Þakklæti er fyrsta og fremsta tilfinningin sem við berum mörg í brjósti eftir síðastliðna mánuði heimsfaraldurs. Við erum þakklát fyrir að ekki fór verr en syrgjum með fjölskyldum og ástvinum þeirra sem misstu líf sitt. Við erum þakklát fyrir að samfélagið geti farið aftur af stað hægt og bítandi og við erum þakklát yfirvöldum fyrir að stýra skútunni jafn vel og þau gerðu. Þríeykið okkar stóð sig frábærlega og ekki síst Alþingi og ráðherrar sem treystu þríeykinu og létu pólitík ekki standa í vegi fyrir sérfræðiþekkingu og lýðheilsu.
Eins og við höfum séð frá löndum í kringum okkur er það ekki sjálfsagt og það er til marks um það hvað við höfum sterkt velferðarkerfi, mótað út frá gagnreyndum vísindum, hversu vel hefur tekist upp í stríðinu við Covid-19. Hversu mikið traust við berum innbyrðis til hvors annars, hvort sem um er að ræða einstaklinga, ráðuneyti eða opinberar stofnanir.
Krísur og eins og heimsfaraldur sýna okkur þó ekki einungis hvað gengur vel heldur einnig hvað má betur fara. Það var til dæmis áberandi að það virtist ekki vera búið að gera ráð fyrir að fatlað fólk byggi sjálfstætt með aðstoð NPA og stóð þessi hópur því utan við allar sóttvarnaraðgerðir þar sem engar aðgerðaráætlanir voru til fyrir hann. Annmarkar sóttvarnarbúnaðs varð meira áberandi þar sem hefðbundnar andlitsgrímur gera ekki ráð fyrir heyrnarskertu fólki sem reiðir sig á varalestur til að geta átt samskipti. Og okkur barst hrópandi og endanleg staðfesting á því að baráttan gegn offitu hér á landi er hápólitísk og lituð eiginhagsmunum þegar „Leiðbeiningar fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri COVID-19 sýkingu“ voru gefnar út 4. maí sl. Til að útskýra af hverju þarf ég að fara lengra aftur í tíma og veita lesendum samhengi.
Þyngdarmiðuð nálgun snýst um að holdafarið eitt og sér sé meginvandinn
Samtökin Félag fagfólks um offitu eða FFO voru stofnuð árið 2002 og samkvæmt lýsingu á Facebook-síðu samtakanna var „… hvatinn að stofnun félagsins hratt vaxandi offituvandi og þörf fyrir vettvang til að fjalla um rannsóknir og úrræði til þess að sporna við þeirri þróun.“ FFO er íslenskur angi af Evrópusamtökunum European Association for the Study of Obesity (EASO). Um er að ræða valdamikil samtök sem berjast fyrir sjúkdómavæðingu offitu með læknisfræðilegt sjónarhorn að leiðarljósi.
Þessi samtök notast því við svokallaða þyngdarmiðaða nálgun í sínum störfum þar sem litið er svo á að holdafarið eitt og sér sé meginvandinn og að leysa megi þann vanda með því að draga úr líkamsþyngd. Markmið þessarar nálgunar er að sjúkdómsvæða holdafar þar sem það leiðir til þess að gáttir opnast til að fjármagna meðferðir m.a. hjá heilbrigðisyfirvöldum og tryggingarfélögum og þannig megi sporna við vandanum. Þyngdarmiðuð nálgun er sú nálgun sem við flest þekkjum og höfum alist upp við. Við tökum henni sem sjálfsögðum og eðlilegum hlut og setjum fæst spurningarmerki við hana. Það er þó að færast í aukana að önnur nálgun, þyngdarhlutlaus nálgun, sé til umræðu.
