Umræða um verndun hafsins og nýtingu þess hérlendis hættir til að verða einhæf. Góðum árangri við fiskveiðistjórn vilja útgerðarmenn þakka úthlutun veiðikvóta sem þeir segja forsendu þess að það tókst að takmarka heildarafla á Íslandsmiðum. Nær væri að segja að heildaraflamark – aflareglan – í samræmi við ráðgjöf vísindamanna Hafrannsóknarstofnunar hafi verið mikilvægasta forsendan, en kvótakerfið var sú skipting heildaraflans sem útgerðarmenn gátu sætt sig við. Vel má hugsa sér að annars konar kerfi – byggt á aflareglu – hefði einnig dregið úr fjölda skipa á Íslandsmiðum, dregið úr olíunotkun og þar með losun gróðurhúsalofttegunda. Jafnframt má hugsa sér að þjóðin hefði fengið stærri hluta arðsins af auðlindinni í sinn hlut.
Dagur hafsins
Hugmyndin um sérstakan dag hafsins var fyrst lögð fram á umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Ríó árið 1992, að fagna skyldi degi hafsins um heim allan á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Það var ekki fyrr en 2008 að þessi dagur, 8. júní, var fyrst haldinn hátíðlegur á vegum Sameinuðu þjóðanna ár hvert til áminningar um mikilvægi hafsins.
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sýna vel mikilvægi hafsins. Ekki síst markmið nr. 2 um að útrýma hungri og tryggja fæðuöryggi. Þá má nefna markmið nr. 8 um góða atvinnu og hagvöxt.
14. heimsmarkmiðið snýr að verndun hafsins beint. Þar er meðal undirmarkmiða að vinna gegn súrnun sjávar og halda skaðlegum áhrifum loftslagsbreytinga í skefjum. Heimsmarkmið nr. 12, að tryggja sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur, er afar mikilvægt fyrir samfélög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi.
Hið 13. „Aðgerðir í loftslagsmálum“ – undirstrikar einnig nauðsyn þess að vinna gegn súrnun sjávar. Hér verðuir einig að skoða – þótt það sé ekki nefnt fullum fetum í sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, vaxandi súrefniskort vegna mengunar af völdum næringarefna, og vegna þess að þegar hafið hlýnar minnkar súrefni.
Hafið verndar
Plöntusvif í hafinu bindur gríðarlegt magn af kolefni úr andrúmsloftinu og dregur þannig úr gróðurhúsaáhrifum. Jafnframt framleiðir hafið um 70% alls súrefnis í andrúmsloftinu. Vísindarannsóknir um það hvernig hafið getur hjálpað okkur í baráttunni við loftslagsbreytingar verða æ mikilvægari.
Nýleg grein í Kjarnanum.is um stöðuga hnignun eða fölnun Kóralrifsins mikla undan norðvesturströnd Ástralíu minnir okkur á þessa staðreynd. Hafið hlýnar og lífríki Kóralrifsins mikla er í æ meiri hættu.
Stefna í málefnum hafsins?
Til að einfalda málið nokkuð gæti stefna Íslands í málefnum hafsins falist í að framfylgja ofannefndum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Sumt hefur gengið vel hér heima, annað síður, en umræðan er alþjóðleg og rödd Íslands þarf að verða miklu skýrari. Við eigum að þessu leyti kost á góðu samstarfi við aðrar þjóðir, svo sem aðrar Norðurlandaþjóðir eða smá eyríki sem eiga eftir að finna hvað mest fyrir áhrifum breytinga á loftslagi, og eru nú þegar komin í vanda.
Í vetur leið var lögð fram á Alþingi þingsályktunartillaga um mótun stefnu Íslands um málefni hafsins. Þar segir:
„Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra í samráði við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, umhverfis- og auðlindaráðherra og utanríkisráðherra að setja á fót starfshóp um mótun stefnu Íslands um málefni hafsins, með það að leiðarljósi að Ísland marki sér stöðu sem framsækið ríki þegar kemur að loftslagsbreytingum og verndun og sjálfbærri nýtingu líffræðilegs fjölbreytileika sjávar, bæði hér á landi og á alþjóðavettvangi. Starfshópurinn skili skýrslu með niðurstöðum eigi síðar en 15. apríl 2020.“
Hugsanlega dagaði þessa tillögu uppi í kófinu en því miður verður að ætla líklegra að ríkisstjórnarflokkarnir hafi lítinn áhuga á að ræða þessi mál. Hefðin er að umræða um stefnumótun um málefni hafsins fari fram á bak við luktar dyr og samráð takmarkist við fulltrúa SFS.
Svartolía
Fyrsti flutningsmaður tillögunnar, Guðmundur Andri Thorsson, nefndi sérstaklega svartolíunotkun í flutningsræðu sinni:
„Ísland beiti sér fyrir því á vettvangi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar, IMO, að bruni svartolíu sem eldsneytis fyrir skip og flutningur olíu á norðurslóðum verði bannaður líkt og IMO hefur samþykkt við suðurheimskautið, þ.e. sunnan 66. breiddargráðu.“
Og Guðmundur Andri bætti við:
„Þá ber að hafa í huga í þessu sambandi að svartolía er gríðarlega eitrað og seigfljótandi skipaeldsneyti sem brotnar afar hægt niður í lífríki sjávar og alveg sérstaklega á kaldari slóðum, í Norðurhöfum. Verði skipsskaði eða sjóslys gæti það orsakað óbætanlegan skaða á fiskimiðum okkar enda er nánast vonlaust að hreinsa svartolíu úr hafinu. Bruni svartolíu veldur auknum gróðurhúsaáhrifum þegar sótagnir sem myndast setjast á ís og jökla og dekkja yfirborðið.“
Það liggur nánast í augum uppi að ef til væri heildræn stefna um málefni hafsins – stefna sem stenst sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna, þá væri þegar búið að banna bruna og flutninga á svartolíu innan íslenskrar landhelgi.
Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.