Eftirfarandi „Svör og leiðréttingar vegna ítrekaðra rangfærsla um málefni Bakkavarar í vefritinu Kjarnanum“ bárust frá bræðrunum Ágústi og Lýð Guðmundsson, oftast kenndum við Bakkavör, vegna fréttar Kjarnans um málefni þeirra sem birtist 17. maí síðastliðinn. Fréttina má lesa hér til hliðar.
Neðst má lesa viðbrögð ritstjórnar Kjarnans.Svör og leiðréttingar Ágústs og Lýðs:
„Hér fyrir neðan eru nokkrar athugasemdir og leiðréttingar á margendurteknum rangfærslum er lúta að umfjöllunum um Bakkavör Group í Bretlandi, sem er skráð félag í Kauphöllinni í Lundúnum (e. London Stock Exchange) og m.a. birtust í frétt í Kjarnanum 17. maí s.l.
Við teljum tímabært að koma þessu á framfæri nú, ekki síst í ljósi þeirrar miklu umræðu sem fer nú fram víða um heim um falsfréttir og mikilvægi þess að vandað sé til verka í fréttaflutningi og að farið sé rétt með staðreyndir.
Þær einskorðast við umfjöllun þessar tilteknu fréttar og því sem snýr að Bakkavör Group.
1. Fullyrðing:
Undir kaflanum „Slæmur rekstur tryggði fjórðungshlut“ er því m.a. haldið fram að skuldabréfaútgáfa Bakkavarar Group hafi verið ein svívirðilegast misnotkun á trúgirni og oft á tíðum barnslegri einfeldni lífeyrissjóðanna sem átti sér stað fyrir hrun.
Athugasemd: væntanlega er hér verið að vísa til tveggja skuldabréfaflokka Bakkavarar Group hf. sem útgefnir voru árið 2003 (Bakk 03 1) og 2005 (Bakk 05 1).
Samkvæmt skilmálum skuldabréfanna var ljóst að lánað var út á efnahagsreikning og fjárstreymi, og engar skorður settar um aðrar lántökur eða tryggingar til annarra lánveitanda. Þar að auki kom fram í ársreikningum samstæðunnar að eignir dótturfélaga væru veðsettar. Aðdróttanir um að fjárfestar hafi verið með einhverju móti blekktir eða skuldabréf seld á tóma skel eru því rangar.
Vakin er sérstök athygli á því að skuldabréfaeigendur í þessum tveimur skuldabréfaútgáfum fengu endanlegar endurheimtur sem nema annars vegar 161% af upphaflegri fjárfestingu (Bakk 03 1), sem jafngildir 3,76% árlegri ávöxtun, og hins vegar 124% endurheimtur af upphaflegri fjárfestingu (Bakk 05 1) sem jafngildir 2,01% árlegri ávöxtun.
2. Fullyrðing:
Undir kaflanum „Voru stærstu eigendur Kaupþings“ þar sem fjallað er m.a. um kaup ELL 182 ehf., félags í eigu bræðranna Ágústar og Lýðs (Bakkavararbræður), í október 2008 á 40% hlut í Bakkavör gegn seljendaláni. Þar segir í 3. málsgr.: „Salan var ógild á endanum, að undirlagi kröfuhafa, sem höfðu ekki sömu sýn og bræðurnir á málið.“
Athugasemd: fullyrðing um að salan hafi verið „ógild“ er röng eða í það minnsta villandi. Áður en nauðasamningur Exista árið 2010 var kláraður þá gekk salan tilbaka þannig að hlutabréfin voru framseld gegn uppgjöri á seljandaláni samkvæmt samkomulagi milli aðila, þ.e. hún var ekki ógild eins og haldið hefur verið fram.
Tilgangurinn með framsali á hlutabréfum í Bakkavör Group til félags í eigu Bakkavararbræðra í október 2008 var að tryggja það að erlendir kröfuhafar, þá einna helst kröfuhafar að sambankaláni rekstrarfélags Bakkavarar samstæðunnar, gætu ekki gjaldfellt lánið og gengið að veðsettum undirliggjandi eignum Bakkavarar Goup. Hefði slíkt jafnframt haft neikvæð keðjuverkandi áhrif á aðra fjármögnun innan samstæðunnar og leitt til gjaldþrots Bakkavarar Group hf. og mögulega dótturfélaga þess. Við það hefðu skuldabréfaeigendur og hluthafar í Bakkavör Group fengið takmarkaðar endurheimtur, ef einhverjar.
