Í þroskasálfræði er oft talað um að erfiðleikar ýti undir þróun og breytingar. Þetta eru aðstæður sem gera okkur kleift að þroskast, vaxa og styrkjast andlega og læra meira um okkur sjálf. Þannig má segja að þessir fordæmalausu tímar kórónufaraldursins færi okkur, fyrir utan harm og erfiðleika, líka möguleika til að þroskast og læra af reynslunni, sem einstaklingar, samfélag og sem heimsborgarar. Hvað lærum við í þessum aðstæðum og getur það nýst okkur í sambandi við aðra stóra og aðkallandi áskorun mannkyns, hinar yfirvofandi loftslagshamfarir? Ber okkur gæfa til þess að svara þessu kalli jarðarinnar og gera varanlegar breytingar á lifnaðarháttum okkar? Breytingar sem eru nauðsynlegar vegna loftslagshamfara og sjálfbærrar þróunar.
Hugsanlegur lærdómur
Undanfarnar vikur hafa ýmsir skrifað góðar greinar um lærdóminn sem hægt er að draga af kórónufaraldrinum m.t.t. hamfarahlýnunar. Ég tek heilshugar undir þær hugleiðingar. M.a. lærum við að við þurfum öll að leggja okkar af mörkum og standa saman, að þegar við grípum snemma til samstilltra aðgerða þá getum við mildað verstu áhrifin og að við getum brugðist hratt við ef neyðarástand skapast. Einnig er oft bent á það að núna erum við að læra hvað það þýðir að „fletja út kúrfuna“ með breyttri hegðun og athöfnum okkar.
Margt fleira er líkt með kórónufaraldrinum og loftslagsmálum. Við verðum að hlusta á vísindamenn, við getum ekki stjórnað náttúrunni, við erum hluti af henni og öll tengd og við erum öll saman í liði. Reynslan núna sýnir að við getum auðveldlega haldið fundi í gegnum netið, ferðast minna og gert margt þýðingarmikið, innihaldsríkt og skapandi saman. Þessar breytingar á hegðunarmynstri okkar hafa ekki einungis minnkað mengun og losun á gróðurhúsaloftstegundum heldur geta þær sýnt okkur hver þau lífsgildi eru sem við viljum rækta. Lífsgildi eins og ást, kærleikur, samkennd, nægjusemi og þakklæti.
Í þessu neyðarástandi kórónufaraldursins erum við einnig að átta okkur á að hvaða leyti við erum háð öðrum þjóðum, t.d. þeim sem framleiða lyf, öndunarvélar, grímur og ekki síst matinn okkar. Nauðsyn þess að skapa meira fæðuöryggi með aukinni innlendri matvælaframleiðslu er mjög augljós og ákall sem þarf að svara.
Allir þessir þættir gefa von um að við sem einstaklingar og sem samfélag munum þroskast á þessum erfiðleikum kórónufaraldursins. Að við endurmetum hvaða þarfir við virkilega höfum, hvaða lífsgildi við ætlum að rækta og hvaða lífsstíl við ætlum að lifa eru einungis lítil skref en mikilvægur grunnur að stærri mynd.
