„Að neita ánetjuðum manni um lyfið sitt er eins og að neita sykursýkissjúklingi um insúlín vegna þess að hann er feitur.“ Þessi meitluðu orð lét Dr. Steve Loyd frá sér fara. Það hefur komið fram undanfarið í fjölmiðlum að ástand misnotenda ákveðinna vímuefna sé krísukennt vegna ástandsins í heiminum þar sem lítið af efnum berast til landsins þar sem fáar eru ferðirnar landa á milli. Í tveimur nýlegum greinum í fjölmiðlum hefur verið kallað eftir breytingum á aðgengi að vímuefnum til þess viðkvæma hóps sem misnotendur eru.
Þegar verið er að fjalla um vímuefni og ánetjun eða fíkn verðum við alltaf að hafa í huga að þessi tvö fyrirbæri eru ekkert annað og meira en félagslegar og pólitískar skilgreiningar. Eins og það sé ekki nóg verðum við líka að hafa í huga að þessi fyrirbæri eru afar fljótandi og breytast auðveldlega frá einum tíma til annars. Þess vegna ætti alltaf að skoða þau með tilliti til þess þjóðfélags og þeirra tíma sem um ræðir.
Ari Matthíasson tók saman í athyglisverða tölfræði í meistararitgerð sinni í heilsuhagfræði við Háskóla Íslands. Þar kom fram að kostnaður þjóðfélagsins vegna vímuefnanotkunar sé talinn liggja á bilinu 53,1 til 85,5 milljarðar á ári ef ótímabær dauðsföll vegna neyslu eru tekin með. Kostnaður þjóðfélagsins er því gífurlegur og kannski væri ástæða til að skoða aðrar aðferðir til að takast á við vandann.
Nú er það svo að í útlöndum hafa verið gerðar tilraunir með „aðrar aðferðir“ sem hafa gefist vel og lækkað bæði kostnað í beinhörðum peningum og öðrum verðmætum, þá ekki síst þjóðfélagslegan kostnaði.
En hvað væri þá hin ákjósanlegasta lausn fyrir þennan hóp? Ég vil leggja til að eftirfarandi verði skoðað vandlega:
- Komið væri á öruggu og vöktuðu neyslurými í Reykjavík þar sem heilbrigðisstarfsfólk og annað sérþjálfað starfsfólk gæti gripið inn í ef bráðaaðstæður koma upp og bjargað mannslífum.
- Vímuefnaneytendur ættu að fá talsmann, einhvern sem hefur kynnt sér málið frá öllum hliðum og treystir sér til að nálgast skjólstæðingana af virðingu, umhyggju og án fordóma. Talsmaðurinn myndi þá standa vörð um mannréttindi þeirra sem nota vímuefni og eru með vímuvandamál.
- Talsmaðurinn ætti að koma úr hópi neytenda. Munum það alltaf, að það ætlar sér enginn að lenda á þessum stað í lífinu, það eru ástæður fyrir því. Rétt eins og með þunglyndi og aðra geðsjúkdóma. Það eru alltaf ástæður og hvernig við metum þær segir mikið um okkur.
- Varasömustu vímuefnunum eins og ópíóðum yrði ávísað til skráðra neytenda af læknum. Vímuefnin yrðu afhent á kostnaðarverði eða jafnvel ókeypis til neytenda sem yrðu flokkaðir sem sjúklingar. Þessi aðferð getur falið í sér önnur ákvæði eins og að neysla efnanna fari fram undir eftirliti hæfra einstaklinga eins og hjúkrunarfólks á ákveðnum neyslustöðum.
- Löggiltir lyfsalar sjái um eftirlitshlutverk lyfja eins og amfetamíns eða MDMA. Þeir afhenda og selja rétta lyfjaskammta einstaklingum sem vilja nota efnin. Frekari hömlur, eins og skráning neytenda í gagnagrunn Landlæknisembættisins, gætu einnig verið settar sem skilyrði.
Bara við þessar aðgerðir myndu sparast dágóðar summur þar sem neytendur þyrftu ekki að stunda afbrot eða selja sig til að fjármagna neysluna því kostnaður þeirra yrði ekki nema brot af því sem hann er nú. Að auki mundi félagslegur kostnaður hrapa og misnotendur gætu hugsanlega farið að sjá til sólar.
Höfundur er áhugamaður um sögu menningarbundnar vímuefnanotkunar.