Ímyndaðu þér, lesandi góður, að þú búir í parhúsi. Allt í einu kemur nágranninn og segir: „Ég ætla að taka af þér stofuna og eldhúsið.“ Þú yrðir væntanlega ekki sáttur og myndir sennilega grípa til ráðstafana.
Einmitt svona hegða Ísraelsmenn sér, með Benjamin Nethanyahu, fremstan í flokki, gegn Palestínumönnum og hafa gert lengi. Netanyahu, sem sakaður hefur verið um spillingu, er núna forsætisráðherra í samsteypustjórn með einum helsta andstæðingi sínum, Benjamin Gantz(!), sem er varnarmálaráðherra.
Eins og staðan er núna hefur þessum hugmyndum um innlimun þó verið frestað, en til síðari tíma, jafnvel aðeins fram í júlí/ágúst. Ástæðan er meðal annars vegna COVID-19 og skiptra skoðana um málið. Ólíklegt verður að teljast að þessar áætlanir verði með öllu slegnar af, það myndi verða túlkað sem veikleikamerki.
Nokkrar sviðsmyndir
Ísraelsmenn eru sem sagt með á stefnuskrá sinni innlimun á svæðum Palestínumanna á Vesturbakkanum (sem þeir stjórna nær algerlega), Jórdan-dalnum og jafnvel fleiri svæðum, það eru nokkrar „sviðsmyndir“ hugsanlegar samkvæmt fréttum af málinu. Mest ætla þeir að taka um 30% af Vesturbakkanum, þar sem fyrir er risastór öryggisveggur, sem talinn er taka um 10% af svæði Vesturbakkans. Veggur sem Trump er sennilega ánægður með. Aðgerðin með Jórdan-dalinn (á landamærum Ísraels og Jórdaníu) miðar að því að skapa „öryggissvæði“ þar.
Skilgreina má innlimun þá aðgerð þegar ríki eða leiðtogi eins ríkis tekur yfir annað ríki eða hluta þess (svæði) og fellir það inn í sitt ríki.
Nýjasta dæmið um innlimun er þegar Rússland (les;Vladimír Pútín) innlimaði Krímskaga vorið 2014, en hann tilheyrði Úkraínu. Um það bil frá þeim tíma hefur geysað þar stríð, sem kostað hefur meira en um 10.000 mannslíf. Saddam Hússein réðist inn í og innlimaði smáríkið Kúvæt árið 1990 og kom þar með af stað fyrsta Flóabardaga við Bandaríkjamenn og bandalag þeirra (meðal annars Ísland). Adolf Hitler innlimaði Austurríki árið 1938 og gerði það þar með að hluta af „þriðja ríki“ Hitlers. Markmiðið var að stofna „Stór-Þýskaland“. Við vitum hvernig það dæmi fór.
Brot á alþjóðalögum
Innlimun er í eðli sínu aðgerð sem gengur algerlega gegn alþjóðalögum og innlimun Krímskaga hefur til dæmis verið harkalega mótmælt, Rússar hafa fengið á sig viðskiptaþvinganir (meðal annars frá Íslandi), ráðamenn og áhrifamenn hafa verið settir á „svarta lista“ og fleira slíkt. Því innlimun er í raun hámarks birtingarmynd frekju og yfrgangs, með því að einn aðili yfirtekur land og svæði sem tilheyra annarri þjóð.
Með þeirri landtöku sem Ísraelsmenn hafa nú boðað er samkvæmt frétt á vef Al-Jazeera, verið að taka mikilvæg landbúnaðarsvæði og vatnsból af Palestínumönnum, en landtökur Ísraelsmanna á svæðum Palestínu-Araba eru ekkert nýtt mál og hafa í raun verið í gangi áratugum saman, eða allt frá stofnun Ísraelsríkis árið 1948.
„Apartheid“ Mið-Austurlanda
Ýmsir hafa líkt framferði Ísraelsmanna við aðskilnðarstefnu hvítra í S-Afríku, þá alræmdu stefnu sem kallaðist „Apartheid“ (1948! – 1990) og miðaði að því að aðskilja í raun svarta íbúa landsins, frá hvítum minnihluta.
Deila þeirra og Palestínumanna er eitt alvarlegasta deilumálið í Mið-Austurlöndum, en um tvær milljónir Palestínumanna búa á landræmunni Gaza, sem er álíka stór og Reykjaneskagi. Gaza hefur stundum verið kallað „stærsta fangelsi heims“ og þar eru allar aðstæður íbúa hinar verstu, skortur á öllum gæðum sem við teljum eðlileg, t.d. heilsugæslu.
Á Vesturbakkanum búa um 400.000 manns og um 750.000 ef Jerúsalem er talin með, en bæði Gyðingar, Múslimar og Kristnir í Jerúsalem gera tilkall til borgarinnar og vilja gera hana að „sinni“. Í landtökubyggðum á Vesturbakkanum, sem Ísraelsmenn hertóku í Sex daga stríðinu árið 1967, búa um 430.000 Gyðingar.
