Lífsskilyrði hafa tekið miklum breytingum og á síðustu áratugum hefur tækniþróun fleygt fram og ekki sér fyrir endann á henni. Ytra áreiti er mikið og virðist fara sí vaxandi. Það sem hefur ekki breyst er tíminn, í hverri viku eru 168 klukkustundir sem við skiptum niður til að fást við mismunandi verkefni í lífinu. Það er mikilvægt að skoða hvernig tímanum er varið og hvernig hægt er að forgangsraða því sem nærir okkur og gefur hamingju. Við þá forgangsröðun er mikilvægt að auka þekkingu og meðvitund barna og unglinga um líðan sína og kenna leiðir sem stuðla að bættri líðan. Menntun í velferð snýst um að þróa færni einstaklingsins til að auka vellíðan, hamingju og bjartsýni og það er mikilvægt að sú færni sé kennd markvisst.
Jákvæð sálfræði
Jákvæð sálfræði (Positive Psychology) er fræðigrein sem byggir á vísindalegum rannsóknum um það hvernig efla má vellíðan einstaklingsins á öllum sviðum. Jákvæð sálfræði gengur þvert á viðfangsefni sálfræðinnar og er því ekki undirgrein sálfræðinnar. Martin E. P. Seligman hefur verið kallaður faðir jákvæðrar sálfræði en árið 1998 þegar hann var kosinn forseti amerísku sálfræðisamtakanna lagði hann áherslu á að rannsaka og beina sjónum að styrkleikum fólks ekki síður en veikleikum. Áherslur jákvæðrar sálfræði gefa þó ekki í skyn að aðrar áherslur í sálfræði séu neikvæðar heldur dregur fram áherslur á jákvæða og bætandi þætti í mannlegri hegðun.
Mennskan og hagvöxtur
Hagvöxtur er mikilvægur í nútímasamfélagi en aðferðir sem mæla hagvöxt gefa þó ekki rétta mynd af verðmæti þjóðar. Hagvaxtarmælingar gera ekki ráð fyrir mennskunni og má segja að aðferðirnar meti flest annað en lífið sjálft, í hagvexti felst til dæmis ekki hamingja, styrkleikar, dyggðir eða fegurðin í sinni víðustu mynd.
Jákvæð menntun
Innan jákvæðrar sálfræði eru kenningar sem hægt er að draga af menntunarfræðilegar ályktanir og kalla má jákvæða menntun. Í því felst að kenna börnum færni til að auka vellíðan og hamingju ásamt því að ná árangri í hefðbundnum kennslugreinum. Rannsóknir styðja að í skólum ætti að kenna færni sem eykur þrautseigju og jákvæðar tilfinningar. Ian Morris deildarstjóri velferðarkennslu (Well-being) Wellington College í Berkshire þróaði námsefni um velferð og hamingju og gaf út bókina Learning to ride elephants. Teaching happiness and well-being in schools (2009) byggða á jákvæðri sálfræði. Skólar í Ástralíu og Bretlandi hafa verið með jákvæða menntun í sinni námsáætlun og gefið góðan árangur. Erla Kristjánsdóttir þýddi bókina (Að sitja fíl – nám í skóla um hamingju og velferð ) sem var gefin út af Námsgagnastofnun 2012.