Þetta er sú nálgun sem líkamsvirðingarsinnar mæla með til að ná fram lýðheilsumarkmiðum og á bak við hana liggur aragrúi rannsókna sem styðja við notkun hennar. Þau fræðilegu sjónarhorn sem stuðst er við í þeirri nálgun er ekki bara hið læknisfræðilega heldur einnig hið félagsfræðilega og sálfræðilega. Um er því að ræða þverfaglega nálgun sem tekur til þátta eins og fordóma og mismununar og neikvæðra afleiðinga þyngdarmiðuðu nálgunarinnar s.s. megrana, átraskana og neikvæðrar líkamsmyndar. Þetta er nálgun sem einblínir á heildarmyndina og túlkar rannsóknir sem eiga að styðja við hina þyngdarmiðuðu nálgun á annan og flóknari hátt. Dæmi er lýðfræðileg rannsókn sem sýnir fylgni á milli hærri BMI-stuðuls og verra heilsufars.
Þyngdarhlutlausa nálgunin kafar dýpra
Þau sem tala fyrir þyngdarmiðaðri nálgun nota þessa rannsókn til að sýna fram á að hærra BMI leiði til verra heilsufars og að mikilvægt sé að koma í veg fyrir þyngdaraukningu og draga úr þyngd þeirra sem eru með hátt BMI. Það muni síðan skila sér í betra heilsufari. Þyngdarhlutlausa nálgunin túlkar rannsóknina öðruvísi og kafar dýpra ofan í forsendur hennar og niðurstöður. Hún bendir á að um sé að ræða fylgnisamband en ekki orsakasamband og því sé ekki tímabært að draga ályktanir fyrr en fylgnisambandið sé skoðað nánar.
Hún rannsakar og skoðar betur hvað liggur að baki fylgnisambandinu með því að styðjast við fyrirliggjandi rannsóknir en einnig með því að gera eigin rannsóknir sem kenna sig við fitufræði (fat studies). Þannig höfum við til að mynda komist að því að endurteknar þyngdartapstilraunir hafa verulega skaðleg áhrif á heilsu og eykur dánartíðni marktækt miðað við hjá feitum einstaklingum sem voru stöðugir í þyngd. Ástæðan er m.a. vegna þess að endurteknar þyngdartapstilraunir auka líkur á bólgumyndun í líkamanum, háum blóðþrýstingi, insúlínónæmi, blóðfituröskun, hjarta- og kransæðasjúkdómum. Við vitum einnig að feitt fólk er líklegra til að fara í fleiri megranir og reyna að léttast en fólk í kjörþyngd. Það má því færa rök fyrir því að tengslin milli holdafars og heilsufarsáhættu skýrist frekar af ítrekuðum megrunartilraunum en af holdafarinu sjálfu.
Holdafarsmismunun veldur verra heilsufari
Annar þáttur sem nauðsynlegt er að huga að þegar skoðuð er fylgni milli holdafars og heilsu eru afleiðingar fitufordóma og mismununar á heilsu. Rannsóknir meðal samfélagshópa sem hafa orðið fyrir mismunun sýna auknar líkur á ýmsum heilsufarskvillum, svo sem háþrýstingi, langvinnum verkjum, kviðfitu, efnaskiptavillu, æðakölkun og brjóstakrabbameini, jafnvel þegar tekið hefur verið tillit til annarra áhrifaþátta.
Nýleg rannsókn sem gerði tilraun til að einangra áhrif holdafarsmismununar á heilsufar feitra leiddi í ljós að holdafarsmismunun er talin útskýra 27% af verra heilsufari feitra. Rannsóknir sýna ennfremur að reynsla af fitufordómum eykur líkur á þunglyndi, neikvæðu sjálfsmati, slæmri líkamsmynd, ofátsvanda og minni þátttöku í hreyfingu. Þessar niðurstöður haldast þrátt fyrir að tekið sé tillit til áhrifaþátta á borð við kyn, aldur og líkamsþyngdarstuðul. Ekki má þá láta ótalið að fordómar og mismunun innan heilbrigðiskerfisins leiðir til slakari heilbrigðisþjónustu og reynsla af slíkri framkomu leiðir til þess að feitt fólk sækir sér síður heilbrigðisþjónustu, sem einmitt getur haft verulegt forvarnargildi við þróun sjúkdóma.
