Er yfirleitt hægt að stoppa fíknistríðið? Mannleg fyrirbæri hafa löngum haft tilhneigingu til að öðlast sjálfstætt líf, annars glatast hagsmunir einhverra. Og er það í alla staði æskilegt að enda það? Það er augljóslega ekki að virka og hefur aldrei gert. Við höfum nálega hálfrar alda reynslu af því.
Mitt mat er, að ef svarið við báðum þessum spurningum er já, þá er hægt að enda fíknistríðið og ég held að einfaldasta leiðin til að hætta því og koma á skikkanlegu ástandi sé að henda lyfjatilvísanakerfinu og láta apótekin sinna sínu upprunalega hlutverki. Að selja lyf. Hætta að höndla með hárbönd, rakvélar og snyrtivörur og sinna hlutverki sala og fræðara.
Þú ferð til læknis. Hann segir þér hvað þjáir þig. Skrifar upp á lyf sem hann heldur að gagnist inn á Heilsuveru. Þú trítlar í apótek, hittir sérhæfðan starfsmann. Þið ræðið lyfjagjöfina og lyfin inni á þínu svæði á Heilsuveru og hvernig þau virka, aukaverkanir og annað. Svo ákveður þú í samráði við starfsmanninn hvaða lyf þú vilt nota. Starfsmaðurinn sendir tölvupóst um söluna á lækninn sem getur þá gripið inn í ef eitthvað er ekki í lagi.
Það mundi einfalda líf þeirra sem þurfa á lyfjum að halda, minnka álag á heilsugæslustöðvar og læknar hefðu meiri tíma til að sinna sjúklingunum í stað þess að skrifa bara lyfjaávísun á þeim tíma sem þeim er skammtaður á hvern sjúkling af rekstrarstjóra heilsugæslustöðvarinnar hvar þeir vinna. Sem mun vera samkvæmt ameríska kerfinu, 10 mínútur á hvern sjúkling.
Gerum okkur grein fyrir því að þau lyf sem læknar ávísa eru í mörgum tilfellum eingöngu hönnuð til að slá á einkennin en ekki lækna þau. Á því byggist viðskiptamódel fyrirtækjanna sem framleiða þau. Langtíma áskrift að lyfi kemur framleiðanda til góða og er ekkert öðruvísi en hjá dópsalanum á götunni. Að þessu háttalagi lyfjafyrirtækjanna hafa verið leiddar fjarska sterkar líkur í könnun eftir könnun.
Dópsalar ólöglegu vímuefnanna eru ekkert mikið ólíkir lyfsölum. Þeir flytja inn, leggja á, dreifa og selja. Rétt eins og lyfsalar í apótekum. Helsti munurinn er sá að lyfsalinn getur illa svindlað á kúnnanum, hann borgar laun og greiðir skatta. Dópsalinn aftur á móti drýgir yfirleitt hráefnið (svindlar) og stingur ágóðanum í vasann. Og það eru verulega háar fjárhæðir.
Setjum nú svo að fíknistríðinu yrði hætt, hvað á að koma í staðinn? Eitthvað verður að koma í staðinn því sagan og reynslan kennir okkur að það er aldrei hægt að skilja eftir tóm. Einhverjir verða fljótir að fylla það. Sérstaklega þegar það eru eins miklir peningar í spilinu og í vímuefnaviðskiptum. Reyndir löggæslumenn hafa sagt að við hvert höfuð sem sé höggvið af, komi ný í fleirtölu, í staðinn.
Það sem ég sé fyrir mér að kæmi í staðinn er yfirbót. Að því leyti að farið væri að umgangast neytendur, sérstaklega þá sem eru í neyslutengdum vandræðum, sem manneskjur, fólk og sjúklinga. Það væri hætt að jaðarsetja það. Talað við það og um það af virðingu og því væri hjálpað til að ná tökum á lífi sínu aftur. Allt þetta felst í einu orði og kostar lítið; skaðaminnkun.
Eins og umgjörðin og lögin eru núna eru hvatar til að efnast beinlínis innbyggðir í það, en bara fyrir dópsalann. Hvað annað er hægt að kalla það þegar fjölmenn atvinnugrein með gríðarmikla veltu veldur tjóni og óstöðugleika en þarf ekki að standa skil á sköttum sem færu í innviði þess þjóðfélags sem þeir starfa í?
Hverju mundi það breyta fyrir neytendur að hætta að berja á þeim? Jú, augljóslega minni barsmíðar, en fyrir þau 90% neytenda sem ekki eru í vímuvanda mundi það breyta tvennu. Ódýrari vímugjafi og vottuð framleiðsla, rétt eins og vínbúðirnar eru nú. Fyrir þau 10% sem út af standa myndi það öllu breyta því að þeir væru ekki eins illa settir. Hvorki fjárhagslega né félagslega.
Regluvæðing minnkaði álag á heilsugæslu, löggæslu, tollgæslu og félagsmálayfirvöld. Kostnaður refsivörslukerfisins myndi snarminnka og sparnaður yrði í dómskerfinu og minna álag. Auðgunarglæpum eins og innbrotum og svikum myndi sennilega fækka umtalsvert og öðrum smáglæpum. Þá mundi handrukkun nálega leggjast af og sennilega yrði kynlífsmansal úr sögunni að miklu leyti.
Á móti ykist kostnaður vegna meðferðar og forvarna eitthvað en kannanir af virtum fræðimönnum í félagsvísindum hafa sýnt að þær margborga sig því fólk í vímuvanda er eins og annað fólk, því öll erum við eins, og vilja stjórna sinni neyslu þannig að þeir fúnkeri í þjóðfélaginu. Misnotendur vímuefna og ég nota það orð um þá sem láta neyslu trufla daglegt líf, vilja ekkert frekar en næsti maður vera jaðarsettir og lifa tilgangslausu lífi. Þá er líklegt að HIV og lifrarbólgu C smit minnki, með minna álagi og minni kostnaði fyrir heilbrigðiskerfið.
Eitt enn mundi gerast því rannsóknir sem gerðar hafa verið erlendis sýna að félagsleg einangrun og einmanaleiki hafa sitt að segja af hverju fólk fer að reiða sig á ákveðna vímugjafa og misnota til að komast gegnum lífið. Ef farið væri að koma fram við fólk, þar á meðal misnotendur, eins og manneskjur mundi hvort tveggja minnka.
Hér er ég ekki að tala um hvort manneskja sé innan um fólk, heldur þessa ömurlegu tilfinningu að vera einmana, utanveltu, þekkja engan, hafa engan til að deila með, engan til að elska, tilheyra engum hópi, vera utan samfélagsins þótt mætt sé í vinnu eða nám. Hafa engan annan tilgang en að redda sér næsta skammti. Það er ekki hlutskipti sem ég óska neinum og er næsta viss um að enginn vill upplifa. Ég hef litla trú á að einhver vakni einn góðan veðurdag og ákveði að gerast misnotandi vímuefna. Misnotkun sem starfsferil. Held að það sé næstum óþekkt.
Svo endum þetta fáránlega fíknistríð og leggjum áherslu á skaðaminnkun og regluvæðingu. Það er fullreynt að fíknistríðið er tapað. Reynum að tapa ekki friðinum líka. Fólk verður að fá frelsi og tíma til að lifa. Annars hrakar geðheilsunni og það er afar dýrt fyrir þjóðfélagið. Og eykur misnotkun.
Þetta er seinni grein af tveimur. Höfundur er áhugamaður um sögu menningarbundnar vímuefnanotkunar.
Höfundur er áhugamaður um sögu menningarbundinnar vímuefnanotkunar,