Jarðarbúar þurfa að draga verulega úr kolefnislosun ef ætlunin er að halda hlýnun jarðar innan við eina og hálfa gráðu samkvæmt tölum Milliríkjanefndarinnar um loftslagsbreytingar, sem er stofnun innan Sameinuðu þjóðanna (IPCC).
Kolefnislosun vegna flugs ferðamanns frá Evrópu er um það bil eitt tonn sem samsvarar því að keyra meðalbíl átta sinnum í kringum Ísland, ef hann kemur frá Kína má líkja því við 24 hringferðir um Ísland. Það þarf ekki að kafa djúpt í tölur IPCC til að sjá að einstaklingur getur ekki leyft sér að losa reglulega nokkur tonn í ferðum sem eru jafnvel bara til að versla, fara í golf eða aða aðra afþreyingu.
Sá sem gerir þetta er annaðhvort alveg sama þó næstu kynslóðir líði stórfelldar hörmungar eða hann hefur einfaldlega ekki séð þessar tölur og ég held og vona að það sé tilfellið. Vonandi er það rétt sem Greta Thunberg sagði í Madrid: „Vonin liggur í þeirri staðreynd að fólk veit ekki hvað er að gerast.“
Til að samfélag okkar verði sjálfbært og við hættum að vera með hvað mesta kolefnislosun á íbúa í heiminum þarf margt að breytast, þar með talinn ferðamannaiðnaðurinn. Það er afleitt ef 10 til 20 prósent fólks verður atvinnulaust en ef tekst að breyta vinnumarkaðinum þannig að við öll vinnum 10 til 20 prósent minna svo sem flestir haldi störfum sínum erum við í góðum málum. Hver vill ekki styttri vinnuviku eða lengra sumarfrí? Forsenda þess að þetta gangi upp er auðvitað að neysla dragist saman í sama hlutfalli en það er einmitt það sem þarf, og meira til.
Hvort ríkið á að breyta regluverki og beita skattlagningu til að koma í veg fyrir að ferðamannaiðnaðurinn rísi aftur til þess sem hann var fyrir Covid-19 skal ósagt látið. Það ætti hins vegar ekki að koma til greina að verja skattfé til þess að bjarga flugfélögum og öðrum ferðaþjónustufyrirtækjum. Frekar ætti að byrja strax á að endurskipuleggja vinnumarkaðinn með hagsmuni framtíðarkynslóða í huga. Ímyndum okkur að við gætum rætt þetta við einstakling fæddan 2050 til dæmis barnabarn okkar, hvert yrði álit þess?
Höfundur er meðlimur í grasrótarhóp Landverndar í loftslagsmálum.