Ákvæði umræddra lánssamninga voru á þá leið að ef Bakkavararbræður myndu missa eignarhlut sinn í Bakkavör, líkt og gerst hefði ef Exista eða Bakkavör Group hf. hefðu verið tekin til gjaldþrotaskipta, þá hefði gjaldfellingarheimild orðið virk (svokallað Change of Control ákvæði) ef einhverjir aðrir en Bakkavararbræður færu sameiginlega með ráðandi hlut í Bakkavör Group hf. Þannig hefðu erlendir lánveitendur rekstrarfélaga Bakkavarar getað leyst til sín undirliggjandi rekstrarfélög í Bakkavarar samstæðunni. Um var að ræða raunverulega áhættu á þessum tíma.
Þegar búið var að tryggja að fyrrgreind „Change of Control“ ákvæði yrðu ekki virk voru eignarhlutirnir í Bakkavör Group framseldir aftur til Exista. Þannig var salan ekki undir neinum kringumstæðum ógild, eins og áður hefur komið fram, heldur var framsalið aftur til Exista í samræmi við ákvæði samkomulagsins.
Ákvörðun um að skýla hlutafjáreigninni í Bakkavör skilaði á endanum hluthöfum og kröfuhöfum Bakkavarar Group hf. tugum milljarða króna. Á engum tímapunkti var umrædd tilfærsla til þess gerð að halda eignum á kostnað kröfuhafa eins og haldið hefur verði fram.
3. Fullyrðing:
Undir kaflanum „Sögðu nornaveiðar eiga sér stað á Íslandi“ þar sem því er m.a. haldið fram að Lýður hafi neyðst til að hætta sem stjórnarformaður Bakkavarar á aðalfundi vorið 2013.
Athugasemd: fullyrðingin er röng. Lýður gegndi stöðu stjórnarformanns Bakkavarar í Bretlandi allt til október 2017 þegar félagið var skráð á London Stock Exchange. Ástæða þess að hann steig niður sem stjórnarformaður var til þess að uppfylla góða stjórnarhætti skráðra félaga í Bretlandi og að tryggja félaginu sæti í FTSE 250 vísitölunni þar sem Bakkavararbræður voru meirihlutaeigendur við skráningu og Ágúst forstjóri.
Þá voru tæp tvö ár frá því að BG12 hópurinn hafði selt eignarhlut sinn í Bakkavör og hafði þessi ákvörðun því ekkert með afstöðu þeirra að gera líkt og ítrekað hefur verið haldið fram í Kjarnanum.
4. Fullyrðing:
Undir kaflanum „Voru stærstu eigendur Kaupþings“ segir eftirfarandi: „Staða Bakkavarar á þessum tíma var þannig að félagið var að niðurlotum komið og þurfti á fjárhagslegri endurskipulagningu að halda. Hinn mikli vöxtur, sem fólst aðallega í því að kaupa upp önnur fyrirtæki í matvælaiðnaði, oft á yfirverði, hafði skilið Bakkavör eftir afar skuldsett.“
Athugasemd: ofangreind fullyrðing er röng. Þeir fjárhagslegu erfiðleikar sem Bakkavör stóð frammi fyrir í lok október 2008 helguðust af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi var allt lausafé félagsins eða 150 milljónir punda í vörslu Kaupþings á Íslandi á þessum tíma og sat því fast eins og kom ítrekað fram opinberlega á þeim tíma, ii) Bakkavör hafði byggt upp skuldsetta hlutabréfastöðu í öðru skráðu félagi í London með yfirtöku í huga sem Bakkavör neyddist svo til að selja með miklu tapi, og iii) samhliða fyrrgreindum atburðum og mikilli almennri hræðslu við Ísland á alþjóðafjármálamörkuðum missti félagið „credit insurance“ í Bretlandi sem leiddi til verulegs útflæðis veltufjár. Við útreikninga lánadrottna á fjárhagsstöðu félagsins (financial covenants) í árslok 2008 braut félagið fjárhagsleg skilyrði lánssamninga af fyrrgreindum ástæðum. Fullyrðingar um að fjárhagsvandræði félagsins á þessum tímapunkti hafi verið tilkomin vegna lélegra fjárfestinga á yfirverði eiga því ekki við nein rök að styðjast.
5. Fullyrðing:
Undir kaflanum „Slæmur rekstur tryggði fjórðungshlut“ segir eftirfarandi: „Fjórðungshlutinn fengu bræðurnir að kaupa á fjóra milljarða króna. Innra virði Bakkavarar miðað við eiginfjárstöðu samstæðunnar var um 20 milljarðar króna og því ljóst að bræðurnir voru að greiða minna en eina krónu fyrir hverja nafnvirðis krónu. Þeir voru sem sagt að fá góðan samning.“
Athugasemd: rétt er vekja athygli á því að um var að ræða kaup í bresku félagi og kaupverðið greitt í pundum. Því á þessi athugasemd um að verið sé að greiða minna en nafnverð einnar íslenskrar krónu ekki við.