Föst í vítahring
Þær lýðfræðilegu rannsóknir sem þyngdarmiðaða nálgunin beitir fyrir sér í stríðinu gegn offitu tekur ekki tillit til þessara áhrifaþátta heldur skellir niðurstöðunum fram á þann hátt að offita og þar með fituvefurinn sjálfur útskýri verra heilsufar feitra með öllu. Jú, það eru sannarlega vísbendingar um að fituvefurinn sjálfur geti mögulega skýrt eitthvað af þeim krankleika sem til hlýst af hærri þyngd. En hvað gerum við við þær upplýsingar? Ætlum við að mæla áfram með endurteknum þyngdartapstilraunum meðal feitra sem leiða til verra heilsufars og og geta leitt til aukinna fitufordóma og mismununar sem aftur eykur líkur á verri heilsu feitra? Það virðist allavega vera niðurstaðan.
Við erum þannig föst í vítahring, sama vítahring og við höfum til dæmis séð verða til í baráttunni gegn vímuefnum. Sem betur fer erum við farin að sjá heilbrigðisyfirvöld snúa baki við hefðbundnari nálgun að fíkniefnastríðinu og taka skaðaminnkandi skref. Sama má ekki segja um stríðið gegn offitu, þar virðist hafa verið tekin pólitísk ákvörðun að festast í sömu sporunum óháð fórnarkostnaðinum.
Landlæknisembættið fól áðurnefndum samtökum, FFO, að búa til nýjar klínískar leiðbeiningar um meðferð fullorðinna einstaklinga með offitu. Leiðbeiningarnar komu út í janúar sl. og er ætlað að vera leiðarljós þegar kemur að allri læknisfræðilegri meðferð Íslendinga með 30 í BMI og yfir. Leiðbeiningarnar er unnar út frá þyngdarmiðaðri nálgun og einkennast af þeirri rörsýni sem fylgja nálguninni. Unnið er út frá þeirri mjög svo umdeildu ályktun að offita sé sjúkdómur og virðist það viðhorf ná að festa sig endanlega í sessi meðal heilbrigðisyfirvalda með útgáfu leiðbeininganna. Samtökum um líkamsvirðingu bauðst að senda inn umsögn á lokametrum vinnunnar og var hún með öllu virt að vettugi í lokaútgáfu leiðbeininganna.
Varað við hættunni sem fylgdi því að sjúkdómsvæða holdafar
Alvarlegar athugasemdir voru gerðar í umsögninni við fjölmörg atriði og í raun allar forsendur leiðbeininganna, þar á meðal útlistun á þyngdarmiðuðu nálguninni og skaðsemi hennar. Varað var við hættunni sem fylgdi því að sjúkdómsvæða holdafar þar sem ekki hefur verið sýnt fram á að slík þróun geri neitt til að minnka þá fordóma og kerfisbundnu mismunun sem feitt fólk verður fyrir af höndum einstaklinga, fjölmiðla og samfélagsins á hverjum einasta degi. Frekar sé hætta á að þessir þættir versni og auki þannig á jaðasetningu og heilsufarsvanda þessa hóps. Sérstakur kafli er í leiðbeiningunum um efnaskiptaaðgerðir og lyfjameðferð og fjallað um þessi úrræði sem mikilvæga þætti sem beri að skoða við meðferð.
Fram kemur að efnaskiptaaðgerðir séu árangursríkasta meðferðin við alvarlegri offitu ef litið sé til langtímaþyngdartaps, minnkunar fylgikvilla, bættra lífsgæða og lækkunar dánartíðni. Þessi fullyrðing stendur á afar veikum grunni en langtíma árangur og afleiðingar magahjáveituaðgerða og magaerma er almennt ekki vel þekktur né rannsakaður. Lítið púður er lagt í að tilgreina þá fjölmörgu og alvarlegu aukakvilla og hættur sem fylgja aðgerðunum en þeim mun meira í að mæra aðgerðirnar og meinta kosti þeirra. Þess má geta að einstaklingar sem hafa farið í offituaðgerð eru 2x líklegri til að gera tilraun til sjálfsvígs og stunda sjálfsskaðahegðun en jafn feitir einstaklingar sem ekki hafa farið í aðgerð og er það vísbending um hversu mikil áhrif þessir aukakvillar hafa á lífsgæði þeirra sem hafa gengist undir þær.
