Jón Baldvin Hannibalsson skrifaði merka grein í Kjarnann þann 25. maí síðastliðinn, Um Alaskaarðinn og íslenska arfinn. Tilefnið skrifanna er „framsal” eigenda Samherja til barna sinna á „84,5% hlutafjár félagsins með annars vegar erfðagerningi og hins vegar sölu milli félaga,” eins og Morgunblaðið orðaði gjörninginn 15. þessa mánaðar.
Þar með hafa börnin eignast þær fiskveiðiheimildir sem Samherji hafði fengið úthlutað til skamms tíma. Grein Jóns er eftirtektarverð og ætti að lesast með allri athygli.
Nefndur gjörningur eigenda Samherjamanna merkir að þeir líta svo á að þeir eigi veiðiheimildirnar sem þeim var úthlutað. Og að þeir geti framselt þær, gefið þær hverjum þeim sem þiggja vill. Þeir ákveða, í því fári sem þeir eru með sinn rekstur, að erfa börnin sín að veiðiheimildunum. Af klókindum velja þeir tímann til þess þegar þjóðin á við heilsuvá að glíma og mest öll umræða í fjölmiðlum og manna á milli snýst um heilbrigðismál.
Er það löglegur gjörningur að gefa það sem maður ekki á? Heimila einhver íslensk lög að móttekinn arfur sem greiddur hefur verið erfðafjárskattur af sé frá erfingjanum tekinn án fullra fébóta?