Í þætti Kveiks í síðustu viku var fjallað um áhrif COVID-19 á Afríku. Þar kom fram að staðfestum smitum hafi fjölgað um 51% í vikunni þar á undan í álfunni og að dauðsföllum af völdum COVID-19 veirunnar hafi fjölgað um 60% á sama tíma. Ljóst er að ef veiran fer á það flug sem hún hefur gert í Evrópu mun það hafa skelfilegar afleiðingar fyrir álfuna þar sem heilbrigðiskerfi eru flest hver illa í stakk búin fyrir slíkan faraldur. Efnahagslegar afleiðingar eru nú þegar orðnar miklar fyrir margar þjóðir Afríku þar sem samkomu-, samgöngu-, og jafnvel útgöngubönn koma í veg fyrir möguleika fólks til að afla tekna. Stór hluti Afríkubúa lifir dag frá degi; það sem þú þénar í dag getur þú eytt í mat á morgun.
Þetta fólk hefur aldrei haft færi á að leggja fyrir og er því í mjög erfiðri stöðu í dag. Líkt og kom fram í Kveik þá er það siðferðisleg skylda þeirra þjóða sem standa betur að vígi að aðstoða fátækari lönd heimsins á tímum sem þessum; þar að auki er það okkar hagur að það fari ekki allt á versta veg í álfunni. Ýmsar stofnanir og hjálparsamtök vinna nú hörðum höndum að því að tryggja fæðuöryggi fyrir þá verst stöddu. Hægt er að leggja mörgum þeirra lið með frjálsum framlögum sem geta skipt sköpum. Samtökin CLF á Íslandi hafa nú bæst í þennan hóp og köllum við eftir þinni aðstoð.
CLF á Íslandi eru lítil félagasamtök sem voru stofnuð af Erlu Halldórsdóttur mannfræðingi árið 2001. Meginmarkmið samtakanna er að bæta hag barna og ungmenna sem koma úr erfiðum aðstæðum vegna fátæktar, foreldramissis eða annarra félagslegra aðstæðna, svo dæmi séu tekin.
Þetta gerir CLF fyrst og fremst með stuðningi við Candle Light Foundation grunn- og verkmenntaskólann í Úganda sem var einnig stofnaður af Erlu. Samtökin hafa veitt yfir 2000 stúlkum tækifæri til menntunar, tækifæri sem annars hefðu ekki verið til staðar, sem og öruggt og eflandi skólaumhverfi. Úganda hefur því miður orðið fyrir miklum neikvæðum áhrifum af COVID-19 heimsfaraldrinum.
CLF á Íslandi hefur hrundið af stað fjáröflun til að koma fjölskyldum skólabarnanna við grunn- og verkmenntaskóla CLF, sem og öðrum illa stöddum fjölskyldum í nágrenni við skólann til hjálpar með matar- og nauðsynjavörum. Gott er að hafa í huga að það sem kann að þykja lítill peningur á Íslandi getur skipt sköpum í Úganda. Þar sem CLF á Íslandi eru samtök sem eru alfarið rekin í sjálfboðavinnu þá renna öll framlög beint til verkefnisins.
Samtökin reiða sig á stuðning og góðvild Íslendinga til að ná markmiðum sínum og viljum við þess vegna leita eftir þinni aðstoð, hafir þú tök á að leggja málstaðnum lið. Matar- og nauðsynjapakkarnir munu án efa koma mörgum fjölskyldum til bjargar á þessum erfiðu tímum. Til lengri tíma getur fátækt nemenda og fjölskyldna þeirra, sem og skortur á nauðsynjum, aukið líkur á því að nemendur hætti námi og reyni frekar að vinna fyrir sér, sem er einmitt sú hringrás fátæktar sem CLF skólinn vill sporna gegn. Aðstoð við nemendur og fjölskyldur þeirra er því mikilvæg sem aldrei fyrr. Hafir þú tök á að styðja við fjölskyldur sem eiga um sárt að binda í Úganda vegna COVID-19 þá er reikningsnúmer og kennitala CLF á Íslandi hér fyrir neðan.
Öll framlög eru vel þegin en sem dæmi þá geta 2000 krónur veitt einni fjölskyldu vikuskammt af nauðsynlegustu matvælum.
Rnr. 0344-13-040733
Kt. 560404-3360
Skýring: Covid
Með fyrirfram þökkum.
Fyrir hönd CLF á Íslandi,
Kristrún Friðsemd Sveinsdóttir, formaður CLF á Íslandi, og Tómas Ingi Adolfsson, gjaldkeri CLF á Íslandi.