Kaflinn sem fjallar um lyfjameðferð tiltekur tvö lyf, annað er lítið notað hér á landi vegna mikilla aukaverkana en hitt, Saxenda, hefur ekki náð að sýna fram á langtíma þyngdartap né heilsufarslega bætingu. Hvorki er minnst á það né að aukaverkanir eru miklar og alvarlegar; æxli í skjaldkirtli; krabbamein; sýking í briskirtli; gallsteinar; hraður hjartsláttur við hvíld; nýrnabilun og þunglyndi og sjálfsvígshugsanir. Á vefsíðu lyfsins er sérstaklega tekið fram að sýnt hafi verið fram á orsakatengsl milli lyfsins og þróun skjaldkirtilskrabbameins í músum og rottum. Enn sé ekki vitað hvort að um sömu tengsl sé að ræða meðal fólks og er því sérstök viðvörun vegna þess á vefsíðunni.
Það er í raun og veru ótrúlegt að þessi lyf og þessar aðgerðir séu yfirhöfuð leyfðar miðað við hvað réttmæti þeirra stendur á veikum grunni. Þegar horft er til þess samfélagslega samhengis sem þessi úrræði voruð þróuð innan er þó auðveldara að skilja það. Megrunar- og þyngdartapsiðnaðurinn veltir milljörðum á hverju ári. Þyngdarmiðaða nálgunin kyndir það gróðabál með yfirlýsingum um skaðsemi offitu og rannsóknum sem eru unnar út frá og túlkaðar út frá einni forsendu þar sem þörf er á þverfaglegri nálgun.
Sjá ekki skóginn fyrir trjánum
Þetta kann að hljóma sem svo að ég sé að saka heilbrigðisiðnaðinn um eitt heljarstórt og ljótt samsæri en svo er ekki. Eins og áður hefur komið fram erum við öll alin upp innan þyngdarmiðuðu heimsmyndarinnar. Við erum öll alin upp við þær fullyrðingar að offita sé stærsta og mesta heilbrigðisvandamál 21. aldarinnar og að um sé að ræða sjálfsskapað vandamál.
Þetta eru fullyrðingar sem eru svo sannar í huga flestra að okkur dettur ekki einu sinni í hug að setja spurningarmerki við þær. Sama gildir um heilbrigðisstarfsfólk og rannsakendur. Skökk og einföld sýn þeirra á offitufaraldurinn gerir það að verkum að þau sjá ekki skóginn fyrir trjánum.
Besta dæmið um það er að talsfólk þyngdarmiðuðu nálgunarinnar nota oft sömu rannsóknir og talsfólk þyngdarhlutlausu nálgunarinnar til að sýna fram á sitt mál. Munurinn liggur í túlkun rannsóknanna og rörsýni og skökk hugsun leiðir til þess að meintar hættur offitu eru oftúlkaðar og ýktar, enda getur niðurstaðan ekki orðið önnur þegar jafn marga þætti skortir til að greina niðurstöðurnar fyllilega. Og þegar samfélagið upplifir jafn mikla ógn gagnvart heilsu og lífi er auðveldara að réttlæta fórnarkostnað í formi fylgikvilla og sjálfsvíga. Það er litið svo á að líf hins feita einstaklings sé hvort eðer dauðadæmt, hann geti aldrei lifað góðu lífi svo að af hverju ekki að láta reyna á lífshættulegar aðgerðir? Og þegar við bætist að margt heilbrigðisstarfsfólk og rannsakendur eiga lifibrauð sitt undir að viðhalda stríðinu gegn offitu að þá er óhjákvæmilegt að eiginhagsmunir spili inní túlkunina, alveg sama hversu mikið viðkomandi einstaklingar reyni að láta það ekki trufla sig og taka hlutlausa afstöðu.
