Það hefur tæpast farið fram hjá nokkrum manni að umhverfisráðherra hefur staðið sig ákaflega vel við að friðlýsa náttúruperlur víða um land. Nú síðast friðlýsti hann eina af þeim allra dýrmætustu, Geysi í Haukadal, og fleiri eru í undirbúningi. Á hinn bóginn hafa skrefin í baráttunni við loftslagsógnina verið smá og vandræðin hrannast upp. Þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi lýst yfir mun meiri metnaði í loftslagsmálum en áður hefur þekkst hefur enn lítið áunnist. Á því er nokkrar skýringar.
Brot á skuldbindingum
Í fyrsta lagi fékk ráðherra í arf brot á skuldbindingum Íslands um samdrátt í losun á 2. skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar 2013–2020. Yfirdrátturinn, umfram leyfða losun að frátalinni bindingu kolefnis með skógrækt og landgræðslu, er fjórar milljónir tonna af koltvísýringsígildum eða 500.000 tonn á hverju ári tímabilsins.
Í ljósi þess að markaðsverð fyrir losunarheimildir er um 25 evrur á tonnið kann þessi slóðaskapur að kosta ríkissjóð marga milljarða. Jafn ótrúlegt sem það er virðist hefur enn ekki verið lagt mat á þennan kostnað – að minnsta kosti ekki opinberlega – nú þegar eitt til hálft annað ár er eftir af kjörtímabilinu.
Stjórnsýsla í henglum
Í öðru lagi hefur komið í ljós að stjórnsýsla loftslagsmála hér á landi er í molum. Reyndar lá það fyrir í upphafi kjörtímabilsins. Þó hefur ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur enn ekki náð tökum á þessum stjórnsýsluvanda. Ekki er langur tími til stefnu því að skuldbindingartímabil Parísarsamningsins hefst um næstu áramót, 1. janúar 2021 og samdráttur í losun skal vera línulegur út tímabilið til ársins 2030. Staðan verður metin á hverju ári og aðilum gert að kaupa loftslagshlutdeild ef upp á vantar.
Sofandi á verðinum
Ennfremur, í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna segir: „Ríkisstjórnin stefnir að því að allar stærri áætlanir ríkisins verði metnar út frá loftslagsmarkmiðum.” Við þetta fyrirheit er ekki staðið í tillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2020 – 2024 og nú er til umræðu á Alþingi. Aðeins einu sinni er minnst á orkuskipti í áætluninni- sem er þó annað af tveimur helstu áhersluatriðum aðgerðaáætlunar ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Fulltrúar VG í nefndinni hafa dottað á verðinum.
Vísindin gerð marklaus
Í þriðja lagi er ljóst að losun frá landi vegna ofbeitar sauðfjár er langt umfram sjálfbærni. Í vikunni var kynnt ný skýrsla sem sýndi að 25 þúsund ferkílómetrar lands eru illa farnir og að enn er sauðfé beitt á þetta illa farna land. Hið sorglega er að þessar staðreyndir lágu fyrir þegar árið 1998 þegar dr. Ólafur Arnalds fékk umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir „einstaka miðlun á þekkingu um jarðvegsrof á Íslandi og mikilvægi þess að varðveita ræktarland á Norðurlöndum og heiminum öllum“.
Því miður hafa stjórnvöld skautað fram hjá og jafnvel afneitað vísindalegum rannsóknum sem sýna, svo ekki verður um villst, að landnýtingarþáttur gæðastýringar í sauðfjárrækt er marklaus og þarfnast tafarlausrar og gagngerrar endurskoðunar.
Umhverfisráðherra og varaformaður VG á mjög erfitt um vik. Ef hann beitir sér fyrir stöðvun sauðfjárbeitar á illa förnu landi á hann og flokkur hans á hættu fordæmingu samtaka bænda og stjórnmálaflokka sem sjá sér hag í að styðja áframhaldandi ofbeit. Afleitt og ólýðræðislegt kosningakerfi sem ríkisstjórnin þráast við að lagfæra gerir málið enn erfiðara úrlausnar.
Þekkingarskortur
Í fjórða lagi fékk umhverfisráðherra í arf umtalsverðan þekkingarskort um nýtingu landsins, kolefnisbúskap þess, áhrif framræslu á losun gróðurhúsalofttegunda og um það hverju endurheimt landgæða getur skilað, svo sem með vistheimt eða ræktun skóga. Þessi staða er sérlega bagaleg í ljósi fyrirheita ríkisstjórnarinnar um að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Að kippa þessu í liðinn er ódýrt en þekkingin ógnar ákveðnum hagsmunum.