6. Fullyrðing:
Undir kaflanum „Nýttu sér fjárfestingaleiðina“ segir eftirfarandi: „Þegar Bakkavararbræður hófu gegndarlaus uppkaup á hlutum í Bakkavör myndaði hópur íslenskra aðila, fyrrum kröfuhafa Bakkavarar sem hafði tapað gríðarlegum fjárhæðum á viðskiptum við félagið, blokk á móti bræðrunum með rúmlega 50 prósent eignarhlut. Bræðurnir höfðu endurheimt fyrirtækið sem þeir stofnuðu á Suðurnesjunum á níunda áratug síðustu aldar endurskipulagt, endurfjármagnað og án þess að upprunalegir kröfuhafar þess hafi fengið nema brotabrot af þeim peningum sem þeir lánuðu eða fjárfestu í félaginu til baka.“
Í lokin er svo rétt að leiðrétta að Bakkavör var ekki stofnað á Suðurnesjum, þótt félagið hafi haft þar starfsstöðvar um tíma. Fyrstu aðstaða félagsins var í Reykjavík en upphaf félagsins má rekja til Seltjarnarness eins og heiti þess ber raunar með sér og flestir vita.“
Viðbrögð frá ritstjórn Kjarnans (ATH. uppfærð 9. júní með athugasemdum Lýðs og Ágústs við viðbrögðum ritstjórnar Kjarnans):
Athugasemd 1:
Fréttaflutningur Kjarnans byggir á ítarlegri heimildarvinnu, meðal annars samtölum yfir margra ára skeið við aðila sem fjárfestu í umræddum skuldabréfaflokkum. Þar liggur fyrir að margir viðmælendur töldu að um blekkingar hafi verið að ræða þegar skuldabréfaflokkarnir voru keyptir til að byrja með. Fyrir því hefur ritstjóri Kjarnans bæði munnlegar og skriflegar heimildir. Það kemur skýrt fram í umræddri umfjöllun sem bræðurnir gera athugsemd við. Þar segir: „Auk þess virðast margir innan lífeyrissjóðakerfisins vera sammála um að skuldabréfaútgáfa Bakkavarar Group hafi verið ein svívirðilegasta misnotkun á trúgirni og oft á tíðum barnslegri einfeldni sjóðanna sem átti sér stað fyrir hrun. Bréfin voru enda seld á tóma skel þar sem allar undirliggjandi eignir Bakkavarar Group voru veðsettar upp í topp hjá öðrum kröfuhöfum. Þá er ótalin sú tilraun þeirra að reyna að halda eignum sínum á kostnað kröfuhafa.“
Athugasemd Lýðs og Ágústs við athugasemd: Endurheimtur af skuldabréfum Bakkavarar eru reiknanleg stærð sem liggur fyrir. Tölurnar tala sínu máli. Endurheimtur þessara tveggja skuldabréfaflokka sem útgefnir voru af Bakkavör voru að heildarfjárhæð 30 milljarðar króna. Upprunaleg útgáfa var að fjárhæð 21 milljarður króna. Þannig samsvöruðu endurheimtur annars vegar 161% af upphaflegri fjárfestingu í skuldabréfaflokki Bakk 03 1 og 124% í skuldabréfaflokki Bakk 05 1. Það er því ekki rétt að tala um að brotabrot af upphaflegu fjárfestingunni hafi innheimst. Augljóst er að heimildir Kjarnans eru úreltar og að áætlanir heimildarmanna voru í besta falli ágiskanir um endurheimtur sem reyndust miklum mun meiri. Það sem menn héldu árið 2012 reyndist sem betur fer langt frá því að vera rétt. Því hlýtur að bera að fagna og halda okkur við þær staðreyndir héðan í frá.
Auk þess má vísa í úttekt sem gerð var á starfsemi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins og kynnt var í apríl 2012 kom fram að sjóðirnir hefðu tapað samtals 170,9 milljörðum króna á hlutabréfum og skuldabréfum sem útgefin voru af Existu og tengdum aðilum. Hlutdeild þessara aðila, sem voru aðallega Kaupþing, Exista og Bakkavör, í heildartapi lífeyrissjóðanna vegna slíkra bréfa var 44 prósent. Þar af var ætlað tap sjóðanna vegna Bakkavarar Group 38,6 milljarðar króna (10,6 milljarðar króna vegna skuldabréfa og 28 milljarðar króna vegna hlutabréfa).
