Ég er vísifjárfestir. Það þýðir að ég starfa við að fylgjast með tækniframþróun og nýsköpun og ráðstafa fjármagni til ungra sprotafyrirtækja sem byggja á nýjum og framsæknum hugmyndum. Vísifjárfestar fjárfesta ekki aðeins peningum heldur líka ómældum tíma með sprotafyrirtækjum. Okkar starfi er best lýst sem bakvörðum sem hvetja frumkvöðla til dáða, hjálpa þeim að finna gott starfsfólk, tengja þá við fleiri góða bakverði og spegla hugmyndir og ákvarðanir út frá okkar reynsluheimi sem fyrrverandi frumkvöðlar og bakverðir annarra fyrirtækja. Vísifjárfestar koma sjaldnast úr fjármálaheiminum, yfirleitt eru þeir frumkvöðlar og fólk með tækni- og markaðsreynslu sem hefur nú tekið sér stöðu bakvarða.
Þrátt fyrir að frumkvöðlar séu upp til hópa bjartsýnir og duglegir þá getur verið þrautinni þyngra að koma sprotafyrirtæki á legg. Og þegar þeir mæta ofurefli stórfyrirtækja sem geta auðveldlega lagt þá í krafti tengslanets og auðmagns er erfitt að standa einn og óstuddur. Þess vegna hefur þeim sprotum farnast best sem eru óhræddir við að leita hjálpar, starfa í traustu teymi og raða sterkum bakvörðum umhverfis sig í glímunni við ráðandi félög á markaði og aðrar áskoranir sem á vegi þeirra verða. Og fólk er tilbúið að flykkjast að baki frumkvöðlum vegna þess að þeir boða betri lausnir, nýja sýn og bjartari framtíð sem við trúum að skapi hagvöxt og þekkingarstörf í samfélaginu.
Sérhver manneskja sem hefur einhvern tímann á ævinni mætt ofurefli (t.d. ríkisvalds eins og mótmælt er í Bandaríkjunum þessa dagana) veit að það er ógjörningur að standa einn og óstuddur. Því leitum við stuðnings hjá traustum vinum og fjölskyldu og stundum hjá sérfræðingum. En ekki hafa allir sterkt bakland sem stappar í þá stálinu og gefur góð ráð og fyrir börn þá er það alfarið á ábyrgð foreldra hvort þau fái lausn sinna mála. Og raunsæisfólk með lítið aflögu veit að það er óðsmanns æði að leggjast í baráttu við ofurefli og embættiskerfi jafnvel þó réttsýnin sé með þeim í liði.
Um langan tíma hef ég velt því fyrir mér hvort aðferðarfræðina og umhverfið sem við byggjum sprotafyrirtækjum mætti yfirfæra á okkur sem einstaklinga. Það er ekki alveg auðvelt að setja fingur á hvernig hvert okkar sem einstaklingar, ólíkt fyrirtækjum, sköpum hagvöxt í samfélaginu en við lestur greinar Auðar Jónsdóttur rithöfunds á Hvítasunnudag staldraði ég við setninguna: „Er kominn tími til að við hugsum um mannúð sem auðmagn, eitthvað sem geti stuðlað að vexti almannahags?“ Ég hef velt því fyrir mér um langt skeið hvers vegna við sem samfélag sjáum ekki sömu tækifærin í að styðja við sérhvern einstakling sem minna má sín eins og sprotasamfélaginu hefur farnast svo vel að gera umhverfis sprotafyrirtæki. Það sem hefur líka gerst á undanförnum áratug er að sumir sprotar hafa vaxið gífurlega hratt og orðið að risafyrirtækjum, sérstaklega í Bandaríkjunum. Er þetta ekki bara sönnun þess að þeir sem fá sterka bakvarðasveit með hugvitið að vopni geta skapað mikil verðmæti. Er þessu eitthvað öðruvísi háttað hjá okkur sem einstaklingum?
Bakverðir þurfa að hafa trú á auðnum sem býr innra með öðrum og vera drifnir einstaklingar í að sjá fólk og fyrirtæki vaxa og blómstra. Þeirra hlutverk er ekki að verja status quo. Þeirra hlutverk er að styðja fólk í sókn sinni í lífinu og vera varnarveggurinn fyrir aftan. Við þurfum öll bakverði ef markmiðið er að byggja samfélag þar sem geta og hugvit sérhvers einstaklings telur og allir vaxa sem persónur og leikendur. Hverjir eru þínir bakverðir?
Höfundur er meðeigandi hjá Crowberry.