Síðustu ár hefur þróunin verið sú að Lánasjóður íslenskra námsmanna lánar minna og minna á hvern háskólanema og hefur í raun sjaldan lánað jafn lítið og árið 2018. Bendir það til þess að námsmenn hafa sjaldan treyst jafn lítið á framfærslu ríkisins og í dag, til að koma sér í gegnum háskólanám. Námslán eru einmitt það, lán sem eru greidd til baka með verðtryggingu og vöxtum.
Á sama tíma og námsmenn treysta sérlega lítið á framfærslu ríkisins með námslánum á þessum tímum, eiga þeir ekki rétt til atvinnuleysisbóta að sumri. Ef þeir komast ekki að í þau sumarstörf sem verða í boði, eða fara í sumarnám og skuldsetja sig með námslánum samhliða því, eru þeir án framfærslu þrjá mánuði ársins eins og staðan er í dag. Námsmenn njóta ekki réttar til jafns við aðra til fjárhagsaðstoðar vegna framfærslu hjá sveitarfélögum og hafa því ekki sambærilegan aðgang að því fjárhagsöryggisneti á við aðra einstaklinga.
Stúdentar án atvinnu og fjárhagsöryggis
Fjölgun atvinnuleitenda frá febrúar til mars var mest meðal yngsta aldurshópsins, 18 til 24 ára, eða 52%. Hópuppsagnir hafa svo skollið á sem aldrei fyrr og sláandi tölur um atvinnuleysi hérlendis taka ekki atvinnulausa stúdenta með, enda eiga þeir ekki rétt til atvinnuleysisbóta og geta þar af leiðandi ekki skráð sig á atvinnuleysisbótaskrá. Tæp 70% stúdenta vinna þó með námi, sbr. kannanir Eurostudent og Stúdentaráðs.
- Í Háskóla Íslands sýndi könnun í byrjun apríl fram á að 40% nemenda skólans væru án atvinnu en í atvinnuleit. Miðað við 13.000 nemendur skólans eru það 5.200 einstaklingar.
- Í Háskólanum í Reykjavík sýndi könnun um miðjan apríl fram á að 50% nemenda skólans væru án atvinnu í sumar. Miðað við 3.400 nemendur eru það 1.700 einstaklingar.
- Í Listaháskóla Íslands sýndi könnun um miðjan apríl fram á að 65% nemenda skólans væru ekki með örugga sumarvinnu. Miðað við 460 nemendur eru það 280 einstaklingar.
Meðal nýjustu útspila ríkisins á tímum COVID-19 er styrkur til fyrirtækja til að greiða laun á uppsagnarfresti. Gott og vel, þessar greiðslur myndu annars lenda á ábyrgðarsjóði launa, ef fyrirtækin standa ekki undir þeim. Hér er þó um að ræða verulega innspýtingu til að tryggja framfærslu fólks á vinnumarkaði í nokkra mánuði á sama tíma og krafa námsmanna um trygga framfærslu og fjárhagsöryggi í þrjá mánuði í sumar með atvinnuleysisbótum, hefur ekki hlotið hljómgrunn hjá stjórnvöldum.
Of dýrt, of hættulegt, of flókið
Þegar ég tala fyrir úrræðum fyrir námsmenn, s.s. atvinnuleysisbótum og niðurfellingu skrásetningagjalda er í fyrsta lagi oft sagt að þetta kosti svo mikið. Þá er ágætt að muna að námsmenn hafa skert aðgengi að allri fjárhagsaðstoð sem almennt tíðkast í þessu landi. Í öðru lagi er oft sagt að ný úrræði eða breytingar muni bjóða hættunni heim því fólk sem þarf ekki á aðstoð að halda muni eflaust nýta sér úrræðin. Það má halda því fram að hið sama eigi við þegar kemur að úrræðum sem bjóðast fyrirtækjum og þau úrræði kosta gríðarlegar fjárhæðir. Í þriðja lagi er oft sagt að lögin heimili nú ekki hitt eða þetta og kerfið bjóði í raun ekki upp á það sem stúdentar óski eftir. Allir vita þó að lögum er hægt að breyta og kerfum líka. Magn frumvarpa og lagabreytinga sem fram hafa komið og gengið í gegn með hraða undanfarnar vikur sýna í raun fram á að þegar viljinn er fyrir hendi er hægt að gera margt með stuttum fyrirvara. Þessi þrjú atriði gilda í raun um allar aðgerðir og fjárhagsstuðning sem ríkið veitir, hvort sem það nær til hagnaðardrifinna fyrirtækja eða einstaklinga sem eru að reyna að mennta sig.
Er munurinn þá ekki bara viljinn?
Til staðar er pólitískur vilji fyrir kostnaðarsamar aðgerðir sem tryggja fjárhagsöryggi og framfærslu fólks í nokkra mánuði í gegnum fyrirtæki með beinum styrkjum til þeirra og svo almennum rétti til atvinnuleysisbóta. Ég geri ekki athugasemdir við það, en sá pólitíski vilji virðist ekki vera til staðar þegar stúdentar eiga í hlut, enn sem komið er.
Höfundur er forseti Stúdentaráðs Háskóla Íslands.