Að kafa dýpra
Er nóg að gera breytingar á eigin lífsstíl og hugsunarhætti? Hverju þurfum við að breyta og af hverju? Margir vita það innst inni að núverandi óheft kapítalískt hagkerfi okkar gengur ekki upp til lengdar þar sem óendanlegur vöxtur getur ekki rúmast á jörðinni með sínum endanlegu auðlindum. Núverandi hagkerfi hefur komið okkur langt áleiðis inn í hrun vistkerfa, loftslagshamfara, aukins ójafnaðar og óréttlætis. Samt forðast flestir að horfast í augun við þá staðreynd. Við erum of upptekin við að snúa tannhjólum velmegunar okkar hratt og örugglega, tannhjólum sem eru bara hluti af heilu tannhjólakerfi, kapítalisma. En viljum við í alvörunni að velmegun í okkar vestræna heimi náist að einhverju leyti á kostnað annarra landa, íbúa þeirra og náttúrulegra auðlinda? Tilgangurinn með alþjóðavæðingunni er m.a. að færa framleiðslu til landa þar sem hægt er að fremja nær óhindrað arðrán á mönnum, dýrum og náttúru til að hámarka hagnað, til að fóðra kapítalismann. Við höfum byggt upp heim þar sem hið ríkasta 1% fólks á jörðinni á meiri auð en hin 99% (oxfam.org). Heim þar sem fyrirtækið Amazon Inc. er fleiri hundruð milljarða virði, á meðan Amazon-skógurinn sjálfur virðist varla hafa verndargildi. Facebook og Google eru billjóna virði, en við áttum okkur ekki á virði þess sem er grundvöllur tilveru okkar, þ.e. lofts, vatns, jarðvegs, lífvera og fjölbreytileiki þeirra. Við erum nefnilega búin að gleyma að við erum hluti af náttúrunni.
Við, hin breiða vestræna milli- og yfirstétt, leyfum öllu þessu að viðgangast sem þöglir þátttakendur hnattvæðingarinnar. Við höfum byggt upp líf okkar í klóm kapítalískra hugsunarhátta, þ.e. að hámarka innkomuna. Kapítalisminn elur m.a. af sér græðgi og nærist á henni. Lífsgildi eins og kærleikur, samkennd og þakklæti dafna ekki nógu vel í kapítalíska umhverfinu. Og nægjusemi er meira að segja að ógna kapítalíska tannhjólakerfinu.
En á neyðartímum eins og núna, þegar við stígum smá skref út úr okkar „venjulega“ kerfi, þá áttum við okkur meira á mikilvægum lífsgildum. Stöldrum við núna og áttum okkur á því í hvernig samfélagi við viljum lifa. Eiga samfélögin okkar að vera tannhjól sem þurfa að stíga hratt áfram og alltaf í sömu átt, eða ættu þau að vera garðar þar sem við getum ræktað lífsgildin okkar og leyft því góða í okkar að vaxa og dafna?
Varanlegar breytingar
Hvort kemur á undan, hænan eða eggið, s.s. breytingar á okkar eigin hugsunarhætti og hegðun eða breytingar á kerfinu? Síðastliðna áratugi hafa stjórnvöld verið í aftursætinu og látið markaðskerfið og fyrirtækin stýra og skapa auð. Stjórnvöld grípa einungis inn í til að laga vandamál þegar þau koma upp. Kapítalisminn sjálfur hefur verið við stjórnvölinn lengi. En núna á tímum kórónufaraldursins hafa stjórnvöld gripið í taumana og eru aftur í stjórnsætinu. Og forgangsröðunin er frekar á þann veg að hagsmunir almennings eru settir fyrir ofan hagnað.
Til þess að hindra að kerfið taki aftur við stjórnartaumunum erum við, lýðræðisþegnarnir, mikilvægustu hlekkirnir. Þar liggur tækifærið í mínum huga – að við öll notum þetta þroskaskeið og gerum stjórnvöldum ljóst að það er enginn valkostur að fara til baka í „venjulega“ lífið. Látum heyra í okkur um að stíga þurfi skref í nýja átt með réttlæti, sjálfbæra þróun og loftslagsmál að leiðarljósi.
Ég neita að trúa því að við mannkynið getum ekki búið til nýtt og betra kerfi og veit að ýmsar spennandi útfærslur hafa nú þegar verið teiknaðar upp víðs vegar um heim. Við verðum að hugsa út fyrir rammann og komast í gegnum þetta þroskaskeið mannkyns. Næsta neyðartilfelli, loftslagshamfarirnar, bíða handan við hornið. Byrjum á róttækum breytingum núna, látum kórónuveiruna vera lokaviðvörun!
Höfundur er náttúrufræðingur og sérfræðingur í menntun til sjálfbærni.