Ef marka má Íslandsstofu og ferðamálaráðherra, eru nú óvissutímar, jafnvel svo að jafnist á við kreppuna 1929 eða lok seinni heimsstyrjaldar 1945. Þetta má sjá og heyra í kynningu, sem haldin var vegna markaðsátaksins „Ísland – saman í sókn“.
En það er huggun harmi gegn að Ísland er enn aðlaðandi í augum erlendra ferðamanna, þekkt fyrir fallega og hreina náttúru; hér hefur tekist vel að taka á Covid-19 faraldrinum og landið er þekkt fyrir öryggi, heilbrigði og heilnæmt umhverfi, það er strjálbýlt en býr yfir sterkum innviðum.
En það kom líka fram að það líka afar brýnt að hin efnahagslega mikilvæga ferðaþjónusta rétti úr kútnum og til þess að svo megi verða var undir „öruggri handleiðslu Ríkiskaupa“ valinn „öflugur aðili“ til að annast þann hluta málsins – M&C Saatchi, markaðsstofa. Hún starfar auðvitað samkvæmt ákveðinni aðferðafræði.
Fulltrúi M&C Saatchi talar um „breytilega tíma“ þar sem Íslandsstofa og ferðamálaráðherra tala um „óvissutíma“. Í „breytilegum tímum“ felast möguleikar. Þeir snúa að þeim erlendu ferðamönnum sem eru líklegir til að koma til landsins á undan öðrum eftir Covid-19 faraldurinn. Þeir eru velstæðir fjárhagslega og sólgnir í að ferðast, en þeirra ferðalög snúast fremst um það að geta mátað sig og sitt gildismat við hreina náttúru, landslagsfegurð og ævintýri í heimi öræfa. M&C Saatchi telja sig geta boðið þessum ferðalöngum uppá Ísland til að öðlast staðfestingu á að þeir séu unnendur náttúru og vistkerfisvænir. Það munu þeir fá vottað með því að geta sagt vinum og vandamönnum „sjáið tindinn, þarna fór ég“ – og áherslan er á „ég“.
Þessir ferðamenn líta á náttúru Íslands sem neysluvöru sem þjónar þeim tilgangi fyrst og fremst að staðfesta að þeir séu fjallagarpar, náttúruunnendur á eigin forsendum. Þeir ferðast ekki á forsendum náttúrunnar. Upplifun þeirra snýst um að staðfesta sjálfsmyndina, en tekur ekki mið af því einstaka vistkerfi sem einkennir íslenska náttúru. Það er sorgleg staðreynd – en þannig er lagt upp með auglýsingaherferð M&C Saatchi og sýnir sig m.a. í þeim hátölurum sem eiga að miðla streitulosunaröskrum ferðalanga í ákveðnum náttúruperlum landsins.
Ef rýnt væri í aðferðafræði M&C Saatchi útfrá sjónarmiðum síðnýlendustefnu færi trúlega hrollur um ansi margan Íslending, sem til þessa hefur staðið í þeirri trú að Ísland sé hvorki nýlenda né hjálenda í þjónustu erlends afls. Hugsum sem svo, að erlendum ferðamönnum væri gefinn laus taumur innan veggja Þjóðminjasafnsins og leyft að skreyta sig með hvaða grip sem væri til að taka facebókarsjálfu og skapa skemmtilegar uppstillingar með sjálfum sér í brennidepli og þyrfti þá kannski að beygja eitthvert silfurarmbandið til að koma því á úlnlið, nú, eða rífa upphlut til að komast í hann eða þætti sniðugt skera út nafnið sitt á 17. aldar ask til að fullnægja þörfinni til að staðfesta sig sem skemmtilegan gaur, þá væri það allt í lagi samkvæmt aðferðafræði M&C Saatchi.
Þessir ferðamenn tilheyra réttum markhópi og skilja hvernig Ísland, íslensk menning og íslensk náttúra staðfestir ímyndina af þeim sjálfum sem menningar- og náttúruelskandi mannverur! Eða hvað?
Það er mögulegt að selja Ísland á sjálfsímyndarútsölu eins og að ofan greinir í ljósi þess að hér vantar enn heildarstefnu í ferðaþjónustu, sem myndi, ef skynsamlega væri að verki staðið, að sjálfsögðu ganga út frá hagsmunum landsins, náttúrunnar, þjóðarinnar og menningu hennar og sögu.
Höfundur er leiðsögumaður og leikstjóri.