Í breska þinginu hefur í nokkur ár verið rætt um nauðsyn þess að veita verðandi og nýbökuðum feðrum og mæðrum og ungum börnum þeirra aukinn stuðning. Kostnaður vegna ýmissa geðrænna vandamála sem rekja má til áfalla í æsku hefur rokið upp þarlendis og í umræðum árið 2014 var því spáð að frá og með árinu 2024 geti sveitarfélög í Bretlandi ekki lengur staðið undir hefðbundinni þjónustu vegna aukins kostnaðar við einstök mál.
Þrýstingur hefur komið frá ýmsum samtökum í þjóðfélaginu sem hafa átt stóran þátt í að koma málefninu á dagskrá og gefur skýrsla þingsins frá ársbyrjun 2019 góða mynd af þeirri þverpólitísku sýn sem skapast hefur. Andrea Leadsom, ráðherra í núverandi ríkisstjórn er meðal þeirra sem barist hafa fyrir málefninu og fengið mikið lof fyrir, m.a. frá Theresu May fyrrum forsætisráðherra. Þar í landi var rætt um að stofna nýtt ráðuneyti um 1001 mikilvægustu ævidagana, tímabilið frá getnaði til 2ja ára aldurs barns.
Umræða um aðgerðaráætlun um stefnu í málefnum barna og ungmenna hafði verið hér á Íslandi um árabil og allt fram til ársins 2007. Rætt var um að styrkja stöðu barna- og ungmenna og sporna við sívaxandi kostnaði í félags- og heilbrigðiskerfinu m.a. með foreldrafærnifræðslu fyrir foreldra fyrsta barns sem þjónaði þörfum beggja kynja. Því miður náði stefnan ekki flugi vegna hrunsins.
Sólrún Erlingsdóttir og Anna María Jónsdóttir birtu fræðilega grein, Lengi býr að fyrstu gerð, í nýjasta riti Geðverndar. Þar er lýst áhrifum áfalla, streitu og erfiðrar æsku á þroska einstaklingsins og lögð fram rök fyrir því að grípa reglubundið til snemmtækrar íhlutunar í þágu barna.
Vonandi grípa ríki og sveitarfélög á Íslandi til aðgerða sem felast í stefnumótun um málaflokkinn og fjármögnun til að byggja upp vandaða þjónustu handa litlum börnum og foreldrum þeirra.
Höfundur er fjölskyldu- og hjónaráðgjafi.