Athugasemd Lýðs og Ágústs við athugasemd: Vakin er athygli á því að endanlegar endurheimtur upphaflegra skuldabréfaeigenda og hluthafa Bakkavarar urðu ekki ljósar fyrr en á árinu 2016 þegar BG12 og aðrir hluthafar seldu hlutabréf sín í félaginu. Þannig urðu talsvert meiri endurheimtur en vísað er til í umræddri skýrslu sem gefin var út árið 2012 og telur 10,6 milljarða króna tjón vegna skuldabréfanna. Af skuldabréfunum varð ekkert tjón eins og kom fram í fyrri athugasemdum okkar. Heildarfjárhæð sem aflað var í almennum hlutafjárútboðum á Íslandi var um 7,2 milljarðar króna. Endurheimtur þessara útboða voru 40-50% eftir sölu á hlutum árið 2016. Skýrslan gefur því ekki rétta mynd í dag um endanlegar endurheimtur, hvorki af hlutabréfum né skuldabréfum, enda gerð árið 2012. Í umræðu sem fer fram árið 2020 er eðlilegt að taka tillit til ofangreindra staðreynda. Sérstaklega ef það er til þess fallið að gefa réttari mynd af niðurstöðunni.
Varðandi ætlaðar blekkingar við sölu á hlutum lífeyrissjóða í Bakkavör í byrjun árs 2016 er vert að benda á t.d. orð formanns orð formanns VR, stærsta stéttarfélags Íslands sem skipar helming stjórnarmanna í Lífeyrissjóð verzlunarmanna.
Athugasemd Lýðs og Ágústs við athugasemd: Í upphafi skal því haldið til haga að þær yfirlýsingar formanns VR sem ítrekað hefur verið vísað til af hálfu Kjarnans sem staðreyndar í málinu, og eru frá árinu 2017, eru alfarið án innstæðu. Því til stuðnings er vísað til opinberrar yfirlýsingar Ágústar Guðmundssonar þann 27. nóvember 2017, yfirlýsingar þáverandi stjórnarformanns Lífeyrissjóðs verslunarmanna í samtali við RÚV í september 2018 varðandi niðurstöðu könnunar Deloitte á söluferlinu, sem og afstöðu Arion banka sem Kjarninn fjallaði um í september 2018. Tvær síðarnefndu aðilar tala fyrir hönd seljenda. Allir fyrrgreindir aðilar höfnuðu því að blekkingum hafi verið beitt í ferlinu, enda ekkert sem styður þá fullyrðingu. Það ber því í besta falli vott um fljótfærni að gleyma því í núverandi umfjöllun Kjarnans að vísa til þessara staðreynda.
Athugasemd 2:
Um orðhengilshátt er að ræða í athugasemd bræðranna. Salan gekk til baka að kröfu kröfuhafa Bakkavarar. Athugasemdin snýst um orðalagið „ógild“, en ekki efnisatriði fullyrðingarinnar. Salan gekk sannarlega til baka og var þar af leiðandi ekki lengur í gildi.
Athugasemd Lýðs og Ágústs við athugasemd: Fyrra orðalag í grein Kjarnans um þetta mál gaf til kynna að vafasamar kringumstæður hafi
verið uppi í málinu sem hafi ógilt umrædda tilfærslu. Til skýringar fyrir blaðamann skal þess getið
að það er talsverður munur á „ógildri“ sölu, og þ.a.l. ógildanleika þeirra samninga sem að baki
hennar stóðu. Og svo aftur sölu sem er virt að efni sínu og samhliða samið um með sérstökum hætti
að gangi til baka, og á hvaða kjörum það verði gert. Í þessu tilviki var um að ræða hið síðarnefnda,
þ.e. að salan gekk til baka í samræmi við samkomulag þar um, en ekki í ljósi einhverra annmarka
eða ógildanlegra ástæðna. Það er því fjarri lagi að um orðhengilshátt hafi verið að ræða.
Með upprunalegu framsali hlutafjár í Bakkavör til félags í eigu Bakkavararbræðra var ekki verið að
reyna að halda eignum á kostnað kröfuhafa eins og Kjarninn hefur haldið fram. Þvert á móti var með
þeim gjörningi verið að koma eignum í skjól frá erlendum kröfuhöfum samstæðunnar til hagsbóta
fyrir alla kröfuhafa eins og raunin varð.
Athugasemd 3:
Beðist er velvirðingar á rangfærslum um að Lýður Guðmundsson hafi stigið fyrst til hliðar sem stjórnarformaður Bakkavarar Group á árinu 2013. Það gerðist 2017 og hefur verið leiðrétt í viðeigandi skrifum Kjarnans. Að öðru leyti á athugasemdin ekki við umfjöllun Kjarnans um málið.
