Næsti áfangi í baráttunni við afleiðingar heimsfaraldursins verður æði strembinn. Það er þó nauðsynlegt að líta upp og lengra fram og sjá hvort í stöðunni geti leynst ný von um betri tíð, grænt ljós skíni skært í gegnum kófið.
Eldurinn hefur verið slökktur en reykjarkóf og rústir blasa við. Mesta atvinnuleysi í sögu þjóðarinnar, stærsta atvinnugreinin á brún hengiflugsins, afkoma fjölmargra heimila í hættu. Heimsmarkaðurinn í dýpsta vanda í 90 ár. Hamfarahlýnun handan við hornið. Þá er auðvelt að verða svartsýnn.
En bölmóður er slappur drifkraftur og ef rétt er á haldið getur græna leiðin lagt af mörkum til að forða næstu vá og skapað Íslendingum áður óþekkt tækifæri til atvinnusköpunar og grænnar framtíðar.
Nú þarf frumkvæði, að marka völlinn og setja reglur. Sækja fram. Ef gulrætur virka ekki, þarf að finna prik. Stjórnmálafólk verður að taka utan um verkefnið og leiða þjóðina áfram. Þá þurfa fyrirtæki og fjárfestar að grípa færin sem opnast fyrir þeim. Ætli okkur að takast að mæta loftslagsvánni og sigrast á henni, er ekki hægt að bíða lengur.
Hér eru 10 aðgerðir sem forma grænu leiðina út úr kófinu:
1. Grænir björgunarpakkar
Fyrir framtíðaruppbygginguna þarf ríkið að koma enn sterkar að borðinu en hingað til. Tengja ætti skammtímaaðgerðir og útgjöld úr sameiginlegum sjóðum við langtímamarkmið um græna framtíð og aðgerðir í umhverfismálum. Þetta er meginstef í evrópskri umræðu en skortir á að birtist með skýrum hætti í raunverulegum aðgerðum stjórnvalda hér.
2. Grænt langtímaplan (Green New Deal)
Ná samstöðu um Grænt plan í efnahagsmálum til 2030. Í því sé tekist á við loftslagsvána og lagðar línur fyrir sjálfbæran efnahagsvöxt með fjárfestingu í því sem bætir umhverfið og skapar ný tækifæri í grænni atvinnustarfsemi. Í grænu langtímaplani er sérstaklega unnið að því að styðja við græna nýsköpun sem þarf að byggja á vel ígrunduðu og ærlegu mati um samkeppnishæfni og samkeppnisstöðu íslenskrar nýsköpunar.
3. Sjálfbær ferðaþjónusta
Ferðaþjónusta verður aftur lykilatvinnugrein á Íslandi en endurbygging greinarinnar verður að verða á sjálfbærari grunni en áður. Ísland féll á síðasta ári niður í 30. sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins um samkeppnishæfni ferðaþjónustu og skorar ekki nógu hátt í mælikvörðum um sjálfbærni. Hér er lagt til að bankar kanni rækilega forsendur þess að gefa út græn skuldabréf til að fjármagna aðgerðir til að byggja upp sjálfbæra ferðaþjónustu. Það yrði góður fjárfestingarkostur fyrir innlenda fjárfesta og mögulegt er að útfæra leiðir þannig að alþjóðlegt fjármagn verði virkjað fyrir innlenda uppbyggingu.
Góð fyrirtæki sem glíma við lausafjárskort en hafa skýrar framtíðaráætlanir um grænan vöxt ættu að njóta góðs af þessu og útgáfa af þessu tagi ætti að geta aukið aðdráttarafl landsins verulega þegar ábyrgir ferðamenn leita að nýjum stöðum til að sækja heim.
4. Hraðari orkuskipti
Útblástur frá vegasamgöngum er fimmtungur af allri losun á Íslandi með tilheyrandi mengun og öndunarfærasjúkdómum. Loftgæði síðustu vikna, minni umferð og heiðari himinn, sýnir hvernig veruleikinn getur verið, að mengunin er ekki óhjákvæmileg. Viðbrögðin við kórónaveirunni sýna líka að fólk getur þolað ýmsar takmarkanir ef markmiðið er að vernda heilsu og líf samborgaranna.
Það er því tímabært að flýta öllum markmiðum um orkuskipti í samgöngum og skipta bílaflotanum hraðar út en áður hafði verið áætlað. Hér þarf að gera auðveldara að eiga og reka rafbíla en hugsanlega einnig að grípa til nýrra úrræða eins og að setja takmarkanir á innflutning á olíu og mengandi farartæki. Vetni gæti verið eftirsóknarvert fyrir stærri ökutæki og skipaflotann og þess virði að ýta á þá þróun hér á landi með fremstu alþjóðlegu samstarfsaðilum. Áfram þarf að byggja stíga fyrir hjólandi og gangandi, nú þegar allir eru að hreyfa sig meir en áður. Þetta yrði atvinnuskapandi og afar arðbært til lengri tíma.
5. Kolefnishlutleysi 2030
Kórónaveiran hefur svipt marga tímaskyninu og markmið langt fram í tímann hljóma ótrúverðug og marklaus. Áður en veiran birtist, var hamfarahlýnunin búin að láta finna ærlega fyrir sér. Nú er því nauðsyn að setja metnaðarfull markmið til skemmri tíma. Ríkisstjórnin ætti því strax að uppfæra markmiðið um kolefnishlutleysi 2040 og setja sér markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en 2030. Miðað við árangurinn sem náðst hefur í baráttu við farsótt á átta vikum, verður góður möguleiki á að ná markverðum árangri á næsta áratug. Vilji er allt sem þarf!
