Þú verður að deyja fyrir samfélagið!

Auður Jónsdóttir rithöfundur veltir því fyrir sér hvernig við erum öll þátttakendur í því að móta veruleikann í upplausninni og þeirri óvissu sem fylgir COVID-19 faraldrinum.

Auglýsing

Stuttu eftir jól var ég beðin um að semja fjóra pistla um framtíðina til að flytja í útvarpsþættinum Víðsjá. Mér fannst verkefnið spennandi, en eftir á séð leysti ég það í nokkuð fyrirsjáanlegum ramma. Ég talaði um loftslagsbreytingar, misskiptingu og falsfréttir og annað sem þótti eitt skipta máli þá – þá segi ég því bara janúar nú í ár er orðin fortíð í þeim skilningi að ég hugsa um hann í öðru tímabili en núið, maímánuð sama ár. Í skynjun minni eru gríðarleg skil á milli þessara mánaða, þó að þeir séu á einu og sama árinu. Þannig skil að allt sem ég sagði um framtíðina er í einhverjum skilningi strax orðið úrelt. 

Framtíðin er alltaf öðruvísi en við ímyndum okkur.

Mögulegar breytingar


Síðustu vikur og mánuði hafa óteljandi raddir út um allan heim velt fyrir sér mögulegum breytingum sem farsóttin kann að hafa á heiminn. Sumir ræða helst heimskreppu sem eigi eftir að dýpka, aðrir þjást af svo ágengum heilsukvíða að þeim líður eins og framtíðin sé að einhverju leyti búin og nú sé bara að reyna að tefja endalokin. Svo eru það raddir sem vilja nýta COVID-19 til að gagnrýna hluti eins og alþjóðavæðingu, Evrópusambandið og annað alþjóðasamstarf, hinar ýmsu stofnanir og svo framvegis. Sumir vilja um leið ýta undir lýðhyggju og þjóðernishyggju, í versta falli mylja undan frjálslyndri lýðræðisvirkni í nafni neyðarástands, nokkuð sem er auðveldara að framkvæma en að endurheimta og hætta á að slík hugsun gæti haft miður góð áhrif á framtíðina. 

Auglýsing

Einhverjir leggja táknræna merkingu í farsóttina, á þann hátt að hún lýsi upp vankantana í samfélagsgerðum heimsins: margflókinni og djúpstæðri stéttaskiptingu, gildismati í heimi sem stjórnast af auðvaldi, værukærð okkar í loftslagsmálum o.s.frv. Sumir segja jafnvel að nú verði margt í persónulegu lífi fólks skýrara, svo það öðlist vissu til að gera grundvallar breytingar á lífi sínu. Þeir, sem ljá atburðunum merkingu af þessum toga, vilja margir nýta það til að lýsa upp veginn fyrir umbreytingar, betri heim og lífvænlegri framtíð.  

Jú, og ófáir skilja ástandið til marks um að það geti skerpt samlíðan og samkennd okkar með öldruðum, veikum, fátækum og fólki í leit að alþjóðlegri vernd. Dæmi um það er þýsk kunningjakona sem póstaði á Facebook: Daginn sem þú byrjar að hamstra dósamat, óttast um börnin þín, líf þitt og líf þinna nánustu, og hræðast nágranna þína, þá fyrst ertu fær um að byrja að skilja daglegt líf flóttafólks. 

Valdefling að ljá kaosi merkingu

Raunar hugsaði ég eitthvað svipað um daginn, þar sem ég á vinkonur sem eiga langveik börn, en ástandið fékk mig til að hugsa að svona hefur líf þeirra verið árum saman, þær hafa þurft að búa við sóttkví, stanslausar varúðarráðstafanir og skerandi meðvitund um fallvaltleika, vanmátt og örþunn skilin á milli lífs og dauða. Óvissan um framtíðina er þeirra daglega brauð, svo orðið fordæmalaust er ef til vill ekki orðið sem þær nota nú jafn oft og margir aðrir. 

Þetta er fordæmalaust ástand, heyrum við sagt í sífellu, en er það alfarið fordæmalaust? Fer það ekki nokkuð eftir skilningnum sem við leggjum í það?

Að einhverju leyti er það undir okkur sjálfum komið hvaða merkingu við leggjum í þetta ástand og þessa atburði – og áhrif þeirra á veröldina. Við sjáum reyndar ekki ennþá fyrir endann á þessu, sem er kannski hæpið að tala um sem ástand í eintölu því það sem er að gerast og á eftir að gerast er svo síbreytilegt. 

