Það var að byrja verkfall. Félagsmenn Eflingar sem vinna fyrir fjögur sveitarfélög hafa stöðvað alla vinnu og því mun mörgum grunn- og leikskólum í þessum sveitarfélögum nú loka þar til samningar nást og börn sem eru nýkomin aftur í skólann fara nú aftur heim. Réttur starfsfólks til þess að fara í verkfall og semja um betri kjör er ákaflega dýrmætur. Mörg af þeim lífsgæðum sem við teljum sjálfstæð í dag eins og helgarfrí, sumarfrí, fæðingarorlof og fleira eru uppskera verkfalla og verkalýðsbaráttu. Rétturinn til þess að fara í verkfall er ekki bara hagsmunamál láglaunafólks, heldur okkar allra. Þetta verkfall, eins og öll verkföll, snýst um réttindi, en það er ekki bara verkfallsrétturinn sem kemur hér við sögu. Ég er ekki fyrstur til þess að benda á að börnin sem fengu að vera heila tvo daga í skólanum eiga líka rétt til menntunar sem skerðist við þessar lokanir.
Í heimspeki réttinda er stundum talað um griðaréttindi og gæðaréttindi (á ensku er þetta oft kallað „positive and negative rights“ en þökk sé Vilhjálmi Árnasyni, heimspeking eigum við þessi frábæru orð á íslensku), en þessi nöfn vísa til þeirra skyldna sem fylgja réttindunum. Það er nefnilega þannig að alltaf þegar einhver hefur réttindi, þá verður einhver annar að hafa skyldu. Rétturinn til trúfrelsis er til dæmis griðaréttur af því að hann felur í sér að allir aðrir (og sér í lagi yfirvöld) hafi skyldu til þess að veita þér grið til þess að stunda þína trú eða trúleysi eins og þú kýst. Dæmi um gæðaréttindi er síðan rétturinn til menntunar sem við viljum tryggja börnunum okkar, því hann felur í sér skyldu til þess að útvega fólki menntun, það er að segja útvega ákveðin gæði. Þegar við tölum um réttindi er mjög mikilvægt að tilgreina nákvæmlega hver ber skyldurnar sem fylgja þeim. Ef það er ekki á hreinu er hætta á að aðilinn sem ætti að bera skylduna komist upp með að skjótast undan henni og þar af leiðandi að réttindin verði ekki uppfyllt.
Á Íslandi er réttur til menntunar tilgreindur í stjórnarskrá og í fleiri en einum mannréttindasáttmála sem Ísland á aðild að. Þessi réttur felur meðal annars í sér að börn á Íslandi hafa rétt á að ganga í grunn- og leikskóla. Að meina þeim þennan rétt er brot á stjórnarskrá lýðveldisins og viðurkenndum mannréttindum barnanna. Til þess að ganga úr skugga um að börnin fái þennan rétt sem þeim hefur verið lofað er mikilvægt að við höfum á hreinu hver ber skylduna til þess að útvega þessa menntun og hver ber hana ekki. Svarið er að það eru yfirvöld, ríkið, sveitarfélög og skólayfirvöld, sem ber að sjá til þess að öll börn á Íslandi fái að ganga í skóla. Við getum líka sagt að kennarar hafi ákveðna skyldu til þess að sinna starfi sínu af alúð, en það hefur enginn einstaklingur eiginlega skyldu til þess að starfa sem kennari og það hefur heldur enginn einstaklingur skyldu til þess að vinna við þrif í skólum, enda myndu slíkar skyldur brjóta á öðrum réttindum þessara einstaklinga. Sem sagt; skyldan liggur ekki hjá félagsmönnum Eflingar.
Þegar við tölum um að lokanir á skólum gangi á rétt barna landsins, eins og okkur ber vissulega að gera, þá er mikilvægt að við munum þetta: Skyldan til þess að binda enda á þetta verkfall liggur hjá sveitarfélögunum og eingöngu hjá sveitarfélögunum, og þeim ber að uppfylla hana með því að bjóða starfsfólki sínu ásættanleg kjör.
Höfundur er heimspekingur.