Bandarískur vísindamaður, Dr. Ronald K. Siegel prófessor í Los Angeles sem eyddi rúmum aldarfjórðungi í rannsóknir á vímuefnanotkun dýra sagði; „Í öllum löndum og hjá næstum öllum dýrategundum fann ég tilfelli af, ekki bara af slysni heldur vísvitandi, vímuefnaneyslu.“
Þar sem maðurinn er dýrategund gildir nákvæmlega það sama um hann. Almenna reglan er að mikill meirihluti fólks notar vímuefni á einum tíma eða öðrum, eða um 90%. Þeir sem aldrei nota vímuefni eru undantekning, frávik. En þeir ná sér í breytt vitundarástand með öðrum aðferðum því það er manninum eðlilegt að vilja breyta vitundarástandi sínu, hvernig honum líður. Þess vegna dönsum við og hlustum á tónlist, svo augljósustu dæmin séu nefnd.
Ég held að það sé óhætt að fullyrða að það tekur enginn vímuefni, eða breytir vitundarástandi sínu, til að láta sér líða illa. Allt sem maðurinn gerir miðar að því að auka vellíðan. Það er enda rökrétt þar sem í milljónir ára hefur náttúran og lífið potað þróuninni áfram með afar einfaldri aðferð, umbun og refsingu. Það sem virkar veitir ánægju en það sem ekki gerir það getur endað í dauða.
Þannig má líklega fullyrða að allt sem maðurinn tekur sér fyrir hendur í lífinu miðar að því að veita honum ánægju. Þeir eru afar fáir mennirnir á jörðinni sem beinlínis leita að leiðindum, óþægindum og kvölum. Það stríðir einfaldlega gegn eðli mannsins, hvernig við erum úr garði gerð frá náttúrunnar hendi.
Hluti af þessari sókn í þægindi og vellíðan, er líkn frá sársauka og þar koma vímuefni sterkt inn hjá þeim sem leiðast út í misnotkun því rannsókn eftir rannsókn hefur sýnt að í yfir 90% tilfella eru misnotendur að reyna sjálfslækningu við óbærilegum sársauka í sálinni og þeir sem til þekkja, geta borið um það vitni að hann er miklu verri en líkamlegur sársauki. Líkamlegur sársauki á það frekar til að linna af sjálfum sér án sérstakra inngripa og fólki batnar. Sárin gróa en skilja kannski eftir sig ör. Sálrænn sársauki heldur oftast áfram nema með inngripi fagfólks sem oft, kannski oftast, nær betri árangri en sjálfshjálp með vímuefnum.
Af framansögðu er ljóst að við eigum að skoða, læra á og nýta okkur þennan eiginleika, að vilja víma okkur stöku sinnum, þar sem við sitjum uppi með hann og fyrsta skrefið hlýtur þá augljóslega að vera upplýst umræða. Sem óhjákvæmilega þýðir breytt umræða. Við verðum að þora að taka hana.
Við ættum að hætta að nota orðið dóp um vímuefni því meðan það er gert eru efnin bara einn flokkur og giska neikvæður. Meira að segja á orðið vímuefni ekki alltaf við því ekki valda öll efni vímu. Sum breyta vitundarástandi án þess að um beina vímu sé að ræða og það á t.d. við um LSD, töfrasveppi og efni í þeim flokki. Menn þurfa að finna og nota orð í umræðunni sem ná utan um það sem verið er að ræða. Annars er hún mark- og tilgangslaus.
Ekki væri verra að nálgast hana af auðmýkt og virðingu fyrir þeim sem í hlut eiga og gera þarf skýran mun á þeim sem eiga í vandræðum og hinum sem geta notað vímuefni án nokkurra vandræða, fyrir sjálfa sig og aðra sem er yfirgnæfandi meirihluti. Við þurfum að þekkja muninn á notkun og misnotkun og hvernig á að greina á milli þó matið geti í raun aldrei verið annað en matskennt.
Það hvernig við erum er vísindaleg staðreynd en ekki goðsögn, hindurvitni eða bábilja og því getum við ekki nálgast umræðuna frá því sjónarhorni. Við getum ekki leyft okkur tilfinningarök, staðfestingarvillu (confirmation bias) og það sem vinsælast er; „ég held“ og „mér finnst“ rökin. Munum að við erum að tala um fólk. Og fólk er ekki aðskilið náttúrunni, heldur hluti hennar. Dýrategundin Homo Sapiens er hvorki merkilegri né betri en önnur dýr þrátt fyrir flókinn heila svo hvers vegna skyldi ekki það sama gilda um okkur og aðrar dýrategundir?
Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því að staðalímyndin af vímuefnaneytenda var búin til af fjölmiðlum fyrir margt löngu og er kolröng. Það er ótrúlegt að sjá það árið 2020 að ennþá eru flest vímuefni sett undir hatt áfengis og miðað við hegðun fyllibyttunnar þegar staðreyndin er sú að ekkert vímuefni sem maðurinn notar hefur viðlíka áhrif og áfengi. Ekkert vímuefni breytir hegðun eins og áfengi, ekkert vímuefni slekkur á dómgreind eins og áfengi gerir. Svo hvaða réttlæting er fyrir því að miða neyslu annara vímuefna en áfengis við það?
Höfundur er áhugamaður um sögu menningarbundinnar vímuefnanotkunar.