Nú er langt í frá að við vitum hvert veruleikinn stefnir, veira þessi virðist vera komin til að vera um langa hríð og aðgerðir háþróaðra nútímasamfélaga gegn henni, eru, þrátt fyrir allt hugvitið og tæknina, fordæmalausar. 

Á nútímaskeiðinu sem við þekkjum eru raunar aðgerðir samfélaganna fordæmalausar, fremur en farsóttin sem slík. Víða felast þær í því sem sérfræðingar og reiknilíkön telja að sé mögulega skásti möguleikinn í stöðunni, hverju sinni, en þó ekki með vissu. 

Raddirnar og merkingarnar sem þær leggja í atburðina eru fleiri en ég nefndi og þær hafa tekist á um merkinguna sem eigi eða eigi ekki að leggja í atburðina. En kannski felst kjarni málsins einmitt í þessum átökum um hvaða merkingu við getum mögulega lagt í ástand sem við segjum vera fordæmalaust. 

Þegar ég hef haldið fyrirlestra um skapandi skrif hef ég reynt að miðla því að skrif séu valdeflandi að því leyti að þau eru tæki til að ljá veruleikanum merkingu – út frá eigin skynjun. Þannig má greina veruleikann með skapandi hugsun – sem stækkar hann. Og þannig má ljá því tilgang, því sem virðist með öllu tilgangslaust, jafnvel að það eyði tilgangi. 

Og nú eru þannig tímar að það getur hjálpað okkur að stuðla að betri heimi, ef við erum óhrædd við að leggja uppbyggjandi merkingu í atburðarás sem virðist vera óskiljanleg. Um leið verður hún aðeins skiljanlegri, af því við sjálf tökum okkur vald til að skilja hana á forsendum okkar, ljá henni merkingu og vinna út frá þeirri merkingu. 

Samfélagið lifir en þú deyrð

Nú kann þetta að hljóma svolítið ruglingslega. En! 

Fyrst kemur hugsýnin, efnið fylgir á eftir. Því styrkari sem við erum að ljá því sem er að gerast merkingu, því meiri stjórn öðlumst við – held ég, án þess að vilja með nokkru gera lítið úr hörmungunum, sorginni og vonleysinu sem svo margir út um allan heim eru að upplifa í þessum töluðu orðum. Ég held að ef við leyfum okkur að horfa þannig á COVID-19 að það í raun og veru lýsi upp brotnar lamir í samfélögum, værukærð í loftslagsmálum, stóra hópa sem hafa verið stimplaðir sem HINIR frekar en við, hættulega stéttaskiptingu og þar fram eftir götum, þá eflumst við í leiðinni í því að sjá tilgang í hamförunum og eygja færi í upplausninni, og getum unnið að því að sá tilgangur verði til einhvers. Umbóta í framtíðinni. 

Við getum ákveðið að fífleflast í andanum til að gera raunverulegar breytingar og reyna að bæta veruleika þeirra sem upplifa ekki aðeins vonleysi nú heldur þekkja ekkert annað í lífinu sökum fátæktar, bágra aðstæðna og heilsuleysis. Allavega eru meiru líkur á því að svo megi verða, ef við trúum á merkinguna. 

Trúum á umbreytingakraftinn. 

Mátt hugsýnarinnar. 

Framtíðin getur þannig tekið á sig mynd merkingarinnar sem við leggjum í framvinduna. 

Í augnablikinu er ágeng spurning: Hvort er hættulegra að vera hræddur eða ekki hræddur? 

Ef við óttumst aðeins, sjáum aðeins það hrikalega og gefum fyrirfram upp von um að eitthvað annað en normalísering geti komið út úr öllu þessu eða trúum að við séum með öllu vanmáttug að gera breytingar, þá er hættar við að veruleikinn verði sá. 

Að framtíðin verði það sem við óttumst. 

Þetta má líka yfirfæra yfir á efnahagsleg áhrif. Ef við hættum að þora að eyða, skapa, flæða, versla og gera samninga, þá er viðbúið að veruleikinn þrengist enn frekar, kreppan verður ennþá dýpri. 

Svo mikið veltur á hugsýn okkar allra. 

Ef við hins vegar trúum að við getum stemmt stigu við svo mörgu, að við séum ekki vanmáttug í loftslagsmálum eða því að spyrna gegn misrétti o.s.frv., þá er mun líklegra að okkur takist að mjakast í réttari átt.