Að snúa vörn í sókn
Bráðlega verður kynnt ný og endurskoðuð aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Mikið skorti á að sú skýrsla sem kynnt var í september 2018 gæti kallast aðgerðaáætlun. Til þess skorti tímasett og magnbundin markmið um samdrátt í losun. Vonandi verður bætt úr því og markmið stjórnvalda um 29% samdrátt í losun fyrir 2030 hert með nýjum samningi við ESB. Hafa ber í huga að upphaflegt markmið hinna Norðurlandaríkjanna er 39–40% samdráttur en Noregur stefnir nú að 45% samdrætti fyrir 2030. Ísland getur því gert betur!
1,5 gráður á Celsius
Á alþjóðavettvangi hefur umhverfisráðherra fyrir Íslands hönd eindregið stutt þá afstöðu fjölmargra ríkja, borga og fyrirtækja, að hlýnun Jarðar verði að takmarka við 1,5 °C miðað við upphaf iðnbyltingar (um 1850). Evrópuþingið hefur samþykkt ályktun um að draga beri úr losun um 55% fyrir 2030 og mörg aðildarríki Evrópusambandsins hafa lýst yfir stuðningi við það markmið. Þar eð Ísland á aðild að loftslagsstefnu ESB fæli slík stefna í sér að Ísland drægi úr losun töluvert umfram þau 40% sem umhverfisráðherra hefur sagt að sé stefna ríkisstjórnarinnar. Þessi meginforsenda aðgerða verður að koma fram í aðgerðaáætluninni. Hvað vill Ísland eiginlega?
Markmið um að takmarka hlýnun við 1,5 gráðu fékk miklar undirtektir á ráðstefnunni í París 2015 og haustið 2018 kynnti milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna skýrslu sem sýndi fram á að ef hlýnun eykst um allt að 2 °C myndi það kosta miklu fleiri mannslíf og valda óbætanlegu tjóni á vistkerfum Jarðar en ef hlýnun takmarkast við 1,5 °C. Fyrir Íslendinga felst munurinn að ef hlýnun Jarðar verður umfram 1,5 gráður verður nánast vonlaust að stöðva og snúa við súrnun sjávar. Mér er til efs að þessi meginforsenda og eindregin stuðningur Íslands við hana hafi verið kynnt á Alþingi.
Svartolíubann
Einn af björtustu punktunum í gildandi aðgerðaáætlun var 17. markmiðið – um að minnka „svartolíunotkun við strendur Íslands með breytingum á lögum og/eða reglugerðum með það að markmiði að fasa notkun svartolíu endanlega út. Slíkt er í samræmi við ákvæði í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna um að stefna að því að banna notkun svartolíu í efnahagslögsögu Íslands.“
Þrátt fyrir reglugerðarbreytingu er enn langt í land að þetta markmið náist.
Svartolía veldur mikilli losun á sóti sem hefur skammlíf gróðurhúsaáhrif. Sót dekkir yfirborð íss og jökla á norðurslóðum og herðir þannig umtalsvert á bráðnun.
Þess ber fyrst að geta að Alþjóða-siglingamálastofnunin hefur þegar bannað bruna og flutninga á svartolíu sunnan 66. breiddargráðu. Sams konar bann norðan heimskautsbaugs er enn ófrágengið.
Alþjóðasamfélagið – þ.m.t. Norðurskautsráðið og Norðurlandaráð – hefur brugðist við og hvatt til skjótra aðgerða gegn skammlífum gróðurhúsalofttegundum. Íslendingar geta nýtt núverandi formennsku sína á vettvangi Norðurskautsráðsins, í Norðurlandaráði og á vettvangi Alþjóða-siglingamálastofnunarinnar (IMO) í samvinnu við önnur aðildarríki Norðurskautsráðsins. Brýnt er að í hinni nýju og endurskoðuðu aðgerðaáætlun stjórnvalda verði gerð skýr grein fyrir markmiðum Íslands um útfösun svartolíu og hvernig Ísland hyggst beita sér á alþjóðavettvangi til að ná settu markmiði frá árinu 2018.
Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.