Treysta á Bandaríkjamenn
Í aðgerðum sínum (sem þeir kalla reyndar „ráðstöfun á fullveldi“) treysta Ísraelsmenn á ófrávíkjanlegan stuðning Bandaríkjamanna og vissulega er stuðningur þeirra gríðarlegur, en beinn hernaðarstuðningur Bandaríkjanna til Ísraels nemur um 3 milljörðum dollara á ári, eða um 8 milljónum dollara á dag. Ekki minna munar um hinn siðferðilega stuðning sem lobbíistar gyðinga í Bandaríkjunum vinna duglega að. Hagsmunasamtök Gyðinga í Bandaríkjunum eru að margra mati þau öflugustu þar í landi.
Fjölmörg og flest stærstu ríki Evrópu hafa mótmælt þessum fyrirhuguðu aðgerðum Ísraelsmanna, en þeir treysta algerlega á stuðning forseta Bandaríkjanna, sem hefur mjög takmarkaða þekkingu á alþjóðamálum, en til dæmis kom fram í fréttum fyrir skömmu að hann teldi Finnland tilheyra Rússlandi. Segir það ansi margt um þekkingu forsetans á hinu alþjóðlega sviði. Þá hafa Sameinuðu þjóðrinar (UN) sagt þessar áætlanir Ísraelsmanna vera ólöglegar.
Palestínumenn æfir
Palestínumenn hafa sagt aðgerðir Ísraels jafngilda stríðsyfirlýsingu, en þær koma í kjölfarið á „friðaráætlun“ sem Jared Kushner, tengdasonum Donalds Trump hefur verið í forsvari fyrir og er sagður vera einn höfunda að. Hann er sjálfur Gyðingur og hefur fram að þessu ekki verið talinn til sérfræðinga í málefnum Ísraels/Mið-Austurlanda. Almennt er talið að áætlun þessi sér Ísraelsmönnum verulega hagfelld, á kostnað Palestínumanna, sem hafa hafnað henni, enda voru þeir ekki hafðir með í ráðum á neinn hátt.
Áætlunin hafnar tilkalli Palestínumanna til hluta af Jerúsalem og þá viðurkennir áætlun Kushners landtökubyggðir Gyðinga á Vesturbakkanum, nokkuð sem Palestínumenn og alþjóðasamfélagið segja ólöglegar. Ekki bætir úr skák að árið 2017 lýsti Donald Trump því yfir að Jerúsalem væri höfðuborg Ísraels og flutti hann sendiráð Bandaríkjanna frá Tel Aviv, til Jerúsalem, en það var gert 14.maí 2018, þegar 70 ár voru liðin frá stofnun Ísraels. Táknrænna getur það varla verið.
Segja má að líf Gyðinga og Palestínu-Araba, hafi allt frá 1918, frá hinni alræmdu Balfour-yfirlýsingu (þegar Bretar afhentu Gyðingum land Palestínumanna til yfirráða) og síðar með stofnun ríkisins sjálfs árið 1948, einkennst af stríði, hryðjuverkum og ofbeldi. Landið var stofnað í kjölfar Helfararinnar, þar sem sex miljljónum Gyðinga var slátrað af Nasistum. Helförin var ein birtingarmynd aldagamallar gyðingaandúðar í Evrópu, sérstaklega A-Evrópu.
Leikur kattarins að músinni
Annað einkenni þessara átaka má kalla „leik kattarins að músinni“ og er þá vísað til nær algerra yfirburða Ísraelsmanna, sem búa yfir (vegna stuðnings Bandaríkjanna) öllum helstu toppgræjum á sviði hernaðar. Leikurinn er því verulega ójafn. Þegar Paletstínumenn senda heimagerðar eldflaugar á Ísrael (þær hafa drepið mjög fáa), þá svara Ísraelsmenn yfirleitt með loftárásum, gerðum af bandarískum herþotum af fullkomnustu gerð. Enda er talið að mannfall meðal Palestínumanna (og Araba) í þessum átökum í gegnum tíðina sé allt að fimmfalt hærra en hjá Ísraelsmönnum.
Fyrir skömmu beindi Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands þeim tilmælum til stjórnvalda í Ísrael að hætta við þessar fyrirhuguðu áætlanir og öll helstu ríki Evrópu hafa lýst yfirvanþóknun sinni á þessum fyrirætlunum.
En hvað með íslensk stjórnvöld? Ætla þau að mótmæla og lýsa andúð sinni á þessum hugmyndum Ísraelsmanna? Þó sagt sé að Ísland hafa eitt og sér hafi ekki mikið vægi í alþjóðamálum ætti það að mínu mati vera sjálfsagt mál að land sem telur sig virða frelsi og mannréttindi sláist í hóp annarra ríkja og mótmæli þessum fyrirhuguðu yfirgangsaðgerðum, sem koma sennilega einungis til með að auka vandamálin á svæðinu, mögulega leiða til aukinna og nýrra átaka, mannfalls og þjáninga.
Höfundur er stjórnmálafræðingur.