Af hverju virðist það vera að við getum ekki setið kyrr með lokuð augun og verið alsæl? Af hverju virðumst við nauðbeygð til að sækja í ytri skynjun til að upplifa vellíðan þó svo að öll okkar vellíðan komi fyrst og fremst að innan? Getur verið að það hvernig við berum okkur hafi eitthvað með það að gera?
Ef við ímyndum okkur hóp af fólki sem við neyðum til þess að ganga með hokið bak og niðurlút í heilt ár og annan hóp sem við neyðum til að ganga upprétt með beint bak, er svo galið að ímynda sér að þessar líkamsstöður hafi áhrif á það hvernig þessar manneskjur upplifi lífið?
Að einhverju leyti er þetta það sem jóga-fræðin hafa rannsakað í þaula. Þ.e.a.s. að með því að setja líkamann í ákveðnar stellingar þá hefur það ákveðin áhrif á ýmis kerfi líkamans sem gerir okkur kleift að upplifa lífið á betri veg en ella.
Isha Yoga-samtökin eru góðgerðasamtök sem rekin eru af sjálfboðaliðum með það að markmiði að uppfylla þá hugsjón að fá hverja manneskju til að blómstra til sinnar ýtrustu getu. Aðferðirnar sem samtökin beita til þess eru mismunandi en sem dæmi má nefna eru stórtækar gróðursetningar trjáa, aðstoð í fátækrahverfum í formi kennslu, matargjafa og aðgengi að ókeypis heilbrigðisþjónustu, og svo jógakennsla með beina skírskotun í hin fornu jóga-vísindi. Jóga sem er ekki eingöngu tegund af líkamsrækt heldur jóga sem gefur þér færi á að meðhöndla þinn innsta kjarna sem gerir þig að því sem þú ert.
Algengt er að þegar fólk hugsar um jóga þá hugsar það um hinar og þessar teygjur og stellingar sem jóga er orðið svo þekkt fyrir. En jóga er meira en bara teygjur og stellingar. Það að lesa bók getur verið jóga. Það að heimsækja ömmu þína getur verið jóga. Það að hlusta á tónlist getur verið jóga. Í rauninni er jóga allt sem þú gerir með það að markmiði að eyða þeim hömlum sem þú ósjálfrátt hefur sett þér.
Til frekari skilgreiningar þá hafa jóga-fræðin aðgreint jóga í fjóra flokka; greindar-jóga (gnana yoga), tilfinninga-jóga (bhakti yoga), athafna-jóga (karma yoga) og orku-jóga (kriya yoga). Hægt er að halda því fram að Íslendingar, og Vesturlandabúar almennt, séu góðkunnugir fyrstu þremur flokkunum af jóga en þegar það kemur að orku-jóga sé reyndin önnur. Orku-jóga beinir sjónum sínum að þeim grunni sem tilveran okkar byggist á, þessari sameiginlegu orku sem nútímavísindi eru nú þegar farin að sýna fram á að sé það sem tilvera okkar sé í grunninn. Þó að það virðist hafa átt sér stað einhver vitundarvakning í þessum efnum nýlega, þá er ekki hægt að segja að nálgunin sé alltaf byggð á eins ígrunduðum fræðum og jógafræðin bjóða uppá, fræði sem Patanjali tók meðal annars saman í Yoga Sutras. Þeir sem kynna sér þessi fræði munu sjá að möguleikar mannslíkamans séu geigvænlegir miðað við það hvað almennt er talið og má þar nefna sem dæmi matarvenjur og svefnvenjur.
Isha Yoga-samtökin hafa einsett sér að nálgast jóga út frá þessum fræðum. Þeir sem stunda orku- jóga af alvöru þurfa að gera það af mikilli einurð og tileinka sér mikla nákvæmni. Því þó það virðist sakleysislegt að teygja sig reglulega í hinar og þessar stellingar þá er reyndin sú að allt það sem hefur getu til að umbreyta lífi okkar hefur þá getu að breyta því bæði til góðs eða ills. Þeir sem ekki hafa tök á að stunda slíkt jóga þá er til einfaldara form af jóga æfingum sem kallast Upa jóga. Hægt er að nálgast þessar æfingar með því að slá inn Upa yoga á youtube.com eða á isha.london/upa. Kennslumyndbandið er rúmur klukkutími að lengd og býður það upp á 20 mínútna jógaæfingar sem hver sem er eldri en sjö ára getur gert að eigin vild þegar honum hentar. Þessar jógaæfingar ættu að henta vel öllum þeim sem hafa áhuga á að innleiða vel ígrundaðar jógaæfingar í sitt daglega líf og þeim sem vilja líta inn á við þar sem öll okkar upplifun sprettur frá.
Höfundur er sjálfboðaliði hjá Isha Yoga-samtökunum.