Þegar bönkum var bjargað einum á fætur öðrum um allan heim árin 2007-2009, þá birtist okkur óvenjuleg sjón. Yfirvöld dældu peningum í þá, en gerðu allt sem þau gátu til að hafa enga stjórn á þeim. Víða var þetta yfirlýst stefna. Þetta þýddi bara eitt: Fólkið sem klessukeyrði hagkerfið átti að vera áfram við stýri, en ríkið myndi laga bílinn (aftur og aftur) og borga bensínið.
Nú, áratug síðar, höfum við lært af reynslunni, en greinilega mismunandi lexíur. Ríkisstjórnin okkar hefur lært að þetta hafi verið mjög snjallt. Gefum fyrirtækjum peninga, og leyfum þeim að ákveða hvernig þeir eru notaðir. Bankarnir mega lána með ríkisábyrgð, fyrirtækin mega segja upp fólki með ríkisstyrk. Ríkisendurskoðandi sagði um bankaábyrgðina að þar „sé í reynd verið að fela einkaaðilum að fara með tiltekið opinbert vald“. Ef peningar eru völd, þá mætti gera þetta að slagorði núverandi björgunaraðgerða.
Það hefði mátt draga annan lærdóm. Ef fyrirtæki þurfa á ríkishjálp að halda, þá ætti stjórnun fyrirtækisins að sæta einhverjum skilyrðum.
Hluthafarétturinn þyrfti ekki að vera allur á forræði fjármálaráðherra. Starfsfólk gæti farið með eitthvað af stjórnuninni sjálft, til dæmis hvað snertir innri mál fyrirtækisins. Þetta væri til mikilla bóta í ferðaþjónustu-, hótel- og veitingageiranum, þar sem óvenju mörg kjarasamningsbrot eiga sér stað – helmingur tilfella launaþjófnaðar er rekjanlegur þangað, samkvæmt nýlegri rannsókn ASÍ.
Brotin gegn starfsfólki fela ekki bara í sér launaþjófnað. Eitt hótel braut persónuverndarlög með því að hengja upp í starfsmannarými lista yfir þá sem tóku flesta veikindadaga í fyrra. Trúnaðarmenn á veitinagstöðum og hótelum eru áreittir og jafnvel reknir til að refsa þeim. Starfsfólk í þessum geira er ungt, og mörg þeirra koma erlendis frá. Þetta notfæra yfirmenn sér.
Þessi geiri þarf hjálp, en hann þarf líka að haga sér betur þegar hann fer af stað á ný.
Yfirvöld fá nú líka annað tækifæri til að búa í haginn fyrir uppsveiflu í túrisma, með því að tryggja að verkafólk hafi löglegt og ódýrt húsnæði að búa í. Mikið hefur verið smíðað af íbúðum síðustu ár, og heimagisting fyrir ferðamenn hefur svo gott sem stoppað, svo einhver slaki er kominn á húsnæðismarkaðinn. En nýju íbúðirnar eru margar of dýrar, og þegar byggingarvinna fer af stað næstu tvö ár og ferðamenn byrja að koma aftur gæti þrengt að á ný. Erlenda verkafólkið sem smíðaði innviði ferðaþjónustunnar þurfti síðustu ár að búa þúsundum saman í ólöglegu húsnæði, jafnvel í gámum og geymslum. Það má ekki gerast aftur.
Sú braut sem við beygjum inn á núna, vörðuð með opinberum björgunaraðgerðum, gæti stýrt vegferð landsins til margra ára. Aðgát er nauðsynleg, og hún felst í að læra af reynslunni.