Síðustu vikur höfum við horft upp á að á önnur Vesturlönd hafa þurft að vísa frá þeim elstu og veikustu, í nafni björgunaraðgerða fyrir samfélagið í heild; allt í einu er eins og frumstæð praktík ráði ferðinni, þeir yngri fá lækningu og þeir sem meiri von er til að bjarga en hinir ekki, þannig að læknar eru settir í þá stöðu að taka ómanneskjulegar ákvarðanir. Svo margir hafa dáið í rúmunum heima hjá sér því samfélagið þarf að bjarga sér frekar en þeim. Kannski má segja að þeim sé fórnað fyrir hagsmuni fjöldans, hent útbyrðis svo skipið fái siglt. 

Þetta eitt hefur vakið mann til umhugsunar um hvernig ásýnd samfélaga, meira að segja þróaðra velferðarsamfélaga, getur virst öruggari en hún er í raun og veru. Síðustu vikur höfum við fylgst með ólíkum aðgerðum stjórnvalda í ólíkum löndum og svo virðist sem víða hafi of margir dáið vegna vangetu til að takast á við ástandið. Þá gæti fólk skynjað að kjörnir fulltrúar hafi öðlast vald yfir lífi og dauða kjósenda sinna, skynjun sem gæti breytt hvernig við hugsum skipan mála til framtíðar. 

Þetta er bara vangavelta, en atburðirnir kveikja ófáar vangaveltur. 

Það má spyrja sig

Nú er viðbúið að fleiri en áður, hér og þar um heiminn, eigi eftir að spyrja sig ólíkra spurninga á borð við: 

Hversu vel þjónar efnahagskerfi heimsins í raun og veru fólki? Eða núverandi efnahagskerfi þjóðríkjanna? Fólk spyr sig: Eru undirstöður virkni kerfisins þannig að það þjóni almenningi nægilega eða er kerfið of mikið hugsað í þágu stórfyrirtækja og sérhagsmuna?

Himalaya-fjöllin sáust loks frá Punjab-héraði á Indlandi.

Fyrst veirunni tókst það sem aðgerðasinnum í loftslagsmálum hefði ekki tekist á fjörutíu árum, eins og sagði einhver staðar, að stöðva flug heimsins og slökkva á mengandi iðnaði – eru þá meiri aðgerðir gerlegar en við töldum okkur trú um? 

Hversu margir hafa haft atvinnu sem reyndist miklu óöruggari og gagnslausari en þeir gerðu sér grein fyrir? Einhvers staðar las ég grein eftir fræðing sem sagði ástandið lýsa upp hversu mikið af fólki vinnur störf sem eru í raun og veru gagnslaus fyrir samfélagið – og slíkar pælingar tengjast pælingum um fjórðu iðnbyltinguna, en þær kveikja vissulega spurningar. Um leið má segja að veiran hafi lýst upp mikilvægi annarra starfa, svo um muni. 

Þá má spyrja hversu viturlegt það er að leggja svo mikið traust á eina atvinnugrein eins og ferðamannaiðnaðinn? 

Hvernig eigum við eftir að hugsa um matvæla- og lyfjaöryggi í framtíðinni?

Mun fólk framvegis vinna og funda meira rafrænt og spara sér ferðir, með tilheyrandi umhverfisáhrifum? 

Hvaða áhrif á það eftir að hafa á börn að hafa verið lokuð inni vikum og mánuðum saman, víða í litlum íbúðum með takmörkuðu útsýni, jafnvel við erfiðar heimilisaðstæður? Á það eftir að marka atferli kynslóðar?  

Hversu mikið má mannúðin sín í raun og veru þegar flóttafólk, fátækir, heilsutæpir og aldrað fólk er svo víða skilið eftir til að deyja? Er kominn tími til að við hugsum um mannúð sem auðmagn, eitthvað sem geti stuðlað að vexti almannahags (svo ég bregði aðeins á leik með orðið hagvöxt)? 

Hvernig eigum við eftir að hugsa um opin landamæri eftir aðgerðir síðustu vikna? Og hvaða áhrif eiga þessir atburðir eftir að hafa á hugmyndir um alþjóðasamstarf? 

Ég rakst á kvót eftir bandaríska samfélags- og menningarrýninn Susan Sontag þar sem hún sagði hughrif fólks tengja saman pestir og hið erlenda. Við hugsum um spænsku veikina, Napolí-veikina, Kínaveikina o.s.frv. ... og þetta segir hún til marks um að við skynjum pestir og hið erlenda í einni og sömu andrá. 

