Öryggisráðgjafi Richards Nixons Bandaríkjaforseta, John Erlichman, sagði í viðtali vegna bókar Dan Baum, Smoke and Mirrors, árið 1994: „1968 átti Nixon tvo óvini, vinstrisinnaða róttæka hernaðarandstæðinga og litaða. Skilurðu hvað ég er að segja? Við vissum að við gátum ekki gert það ólöglegt að vera á móti stríðinu eða vera svartur en með því að tengja hippa við marijúana og svarta við heróín og herða refsingar gátum við truflað þessa hópa. Við gátum handtekið leiðtogana, rústað híbýlum þeirra og hleypt upp fundum þeirra og atað þá auri kvöld eftir kvöld í fréttunum. Vissum við að við vorum að ljúga um vímuefnin? Auðvitað vissum við það.“
Svo Richard Nixon lýsti því formlega yfir að fíknistríðið væri hafið þann 17. júní 1971. Árinu áður en Bandaríkjamenn voru með þá áætlun að lögleiða kannabis. En Nixon var í vanda heima fyrir vegna Viet Nam stríðsins og mikil ólga og mótmæli í landinu. Svo Nixon þurfti að lækka rostann í lituðum, hippum og róttæklingum. Hvað var þá hentugra en að fara í stríð gegn þessum hópum og beita „dópinu“ fyrir vagninn? Hann vissi sem var að hann gat ekki lýst yfir stríði við þessa hópa. En hann gat lýst yfir stríði við vímugjafann sem vinsælastur var meðal þeirra. Sem John Erlichman játaði svo. Forsendur stríðsins gegn vímuefnunum voru bull og skáldskapur.
En fíknistríðið hefur líka kostað miklar mannfórnir. Svo miklar að UNODC (United Nation Office on Drugs and Crimes) hefur áætlað mannfallið um milljón manns á ári. Þá er ekki talið með mannfallið t.d. í Mexíkó þar sem glæpagengin halda landinu nánast í gíslingu með hrottalegu ofbeldi. Allur þessi kostnaður og allt þetta mannfall til að koma í veg fyrir neyslu um 10% af þeim vímuefnum sem notuð eru því það er ekki meira sem þessar aðgerðir skila að því talið er. Ég reikna með að fleirum en mér blöskri slík endaleysa.
En við skulum fara 4000 ár aftur í tímann því frá þeim tíma má finna fyrsta skjalfesta bannið en á papírusskjali frá Egyptalandi skrifar þarlendur prestur nemanda sínum: „Ég, yður æðri, banna yður að fara á ölstofu. Þér breytist í skepnu.“ Það er þó einn sláandi munur á þessu fyrsta banni og fíknistríðinu. Presturinn bannaði einum manni að detta í það en ekki allri þjóðinni, hvað þá heldur öllum heiminum. En það er nákvæmlega það sem Bandaríkjamenn hafa til málanna að leggja. Að banna öllum heiminum að víma sig með öðrum efnum en þeim eru þóknanleg.
En um hvað snýst svona galið fyrirbæri eins og að fara í stríð við vímuefni? Það snýst meðal annars um að fólk geti ekki leitað sér líknar án aðkomu lækna eða stóru lyfjafyrirtækjanna.
Það snýst um að fólk leiti sér ekki ánægjuauka með efnafræðilegri hjálp nema með áfengi, kaffi og tóbaki.
Og ekki síst snýst það um að stjórnvöld geti notað það til að jaðarsetja og berja á ákveðnum þjóðfélagshópum sem eru stjórnvöldum lítt þóknanlegir eins og til dæmis ungt fólk eða róttækt.
Það snýst um að gera þjóðfélagsþegna að afbrotamönnum að versla við afbrotamenn og það er mikill sannleikur í því sem fyrrum hæstaréttardómari í Kaliforníu James P. Grey segir í bók sinni A Judicial Indictment of the War on Drugs, „Mesti félagslegi skaðinn vegna vímuefna er ekki vegna áhrifa efnanna sjálfra, heldur vegna banns að lögum við notkun þeirra.“
Fíknistríðið snýst líka um peninga og völd. Bannsinnar eru vegna hinna „hræðilegu og hættulegu eiturlyfja“ og baráttunnar gegn þeim, flestir búnir að koma sér vel fyrir með lúkurnar í fjárhirslum ríkja.
Það snýst um pólitísk völd og viðhald þeirra af mönnum eins og Duterte forseta Filippseyja sem borgar fyrir hvern drepinn neytanda.
Peningarnir eru ævintýralegir og það er talið að velta vímuefnamarkaðarins í heiminum nú sé meiri en samanlögð velta hveitis, korns og sykurs þannig að eftir töluverðu er að slægjast.
En hvað kostar núverandi skipan mála hér á landi? Á vef Fangelsismálastofnunar, fangelsi.is, kemur fram að langflest afbrot séu framin í tengslum við vímuefni, áfengi þar á meðal og kannski aðallega. Seðlabankinn áætlaði fyrir nokkrum árum að velta ólöglegrar starfsemi á borð við fíkniefnasölu, smygl, vændi og heimabrugg sé um 6,6 milljarðar króna árlega. Þetta fé kemur frá skattborgurum, bæði sem neytendum og sem skattborgurum til reksturs stríðsins, löggæsla, tollgæsla, heilbrigðiskerfi, dómskerfi.
Kostnaður á hvern fanga hér er kr. 19.000 á dag og fram hefur komið að þriðjungur þeirra situr inni vegna fíkniefnabrota eða um 50 manns á ári. Árlega er þá kostnaður í kringum 50 sinnum 19.000 sem gerir þá tæpa milljón á dag eða um 347 milljónir tæpar á ári. Þá er ekki talinn með kostnaður dómskerfis og lögreglu sem líklega má áætla að sé annað eins því dómarar eru ekki á neinum lúsalaunum. Þetta gerir um 700 milljónir á ári bara vegna fíkniefnabrota. Þá er líklegt að nokkrir fangar sitji inni vegna ofbeldis- eða auðgunarbrota vegna neyslu.
Árlegur kostnaður skattgreiðenda vegna vímuefnaneyslu, þ.m.t. áfengi, er þá sennilega á bilinu 46,4 til 49 milljarðar króna Inni í þeirri tölu er ekki kostnaður vegna ótímabærra dauðsfalla, bæði vegna vímuefnatengdra sjúkdóma og slysa. Ef hann er talinn með liggur kostnaður þjóðarinnar á bilinu 53,1 til 85.5 milljarðar. Þetta má finna í vandaðri meistararitgerð Ara Matthíassonar í heilsuhagfræði við HÍ.
Það er nokkuð sama hvaðan maður horfir á málin, Á fíknistríðinu tapa allir, hver og einn einasti þjóðfélagsþegn – nema dópsalarnir.
Þeir verða bara ríkari og ríkari svo lengi sem lagaumhverfið réttir þeim bæði vopn og fé. Svart fé.
Þetta er fyrri grein af tveimur. Höfundur er áhugamaður um sögu menningarbundnar vímuefnanotkunar.