Blaðamannafundir Almannavarna hafa verið til algerar fyrirmyndir og spilað stóra rullu í þeim góða árangri sem Ísland hefur náð í baráttunni við veiruna frægu. En veiran er því miður ekki eina vandamálið í heimi manna og áhugavert væri ef önnur viðfangsefni væru tækluð með svipuðum hætti. Svona gæti blaðamannafundur vegna ósjálfbærrar olíunotkunar í samgöngum litið út:
Verið velkomin á mánaðarlegan fund samgöngumála.
Byrjum á tölum mánaðarins. Í aprílmánuði voru skráðir 148 nýir bensín- og dísilbílar á göturnar en þetta er mikil fækkun miðað við marsmánuð þar sem 343 bensín- og dísilbílar voru skráðir. Þó að hægt hafi á þessari fjölgun eru enn um 220 þúsund virkir bensín- og dísilbílar í kerfinu og nær útbreiðslan um allt land. Það er því mikið olíusmit í gangi en vísbendingar eru um að olíufaraldurinn hafi þó náð hámarki í samfélaginu. Góðu fréttirnar eru að nú fjölgar í hópi hreinorkubíla og fyrstu fjóra mánuði þessa árs hefur meirihluti nýskráðra fólksbíla verið rafbílar. Þó að rafbílum fjölgi er enn allt of langt í hjarðónæmi gagnvart olíu í samgöngum, en slíkt ónæmi er algerlega nauðsynlegt til mæta skuldbindingum okkar í lofslagsmálum.
Samgöngubannið hefur virkað vel og dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda, minnkað heilsuspillandi mengun og fækkað alvarlegum umferðarslysum. Það þarf því að fara mjög varlega í að aflétta samgöngubanninu svo við lendum ekki í bakslagi varðandi mengun og slysatíðni.
Hvort eða hvenær takmörkunum á ferðafrelsi eldri bensín- og díselbíla verður aflétt, byggist algerlega á því hvernig gengur að ná hjarðónæmi gagnvart olíu með breyttum ferðavenjum og fjölgun hreinorkubifreiða. Við getum ekki leyft okkur að fórna almannahagsmunum eins og hreinu andrúmslofti, alþjóðlegum skuldbindingum í loftslagsmálum og umferðaröryggi fyrir fyrir sérhagsmuni.
Fundi slitið.
Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.