Hvaða áhrif hafa þá aðrir eins atburðir á hugrenningatengsl almennings? Munu þeir með tímanum ýta undir öfgafull þjóðernisöfl? Ef skynjun fólks segir því að pestin komi ávallt að utan ...

Ótti við hið erlenda getur búið til ógn úr sjálfum sér, stuðlað að innilokun, átökum, skorti á mannúð, jafnvel stríði. 

Nú reynir á hugsýnina, á svo mörgum sviðum. 

Nú þegar við vitum við ekki hvað er framundan. Hvernig á heimurinn eftir að fúnkera næstu árin? Hvað gerist eftir fimmtánda júní? Hversu margar eða jafnvel engar tiltakanlegar bylgjur af COVID-19 á íslenskt samfélag á eftir að fara í gegnum? Hvert verður umfang þeirra? Hver verða áhrif atburða erlendis á okkur? Hversu vel getur hagkerfi okkar fúnkerað þegar vistkerfi hagkerfa heimsins hefur hægt á sér svo um munar? 

Þá er því brýnna að við þorum að hugsa um allar þessar spurningar af ábyrgð og víðsýni, og raunar miklu fleiri spurningar. Að við leyfum okkur að hugsa upp á nýtt, ljá hræringunum merkingu; þá merkingu að veiran lýsi upp það sem má betur gera, og trúa á merkinguna, til að hún megi raungerast í framtíðinni. Þá getur framtíðin orðið góð og betri en fortíðin.

Einhver sagði við mig, heimurinn verður bara aftur eins og hann hefur alltaf verið. Fólk sagði líka í Hruninu að allt myndi breytast, svo varð það bara samt. Allt normalíserast, fólk breytist ekki. 

En! Sumt breyttist vissulega eftir Hrunið, þó svo margt hafi farið í sama farið. Og kannski er þessi hugsunarháttur varhugaverður, því hann kemur í veg fyrir að við nennum að hugsa og eygja nýja möguleika. 

Við erum öll gerendur, þátttakendur, í að skapa hugsýn fyrir framtíðina. Í því felst ábyrgð okkar. Á tímum sem reyna fyrst og fremst á hugsýn okkar. 


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorkell Helgason
Kominn er tími á umbætur á kosningakerfinu
Kjarninn 3. ágúst 2021
Minnsti álútflutningur í átta ár
Þrátt fyrir hækkandi álverð á heimsvísu hefur magn útflutts áls minnkað á síðustu mánuðum. Heildarútflutningur á síðasta árshelmingi hefur ekki verið minni síðan árið 2013.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr
Katrín Baldursdóttir og Símon Vestarr efst hjá Sósíalistaflokknum í Reykjavík suður
Listi Sósíalistaflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður hefur verið kynntur. „Þetta er fjölbreyttur listi og kraftmikill. Fólk sem vill breyta samfélaginu þannig að allir hafi tækifæri til blómstra, hafi öruggt og gott húsnæði og góð laun,“ segir oddvitinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigmundur Ernir ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins
Jón Þórisson, sem hefur ritstýrt blaðinu frá því haustið 2019 ætlar að snúa sér að öðrum störfum. Sigmundur Ernir verður einnig aðalritstjóri Torgs.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Bólusetningin hafi ekki skapað það hjarðónæmi sem vonast var til
Flest smit að undanförnu má rekja til hópatburða en delta afbrigði veirunnar hefur breiðst út á ótrúlegum hraða að sögn sóttvarnalæknis. Til stendur að bjóða þeim sem fengu Janssen bóluefni upp á aðra bólusetningu sem og að bólusetja 12 til 15 ára börn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Sigþrúður Stella Jóhannsdóttir
Náttúruspjöll í Vatnajökulsþjóðgarði
Kjarninn 3. ágúst 2021
Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festis segir félagið ekki ætla að reyna fyrir sér í byggingargeiranum.
30 þúsund fermetra uppbygging í stað bensínstöðva
Samkvæmt samkomulagi Festis við Reykjavíkurborg á Festi byggingarrétt á lóðum þar sem til stendur að loka bensínstöðvum N1. Félagið hyggst selja byggingarréttinn í stað þess að byggja. „Það er ekki okkar bissness, það eru aðrir í því,“ segir forstjórinn.
Kjarninn 3. ágúst 2021
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans
Raddir margbreytileikans – 5. þáttur: „Vits er þörf þeim er víða ratar“
Kjarninn 3. ágúst 2021
Meira úr sama flokkiÁlit