – án þess að gefa afslátt af lýð­ræð­is­legum stjórn­ar­hátt­um. Við þurfum hins vegar að jafna þessa vinnu milli fjöl­skyldu­með­lima, kynja og stétta og meta hana að verð­leik­um. 

Við þurfum að huga sér­stak­lega að þeim sem eru að verða uppi­skroppa með ást­ar­kraft­inn sinn; vegna for­dæma­lauss álags á umhyggju­hag­kerfið um skemmri eða lengri tíma. Peppið á tímum COVID-19 ætti e.t.v. að vera í formi skila­boða um að passa upp á ást­ar­kraft­inn sinn, ver­andi að reyna að sinna öllu og öllum inn á heim­il­inu. Þetta á sér­stak­lega við um þau sem hafa ekki upp­lifað að fram­lag þeirra sé nægi­lega met­ið, hvorki heima né á vinnu­mark­aði. Í ein­hverjum til­fellum erum við að tala um fólk sem hefur sinnt ósýni­legri umhyggju- og til­finn­inga­vinnu í rík­ari mæli en það sjálft getur bor­ið. Konur eru þar í miklum meiri­hluta en þar eru einnig karlar sem eru enn síður til­búnir til að tjá sig um það en konur vegna menn­ing­ar­bund­inna hug­mynda um karl­mennsku­hlut­verk­ið. Mat okkar á fram­lagi á þessu sviði er yfir­leitt körlum í hag því við höfum gjarnan minni vænt­ingar um tíma, umhyggju­vinnu og ást­ar­kraft frá þeim. Sem dæmi má nefna þá fá karlar sér­staka umbun í kennslu- og starfs­mati fyrir að vera umhyggju­sam­ir. Það er ein­fald­lega gert ráð fyrir því að konur séu það og ef ekki fá þær það óþvegið í umsögnum nem­enda og sjúk­linga. 

Ást­ar­kraft­ur­inn í þínu lífi? Gerum hann sýni­legan 

Raunar væri drauma­á­skor­unin mín eitt­hvað á þessa leið. Árang­ur, hvort sem það er árangur ein­stak­lings, þorps, eða þjóðar byggir ekki síst á óeig­in­gjarnri umhyggju- og til­finn­inga­vinnu. Vinnu sem oft er ósýni­leg öðrum en þeim sem nutu góðs af.

Hver hefur verið í bak­varð­ar­sveit­inni þinni? Skelltu inn mynd af þeim og merktu það fólk sem hefur veitt þér hvað mestan ást­ar­kraft í þínu lífi; æsku og upp­vexti, þegar þú varst að feta frama­braut­ina og þurftir ein­hvern til að létta undir með þér, varst að eiga börn­in, varst kljást við sjálfa(n) þig eða aðra eða ein­fald­lega þegar þú þurftir hlust­un, hlýju og athygli. Mann­eskjur sem hafa á óeig­in­gjarnan hátt gert heim­inn þinn svo miklu betri. Með alla þessa jákvæðni þarna úti, gerum ást­ar­kraft­inn sýni­leg­an. 

Höf­undur er dós­ent á mennta­vís­inda­sviði við Háskóla Íslands. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur aðsetur í Húsi verslunarinnar
Tæp tíu prósent útistandandi sjóðfélagalána LIVE í greiðsluhléi
Sjóðfélagalán í greiðsluhléi nema samtals um ellefu milljörðum króna. Til samanburðar námu útistandandi sjóðfélagalán Lífeyrissjóðs verzlunarmanna við lok árs 2019 rúmum 120 milljörðum. Ávöxtun sjóðsins á fyrstu fjórum mánuðum ársins áætluð 3,5 prósent.
Kjarninn 3. júní 2020
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Twitter tekur á rugli og Síminn sektaður
Kjarninn 3. júní 2020
Ástþór Ólafsson
Árið 1970 og upp úr
Kjarninn 3. júní 2020
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn áfram nærri kjörfylgi í nýrri könnun Gallup
Afar litlar breytingar urðu á fylgi flokka á milli mánaða, samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Sjálfstæðisflokkurinn er áfram nærri kjörfylgi sínu og stuðningur við ríkisstjórnina mælist tæp 60 prósent á meðal þeirra sem taka afstöðu.
Kjarninn 3. júní 2020
Sex sakborningar í málinu, þeirra á meðal Bernhard Esau og Sacky Shanghala fyrrverandi ráðherrar í ríkisstjórn Namibíu, verða í gæsluvarðhaldi til 28. ágúst.
Namibísk yfirvöld hafa óskað liðsinnis Interpol vegna Samherjamálsins
Sex menn sem hafa verið í haldi namibískra yfirvalda vegna rannsóknar á Samherjaskjölunum verða áfram í haldi til 28. ágúst. Rannsókn málsins hefur reynst flókin og haf namibísk yfirvöld beðið Interpol um aðstoð.
Kjarninn 3. júní 2020
Fólk hefur flykkst á markaði víðsvegar um Indland eftir að útgöngubanni var aflétt.
Smitum á Indlandi fjölgar ört
Stjórnvöld á Indlandi eru að hefjast handa við að aflétta umfangsmesta útgöngubanni sem sett var á í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Sjúkrahús í Mumbai hafa vart undan við að sinna sýktum en fellibylurinn Nisarga herjar nú á nágrenni borgarinnar.
Kjarninn 3. júní 2020
Samtök ferðaþjónustunnar telja að um 250 þúsund ferðamenn gætu komið hingað til lands það sem eftir lifir árs.
Ferðamenn greiði kostnað af skimun
Með greiðslu ferðamanna fyrir sýnatöku má stuðla að því að þeir sem sækja landið heim séu efnameiri ferðamenn sem eyði meiru og dvelji lengur, segir í greinargerð fjármálaráðuneytisins um hagræn áhrif þess að aflétta ferðatakmörkunum til Íslands.
Kjarninn 3. júní 2020
Ekkert pláss fyrir íhald í stjórnmálum næstu árin
Alvarlegt ástand er nú komið upp í íslensku efnahagslífi. Mörg hundruð milljarða króna tap í ríkisrekstri er fyrirsjáanlegt, tugir þúsunda verða án atvinnu að öllu leyti eða hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu.
Kjarninn 3. júní 2020
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar