Í grein í Kjarnanum 6. maí sl., Veiran og viðbrögðin, benti ég á að efnahagsaðgerðir stjórnvalda í kórónukrísunni felist að verulegu leyti í því að greiða lögbundin launakostnað fyrirtækja með almannafé. Í þessu leynist í reynd eignatilfærsla frá almenningi til fyrirtækja. Á þetta að nokkru við um svokallaða hlutabótaleið en einkum um styrki til að greiða laun í uppsagnarfresti og styrkveitingar í öðrum tilgangi. Til að koma í veg fyrir slíka eignatilfærslu ætti að skilyrða þessa styrki með endurgreiðslum sem tengja mætti afkomu eftir að komist er í gegnum brimskaflinn eins og nú tíðkast að segja.
Frumvarp um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti sem lagt hefur verið fram sýnir að áhyggjur um eignatilfærslu voru ekki tilefnislausar. Inntak frumvarpsins er að færa 15 til 27 milljarða úr vösum almennings til eigenda fyrirtækja og fjármagns. Það er að vísu látið líta svo út að þetta sé gert til að tryggja hag launafólks en það stenst ekki skoðun. Það missir vinnu sína og fær ekki frekari bætur en verið hefði án þessara ráðstafana.
Laun á uppsagnarfresti eru lögvernduð krafa launamannsins sem fyrirtækinu ber að greiða. Sé það ógjaldfært og fari í þrot verða þessi laun forgangskrafa sem greiðist af eignum búsins á undan almennum kröfum. Sé búið ekki fært um greiðsluna fellur krafan á ábyrgðarsjóð launa sem eignast þá kröfu á þrotabúið. Með því að ríkið leggi fyrirtækinu til fé til að greiða laun á uppsagnarfrestinum er launamaðurinn því ekki betur settur fjárhagslega en ella hefði verið. Hann kann að fá laun sín greidd eitthvað fyrr en við því hefði mátt bregðast með öðrum hætti en að gefa fyrirtækinu fé til að standa við skuldbindingar sínar.
Þær krónur sem varið er í styrki til að greiða laun í uppsagnarfresti fara ekki í vasa launþeganna en hverra þá? Tvennt er til í því efni eftir því hvort þessi stuðningur nægir til að bjarga fyrirtækinu frá gjaldþroti eða ekki.
Standi fyrirtækið af sér storminn, sem vonandi verður svo í flestum tilvikum, mun styrkurinn koma fram í betri eiginfjárstöðu þess eftir að veðrið lægir. Verðmæti fyrirtækisins er þá orðið því sem nemur styrknum hærra en ella hefði verið. Styrkurinn er gjöf úr ríkissjóði til eigandans.
Ákvæði frumvarpsins um tekjufærslu stuðningsins á líklega að skilja sem sérstaka kvöð á fyrirtækið en er það ekki í reynd. Samkvæmt gildandi skattalögunum væri styrkurinn skattskyldar tekjur sem tekjufæra bæri á því ári sem hann er greiddur fyrirtækinu og skattur eftir atvikum greiddur á því næsta. Einu áhrif ákvæðisins eru að fresta tekjufærslunni og þar með skattgreiðslunni í allt að 6 ár. Í stað meintrar kvaðar ákvæðið felur ákvæðið í sér ívilnandi skattfrestun.
Þá eru ákvæði frumvarpsins um hugsanlega endurgreiðslu styrksins til að losna undan skilyrðum um arðgreiðslur o.fl. sérstaklega athyglisverð. Styrkhafa er boðið að velja milli þess að halda styrknum og borga allt að 20% skatt af stofni þess með góðum gjaldfresti án vaxta og verðbóta eða greiða greiða styrkinn til baka með vöxtum og verðbótum. Ekki er líklegt að það vefjist mjög fyrir slyngum viðskiptamönnum hvor leiðin sé þeim hagfelldari, auk þess sem þeir eiga kost á ótal leiðum öðrum en arðgreiðslum til að ná fé út úr fyrirtækinu velji þeir hana.
Af þeim upplýsingum sem birtar hafa verið um þau fyrirtæki sem nýtt hafa hlutabótaleiðina má ætla að hún hafi stundum verið notuð til að létta undir með starfseminni af óljósu tilefni. Ástæða þess sem í enn ríkara mæli á við um stuðning vegna launa í uppsagnarfresti er að réttur til stuðningsins er ekki tengdur neinu mati á raunverulegri þörf. Er það öfugt við það sem gerist í opinberum velferðarkerfum þar sem millifærslur til einstaklinga eru jafnan byggðar á einhvers konar þarfagreiningu sbr. lífeyri almannatrygginga, örorkulífeyri, barnabætur, vaxtabætur og atvinnuleysisbætur. Sú regla virðist hins vegar ekki eiga að gilda um stuðning við fyrirtæki.
Þeir 27 milljarðar króna sem áætlað er að stuðningur þessi geti orðið munu ekki renna til launþeganna, þeir verða í stórum dráttum í sömu sporum eins og ekkert væri gert eða stuðningurinn væri í formi lána. Styrkurinn munu að einhverju leyti renna til lánardrottna gjaldþrota fyrirtækja og hugsanlega að litlu leyti renna til baka til ríkissjóðs. Að langmestu leyti mun styrkurinn hins vegar renna til fyrirtækja sem ekki fara í gjaldþrot. Einhver þeirra bjargast hugsanlega með þessum aðgerðum og er það vel en hefði einnig gerst með endurkrefjanlegum stuðningi. Hin eru líklega fleiri, stærri og betur fjármögnuð sem fá styrkinn beinlínis sem gjöf frá almenningi. Vegna skorts á vörnum gegn því má gera ráð fyrir að gjöfin endi að einhverju marki á reikningum í skattaskjólum.
Unnt hefði verið að ná yfirlýstu markmiði laganna með öðrum hætti t.d. með ívilnandi lánum í stað styrkja eða öðrum áskilnaði um endurgreiðslu í samræmi við afkomu eða framlegð fyrirtækjanna á næstu árum. Með því hefði mátt komast hjá því að færa fé úr vösum almennings til fyrirtækja sem ekki þurfa á stuðningi að halda þrátt fyrir að hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli. Reynslan sýnir að til lítils er að höfða til nægjusemi eða samfélagslegrar ábyrgðar þegar um aura er að tefla. Það er eins og að bjóða sykurfíkli súkkulaðimola.
Höfundur er hagfræðingur.