Árið 2002 hlaut sálfræðingurinn Daniel Kahneman Nóbelsverðlaun í hagfræði fyrir rannsóknir í atferlishagfræði. Kahneman átti einnig þátt í að koma af stað rannsóknum á sviði „nudging“, sem hefur verið þýtt á íslensku sem „hnippingar” eða „góðbendingar”. Góðbendingar eru aðferð sem er notuð til að fá fólk til að taka betri ákvarðanir og breyta hegðun sinni til betri vegar af fúsum og frjálsum vilja og án þess að banna neitt. Þær ýta fólki mjúklega í rétta átt með því að stilla upp valkostum en varðveita á sama tíma valfrelsi þess. Dæmi um góðbendingar eru að stilla upp hollum millibita í augnhæð við afgreiðslukassana í staðinn fyrir sælgæti eða að hafa sýnilegar upplýsingar á umbúðum fæðu um hitaeiningar. Kosturinn við góðbendingar er að lausnirnar eru einfaldar og kosta lítið.
Mörg dæmi eru um hvernig góðbendingar hafa fengið fólk til að taka betri ákvarðanir, sjálfu sér og samfélaginu til heilla. Sem dæmi hefur löggjöfin um ætlað samþykki líffæragjafar, sem tók gildi hér á landi í byrjun 2019, leitt til aukins hlutfalls líffæragjafa. Löggjöfin gerir ráð fyrir að fólk sé skráð sjálfkrafa sem líffæragjafa. Þeir sem vilja ekki gefa líffæri sín þurfa nú að tilkynna það sérstaklega á heilsuvera.is.
Sífellt fleiri gögn eru að verða til um félagslega hegðun og athafnir. Má þar t.d. nefna greiningar á færslum fólks á samfélagsmiðlum, heilsufarsupplýsingar úr snjallúrum eða upplýsingar um vörukaup viðskiptavina. Þar með fá félagsvísindamenn greinargóð gögn í hendurnar sem gerir þeim kleift að rannsaka og finna leiðir til að hafa áhrif á ákvarðanir og hegðun fólks.
Að breyta hegðun stórra hópa
Góðbendingar nýtast vel þegar um er að ræða stakt val, eins og t.d. þegar valið stendur á milli salats eða djúpsteikts kjúklings í mötuneyti vinnustaða, eða þegar um er að ræða tiltekinn hóp, eins og t.d. háskólanemendur. Í þeim tilfellum er hægt prófa mögulegar hegðunarbreytingar með samanburðarrannsóknum. Spurningar hafa hins vegar vaknað um gagnsemi góðbendinga þegar breyta þarf hegðun stórra hópa og takast á við flókin vandamál. Í þeim tilfellum eru lausnirnar oftast margþættar og rannsóknir ekki alltaf gerlegar. Dæmi um slík viðfangsefni eru hvernig eigi að fá almenning til að borða heilsusamlegri mat.
Tekist á við offitu
Meirihluti fólks í Evrópu og Bandaríkjunum er í yfirþyngd eða með offitu, sem hefur alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar, m.a. með aukinni tíðni krabbameina, kransæðasjúkdóma, áunnar sykursýki o.fl. Þessi lýðheilsufaraldur krefst nýrrar nálgunar.
Breska nýsköpunarfyrirtækið DNA Nudge styðst við góðbendingar til að bæta matarvenjur viðskiptavina stórmarkaða. Fyrirtækið notar sérfræðiþekkingu úr DNA-prófum, heilsu- og læknisfræði, sálfræði, verkfræði og gagnavísindum. Það býður notendum að taka næringarfræðilegt erfðapróf sem veitir ítarlegar upplýsingar um efnaskipti þess. Í gegnum smáforrit fá þeir síðan sérsniðnar upplýsingar um þann mat sem hentar best erfðafræðilegum einkennum þess. Með því að skanna strikamerki matvöru með snjallsíma fá þeir samstundis upplýsingar um hvort varan henti þeim eða ekki.
Þurfum margvíslegar aðferðir
Þó af ofangreind aðferð sé háþróuð og líkleg til að hafa áhrif, verður að hafa í huga að offita er flókið samfélagslegt vandamál sem er knúið af efnahagslegum og menningarlegum væntingum, ójöfnuði, borgarhönnun, svæðisbundnum matarvenjum o.fl. Ekkert eitt smáforrit getur fært okkur alhliða lausn. Margþætt samfélagsleg vandamál þarfnast margvíslegra aðferða og lausna sem stuðla að breyttri hegðun stórra hópa fólks.
Góðbendingar geta stuðlað að hollara vali þegar kemur að heilsunni. Hér eru nokkur dæmi:
- Við kaupum meira af grænmeti og ávöxtum ef þau eru höfð fremst í búðinni.
- Við borðum meira grænmeti í mötuneytinu ef það er borið fram á undan meðlæti eða kjöti og fiski.
- Minni diskastærð minnkar matarsóun um ca. 20%.
- Þegar stiganum á neðanjarðarlestarstöð í Stokkhólmi var breytt í píanó, tóku 66% fleiri stigann.
- Minni skammtastærðir stuðla að heilbrigðara fæðuvali, hvort sem um er að ræða sykurskammtinn á kaffihúsi eða forpakkað kjöt.
- Þegar epli eru skorin niður eru fleiri sem borða þau en ef þau eru óskorin í ávaxtaskál.
Til að efla umhverfisvitund fólks eru einnig ýmsar leiðir færar, eins og t.d. að:
- breyta sorpflokkun í spennandi athöfn
- sjálfgefin stilling prentara sé þannig að prentað sé í svart-hvítu og báðum megin
- hafa orkumerki á raftækjum sem lýsa orkunotkun þeirra, t.d. frá A til G, til að auðvelda kaupendum umhverfisvæna valið
- veita notendum reglulega upplýsingar um orkunotkun sína og samanburðinn við aðra notendur, eins og t.d. nágranna
- biðja hótelgesti um að hengja handklæðið sitt upp ef þeir ætla að nota það aftur
- gera það auðveldara fyrir fólk að nota almenningssamgöngur, t.d. með snjallgreiðslum í gegnum síma
- bjóða viðskiptavinum að nota afsláttinn af hverjum bensínlítra í kolefnisjöfnun
Greinarhöfundur er framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar og með meistaragráðu í hagnýtri jákvæðri sálfræði.