Feitt fólk orðið meðvitaðra um fitufordóma innan heilbrigðiskerfisins
Öll þessi merki rörsýni og eiginhagsmuna má sjá í klínískum leiðbeiningum um meðferð fullorðinna einstaklinga með offitu. Fullyrðingar eins og: „Offita er langvinnur efnaskiptasjúkdómur sem einkennist af aukinni fitusöfnun í líkamanum“, „í grunninn verður ofgnótt fituvefjar í líkamanum vegna langvinns orkuójafnvægis“ og „efnaskiptaskurðaðgerð er árangursríkasta meðferðin við alvarlegri offitu ef litið er til langtímaþyngdartaps, minnkunar fylgikvilla, bættra lífsgæða og lækkunar dánartíðni“ eru lagðar fram án þess að heimilda sé getið, svo sjálfsagðar eru þær álitnar vera. Umsögn Samtaka um líkamsvirðingu er hunsuð með öllu. Og það þykir eðlilegt að beinir hagsmunaaðilar og/eða eigendur að þeim meðferðarúrræðum sem er mælt með í leiðbeiningum séu jafnframt höfundar þeirra. Landlæknir sjálf hafði aldrei heyrt talað um þyngdarhlutlausa nálgun nokkrum mánuðum áður en leiðbeiningarnar voru gefnar út og yfirlæknir á sviði Gæða og eftirlits með heilbrigðisþjónustu innan embættisins fullyrti við sama tækifæri að fitufordómar innan heilbrigðiskerfisins hefðu kannski einu sinni verið vandamál hér á landi en væru ekki lengur til. Þau fleygu orð urðu til þess að Samtök um líkamsvirðingu settu af stað þolendahóp vegna mismununar og fordóma af hálfu heilbrigðiskerfisins á grundvelli holdafars til að sýna fram að á vandinn væri víst til staðar og að hann væri alvarlegur. Hópinn má finna hér.
Hluta af ástæðunni fyrir þessari framgöngu hagsmunaaðila og heilbrigðisyfirvalda má einnig finna í þeirri staðalmynd sem feitum einstaklingum hefur verið úthlutað í gegnum áratugalangt ferli afmennskunar og fordóma. Við erum álitin gráðug, löt og heimsk og við vitum því ekki hvað er okkur fyrir bestu. Við þurfum meinta sérfræðinga til að vísa okkur frá glötun og spiki. Meðlimir FFO og landlæknir tóku undir þá staðalmynd þegar þau héldu erindi á fræðslufundi Íslenskrar Erfðagreiningar 1. febrúar sl. þar sem viðkvæðið var að feitir einstaklingar væru vitlausari og óhlýðnari en aðrir og þar sem yfirlæknir Barnaspítala Hringsins líkti feitum börnum við beljur á myndrænan hátt. Þrátt fyrir mikla og opinbera gagnrýni hefur enginn þessara aðila stigið fram til að fordæma þá orðræðu sem átti sér stað þarna, fordæma fitufordóma og mismunun eða biðjast afsökunar á þátttöku sinni. Sem ætti kannski ekki að koma á óvart þegar horft er til þess að talsfólk fyrir stríðinu gegn offitu vill sjá feitt fólk hlýðnara og auðmýkra og hætta þessu endalausa tali um fitufordóma sbr. yfirlýsingu formanns FFO um að læknar „veigri sér við að opna umræðu um offitu við sjúklinga af hræðslu við viðbrögð þeirra“.
Með öðrum orðum er feitt fólk orðið meðvitaðra um fitufordóma innan heilbrigðiskerfisins og gerir kröfur á starfsfólk þess um gagnreyndar læknismeðferðir og að mannréttindi þeirra séu virt. Það er ekki okkar þolendanna að taka ábyrgð á því ofbeldi sem valdhafar beita okkur. Slík gasljóstrun og þolendasmánun í stað þess að taka ábyrgð á eigin gjörðum er ekki leið sem er til þess fallin að fá okkur til að treysta, alveg sama hvað gerendurnir reyna að sannfæra okkur um að þau vilji okkur allt það besta.
Höfundur er félagsráðgjafi og formaður Samtaka um líkamsvirðingu.
---
Á morgun mun II. hluti greinarinnar birtast á Kjarnanum. Þar verður fjallað um veikan grunn fyrir flokkun offitu sem áhættuþátt fyrir COVID-19 og hversu mikilvægt það sé fyrir heilbrigðisyfirvöld að skipta um takt.