Sjálfræði og jákvæð samskipti
Skóli eða skólasamfélag snýst öðru fremur um samskipti. Margar kannanir eru gerðar til að fylgjast með líðan barna og sem dæmi má nefna Skólapúlsinn en hann er lagður fyrir nemendur í 6. – 10. bekk hvert ár þar sem spurt er út í virkni, líðan og skóla- og bekkjaranda. Grunnþættir menntunar eru sex, Heilbrigði og velferð er einn þeirra og þar má sjá að rík áhersla er á velferð, vellíðan og hamingju. Ingibjörg Kaldalóns lektor við Háskóla Íslands fjallar meðal annars um í doktorsritgerð sinni sem ber heitið Stuðningur við sjálfræði nemenda í íslenskum grunnskólum um stuðning við sjálfræði nemenda í skólastarfi og hvernig sjálfræði út frá sjálfsákvörðunarkenningum og jákvæðri sálfræði er mikilvægur þáttur í velfarnaði. Sjálfræði er að nemandinn upplifi að hann hafi eitthvað um það að segja sem hann er að fást við í skólanum, að viðfangsefnið þjóni markmiðum hans og gildum, að nemandinn upplifi að hann ráði við viðfangsefnið og hafi trú á sér í þeim aðstæðum sem koma upp. Jákvæð samskipti og félagsmenning í skólum eru líklegri til að styðja við börn og auka sjálfræði þeirra og velferð.
Það má ætla að börn séu í kringum 20 -25 klukkustundir (30 – 37 kennslustundir) í skólanum hverja viku í formlegu námi sem skólaskyldan kveður á um, það er stór hluti af tíma barnsins og yngri börn eru að auki mjög mörg í skólavistun eftir að formlegum skóladegi líkur, ásamt því að vera í öðru námi sem skyldan kveður ekki á um, sama má segja um eldri nemendur. Í skólaumhverfinu reynir mjög á flókin samskipti hvern dag, við jafnaldra og eldri og yngri skólafélaga sem og fullorðna einstaklinga.
Í Aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á heilbrigði og velferð. Stuðla skal markvisst að jákvæðum skólabrag þar sem gætt er sérstaklega að því að skapa öruggt og vinsamlegt umhverfi svo barnið fái tækifæri til að þroska styrkleika sína og efla trú sína á það geti lært það sem hugur þess stendur til og náð markmiðum sínum. Það er mikilvægt þegar barnið hefur lokið grunnskóla að það hafi lært aðferðir sem hjálpa því að ná árangri. Að það hafi fundið að viðfangsefnin hafi haft tilgang og það hafi náð að skapa sér jákvæða sjálfsmynd og trú á eigin getu hvort sem það er í námi eða félagstengslum.
Núvitund
Áhrif núvitundar hefur verið rannsökuð í áratugi og sýna þúsundir rannsókna sem hafa verið gerðar fram á að núvitundarþjálfun hefur góð áhrif. Niðurstöður sýna fram á fimm atriði sem núvitundarþjálfun hefur sérstaklega góð áhrif á; það er minni streita, betri stjórn á tilfinningum, meiri hamingja, sterkara ónæmiskerfi og bætt hugsun. Sömu niðurstöður koma fram Þegar breskir og íslenskir nemendur eru spurðir hvaða áhrif þeim finnst núvitund hafa á sig. Þegar nemendur segja hvers vegna þeir eru ánægðir með kennslu í núvitund nota þeir setningar eins og „…vegna þess að ég fann að hún róaði mig niður fyrir vikuna“ og nemandi í öðru landi segir; „ég er búin að læra róa mig niður“, „uppáhaldstímarnir mínir í velferð voru þegar við lærðum að hugleiða vegna þess að það kenndi mér hvernig ég gæti róað mig niður, … og það gagnlegasta sem ég hef lært.“ Núvitund er víða kennd og ætti að vera auðvelt fyrir kennara og aðra starfsmenn í skólum að fá þjálfun í núvitund til þess að beita henni í kennslu. Rannsóknir hafa sýnt mjög jákvæð áhrif núvitundar iðkunar og ætti þess vegna að vera einn af grunnþáttum í velferðarkennslu. Það má segja að núvitund sé „grunnfærni“ í annari færni það er tilfinningastjórn, samskiptahæfni og streituþoli. Að þjálfa færni til að veita þessu athygli gefur okkur meira val og aukna sjálfstjórn í athöfnum daglegs lífs og að beina huganum þangað sem við viljum hafa hann, með því getur núvitundarþjálfun hjálpað til við að draga úr vanlíðan og þjáningu. Sjálfstjórn er talin hafa mikið forspágildi fyrir velgengi í lífinu og þegar nemendur eru spurðir þá finnst þeim það eftirsóknarverð líðan.