Athugasemd Lýðs og Ágústs við athugasemd: Ekki er rétt með farið af hálfu Kjarnans þegar sagt er að umfjöllun þess eigi ekki að öðru leyti
við en hvað ártalið varðar. Rétt er að ítreka framsettar ástæður þess að Lýður Guðmundsson stígur
niður sem formaður stjórnar Bakkavarar Group.
Ástæða þess að hann stígur niður voru til þess að uppfylla góða stjórnarhætti skráðra félaga í Bretlandi og að tryggja félaginu sæti í FTSE 250 vísitölunni þar sem Bakkavararbræður voru meirihlutaeigendur við skráningu og Ágúst forstjóri. Á þeim tímapunkti hafði BG 12 hópurinn selt eignarhlut
sinn í Bakkavör og hafði þ.a.l. afstaða þeirra ekkert með þá ákvörðun að gera að hann stígur niður,
líkt og ítrekað hefur verið haldið fram í Kjarnanum og rétt er að leiðrétta.
Athugasemd 4:
Það að fjárfestingar Bakkavarar hafi oft farið fram á yfirverði byggir bæði á mati fjölmargra heimildarmanna sem komið hafa að málum félagsins eftir bankahrun og heimildarmanna sem starfa í fjármálageiranum í Bretlandi. Það að félagið hafi verið afar skuldsett ætti ekki að vera vafaatriði.
Athugasemd Lýðs og Ágústs við athugasemd: Svar Kjarnans er talsvert úr samhengi við upprunalega umfjöllun og því misvísandi.
Athugasemd 5:
Ekki virðist vera gerð athugasemd við að framsetning Kjarnans sé röng heldur þá mynt sem hún er réttilega sett fram í og því ekki nauðsynlegt að svara athugasemdinni frekar.
Athugasemd Lýðs og Ágústs við athugasemd: Með hliðsjón af framsetningu Kjarnans þá er því gefið undir fótinn að með því að greiða minna
en eina krónu fyrir hlutinn að þá hafi greiðslan verið óeðlileg í einhverjum skilningi. Þetta eru villandi
skrif því að félagið var skráð í Bretlandi á umræddum tíma og þar í landi er heimilt að greiða eitt
pence fyrir hvern hlut. Því skiptir máli undir hvaða landslögum verið er að sýsla og í hvaða gjaldmiðli.
Athugasemd 6:
Vísað til svars við athugasemd 1. Stéttarfélagið sem skipar helming stjórnarmanna í einum þeirra lífeyrissjóða sem áttu hlut í Bakkavör hefur lýst því yfir opinberlega að um geti verið að ræða „eitt stærsta fjársvikamál Íslandssögunnar þar sem lífeyrissjóðir almennings urðu af milljarða tugum“. Unnið er að því innan þess sjóðs, af hluta stjórnarmanna, að setja á fót opinbera rannsókn á sölunni. Morgunljóst er að gagnrýni á söluna snýst ekki um þá upphæð sem fékkst, heldur þá upphæð sem talið er að hluthafar hafi getað fengið þegar Bakkavör var skráð á markað eftir að salan var gengin í gegn. Þann 25. janúar 2016 keypti félag í eigu bræðranna 46 prósent hlut BG12 ehf., félags í eigu Arion banka, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóðs, fleiri minni lífeyrissjóða og fagfjárfesta, á 147 milljónir punda. Það þýddi að áætlað heildarverðmæti félagsins nam um 320 milljónum punda. Rúmlega ári síðar var það vel yfir eitt þúsund milljónum punda.
Athugasemd Lýðs og Ágústs við athugasemd: Rétt er að halda því til haga að á sínum tíma voru það seljendur hlutabréfanna í Bakkavör
sem óskuðu eftir söluferli á hlutunum. Tímasetning sölunnar var því alfarið á þeirra forræði. Til
viðbótar er vísað aftur til svars við athugasemd 1, sem og opinberra yfirlýsinga Arion og Lífeyrissjóðs
verslunarmanna sem hafa hafnað þeim yfirlýsingum sem settar hafa verið fram.
Full ástæða er til að bregðast við ónákvæmri framsetningu á stofnsveitarfélagi Bakkavarar, sem var Seltjarnarnes. Það helgast af því að starfsstöð var um skeið, á upphafsárum félagsins, á Suðurnesjum. Það hefur verið leiðrétt í viðeigandi umfjöllun Kjarnans./ÞSJ