Fjárfesting í uppeldi og aðhlynningu barna fyrstu æviárin er lykill að aukinni farsæld í samfélagi okkar. Og verulega kostnaðarsparandi til lengri tíma litið eins Heckmankúrfan sýnir. En eigum við nóga peninga til að auka stuðning við barnshafandi pör og foreldra ungra barna? Hvar má spara á móti?
Árið 2019 vörðu sveitarfélög 150 milljörðum í menntakerfið. Litlu sem engu fjármagni varið í ráðgefandi þjónustu við barnshafandi pör og foreldra ungbarna, þrátt fyrir að það sé besta langtímafjárfesting samfélagsins. Ríkið varði að auki 80 milljörðum í menntakerfið og tugum milljarða til viðbótar í ýmiss konar stofnanaúrræði til að hjálpa fólki sem á erfitt með að fóta sig í lífinu.
Á hverju ári eru um 100.000 nemar í menntakerfinu, í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum. Kostnaður við hvern nema er að meðaltali 2,3 milljónir króna á ári. Árlega fæðast ríflega 4000 börn á Íslandi. Að setja 300-500 þúsund á ári að meðaltali í stuðning við sérhvert barnshafandi par og uppalendur smábarna er líklegt til að auka farsæld okkar verulega til lengri tíma litið og hagkvæmni með því að styrkja náin tengsl á viðkvæmu skeiði.
Ég legg til að hið opinbera stofni nýsköpunarsjóð með árlegu framlagi að upphæð 2,3 milljarðar króna. Sjóðurinn verði notaður til að fjármagna þjónustu sveitarfélaga við verðandi og nýbakaða foreldra smábarna til eins eða tveggja ára aldurs. Sérstök áhersla verði lögð á mikilvægt hlutverk feðra í uppeldi og umönnun ungbarna. Þannig munum við gerbreyta samfélagi okkar til hins betra.
Höfundur er fjölskyldu- og hjónaráðgjafi.