Heilbrigði og velferð, grunnþáttur menntunar og markmið stjórnvalda
Bjartsýni tengist því að mótlæti sé tímabundið og trúa að hlutirnir fari frekar vel en illa. Það er mikilvægt að börn læri aðferðir til að þjálfa seiglu og temja sér jákvæðar leiðir og hugsanir sem styðja við bjartsýni og von.
Eins og hefur komið fram þá hafa rannsóknir í jákvæðri sálfræði beinst meðal annars að því að þróa inngrip og aðferðir sem gætu stuðlað að hamingju og aukinni velferð. Jákvæð menntun fellur því vel að markmiðum stjórnvalda að auka velferð og hamingju hjá börnum og ungu fólki.
Á vef Embættis landlæknis kemur fram að vísbendingar séu um að andlegri heilsu ungmenna á Íslandi hafi hrakað á undanförnum árum og þróunin sé í verri átt. Skipaður var starfshópur 1. nóvember 2018 sem var liður í geðheilbrigðisstefnu stjórnvalda til ársins 2020. Í starfshópnum voru fulltrúar frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Menntamálastofnun, Kennarasambandi Íslands, Heimili og skóla og Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Embætti landlæknis og var Embætti landlæknis falið að leiða vinnu hópsins í samráði við heilbrigðisráðuneytið. Starfshópurinn lagði meðal annars fyrir könnun meðal starfsfólks í leik-, grunn- og framhaldsskólum um allt land til að fá sem skýrasta mynd af því hvernig geðræktarstarfi í skólum er háttað í dag, finna má niðurstöðurnar á vef Landlæknis Geðrækt, forvarnir og stuðningur við börn og ungmenni í skólum á Íslandi.
Í janúar 2020 skilaði starfshópurinn síðan niðurstöðum og tillögum Innleiðing geðræktarstarfs, forvarna og stuðning við börn og ungmenni í skólum Íslands. Þar kemur fram að „Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mælir með að heilsuefling fari fram í skólum með heildrænum hætti þar sem jöfn áhersla er lögð á andlega, líkamlega og félagslega vellíðan. Þetta sé hagkvæmasta leiðin til að efla bæði heilsu, vellíðan og námsárangur.“ Einnig kemur fram í skýrslunni að mikilvægt er að hefjast handa við að innleiða með markvissum hætti vinnu í geðrækt, forvörnum og snemmtækan stuðning við börn og ungmenni, mennta kennara og námsráðgjafa og aðra aðila sem koma að þessari vinnu. Til að ná markmiðum stjórnvalda um aukna velferð og hamingju þarf að setja velferðarkennslu inn í skólanna með markvissum hætti. Við þurfum að horfa á hvernig skólamenningu við viljum hafa og hvernig samfélag við viljum búa börnum okkar í nútíð og framtíð. Það er ekki eins manns verk - heldur er það samfélagið allt sem hefur áhrif á að það gangi vel. Huga þarf að því hvernig skólinn getur skapað umhverfi þar sem við náum að virkja „leiðtoga“ í hverju og einu barni svo það geti betur tekist á við lífið sjálft sorgir og sigra, þekkt gildi sín og geti lagt af mörkum til samfélagsins með því að vera virkur þjóðfélagsþegn, lifað merkingarbæru lífi og þannig haft áhrif á velferð sína og hamingju. Það hefur verið leitast við að skilgreina viðfangsefnið og safna upplýsingum með ýmsum hætti, reyna að greina hvað gengur vel og hvað má betur gera til að auka vellíðan og hamingju barna og ungmenna. Næsta skref er að takast á við verkefnið og setja Velferðarkennslu inn í skólanna með markvissum hætti.
Höfundur er Náms- og starfsráðgjafi og nemandi í jákvæðri sálfræði.