6. Grænn iðnaður í stað útblásturs
Yfir 40% af útblæstri Íslands er frá iðnaði, mest frá málmiðnaði sem hefur aukið útblástur þrefalt frá því skrifað var undir Kyoto-bókunina.
Stjórnvöld þurfa að búa sig undir að Rio Tinto Alcan loki verksmiðjunni í Straumsvík með tilheyrandi afleiðingum fyrir starfsfólk og þá sem lifa á þjónustu við álverið. Það kallar á viðbúnað og mótvægisaðgerðir fyrir þá sem eru háðir álverinu um lífsafkomu. Þá mun gríðarlegt magn af orku verða í leit að nýjum kaupendum og risavaxið verkefni verður að nýta hana í spennandi nýsköpun.
Samkeppnishæfni íslenskrar orku verður að felast í hagstæðu verði og öruggri afhendingu, en einnig því að vinna með fyrirtækjum á mörkuðum þar sem uppruni endurnýjanlegrar orku ræður úrslitum í samkeppni og umhverfissjónarmið skipta kaupendur öllu. Hér er kominn einn af lyklunum að framtíðarstöðu Íslands og stjórnvöld verða að finna réttu leiðina fram.
7. Fjárfesting í loftslagsaðgerðum erlendis
Til að uppfylla markmið Parísarsamkomulagsins þarf að draga úr útblæstri heima fyrir, en ríki verða líka að líta út fyrir eigin landamæri. Það sem gæti skilað mestum árangri er að fjárfesta í verkefnum og aðgerðum fyrir loftslagið á þeim svæðum sem munu vaxa hraðast á næstu árum. Hér er lagt til að íslensk stjórnvöld taki frumkvæði í að setja upp fjárfestingafélag sem fjárfestir í loftslagsverkefnum í þróunarlöndum og leggi þannig beint af mörkum í aðgerðum til orkuskipta og tækniþróunar í þróunarlöndum.
Fjárfestingafélög af þessari gerð hafa verið rekin með góðum árangri í nágrannalöndunum í áratugi. Hér er nauðsynlegt að tvennt gerist í einu – verkefnin séu samstarfsverkefni með leiðandi þjóðum, fyrirtækjum og alþjóðastofnunum til að fénu verði vel varið og skili góðum árangri og góðri ávöxtun. Hins vegar þarf að vinna að því að framlög til slíkra verkefna gagnist sem viðurkennt framlag Íslands til loftslagsmála. Árangurinn af þessari aðgerð mun liggja í góðri útfærslu hennar.
8. Sókn í grænum fjárfestingum
Aldrei hefur verið meiri þörf á að virkja saman krafta opinberra aðila og einkaframtaksins til að ná árangri í loftslagsmálum. Grænar fjárfestingar eru leiðin til að tengja fjármagn og markmið en þar eru Íslendingar því miður miklir eftirbátar nágrannaríkjanna. Gríðarleg tækifæri felast í grænum fjárfestingum á næstu árum og áratugum eins og sést af því að á meðan heimurinn glímir við efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs, hafa sjóðir sem einbeita sér að grænum fjárfestingum náð markvert betri árangri en aðrir. Fyrir græna framtíð Íslands þarf að marka rammann fyrir grænar fjárfestingar, setja fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum reglur um fjárfestingar og vinna að því að búa til raunverulegan grænan fjármálamarkað hér á landi. Möguleikarnir eru óþrjótandi.
9. Græn markaðssetning á útflutningi
Til að Ísland nái sér á strik eftir heimsfaraldurinn, þarf að auka verðmæti á íslenskum útflutningi. Stefnumótun Íslandsstofu hefur dregið fram að sjálfbærni sé lykilhugtak fyrir markaðssetningu á íslenskum vörum. Villtur íslenskur þorskur, ýsa og karfi, sem veidd eru á fengsælum miðum þar sem auðlind er stýrt út frá sjálfbærnisjónarmiðum, og unnin í hátækniumhverfi þar sem hámarksnýtingu á hráefni er náð, ættu að verða enn eftirsóttari vara hjá erlendum neytendum með mikla kaupgetu. Ef græna leiðin verður farin eftir kórónaveiruna, mun það geta gagnast öllu markaðsstarfi á íslenskum vörum á alþjóðamörkuðum gríðarlega og gefið forskot í keppni um verðmæta viðskiptavini.
10. Alþjóðlegt frumkvæði
Íslensk stjórnvöld þurfa að vera ófeimin við að taka frumkvæði í alþjóðlegri umræðu um umhverfismál og aðgerðir gegn loftslagsvánni á grundvelli þessarar grænu leiðar. Þegar hafa norrænir forsætisráðherrar ákveðið að tala einni röddu á stóra sviðinu og það þarf ekki að fjölyrða um hversu hátt sá söngur getur hljómað ef allir eru með. Gangist Ísland fyrir átaki Norðurlandanna um græna leið úr kófinu, getur það opnað nýjar dyr. Það er alls staðar þorsti eftir hugmyndum og leiðum þar sem heimurinn getur fundið ráð gegn næstu vá, sem verður vegna hamfarahlýnunar.
Við höfum staðið saman gegn veirunni en til að bjartari framtíð taki við eftir efnahagsþrengingar og atvinnuþref, verða stjórnvöld að taka forystuna. Það verður líka að eiga sér stað hugarfarsbreyting meðal almennings og hjá atvinnulífinu. Allir verða að vera tilbúnir að vinna saman fyrir stærri markmið í baráttunni við næstu vá og fyrir betri heimi.
Þetta eru tíu hugmyndir um hvernig græna leiðin getur litið út. Ég er sannfærður um að hún muni geta skapað Íslandi ótal tækifæri. Það er ekki eftir neinu að bíða.
Höfundur hefur starfað í stjórnmálum og er ráðgjafi um ábyrgar fjárfestingar.